08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Gunnar Ólafsson:

Það blæs ekki byrlega fyrir breytt. mínum, fremur en vant er, þar sem þær hafa báðar mætt andmælum. Eg skal taka það fram viðvíkjandi fyrri tillögunni, að mér er ekkert kappsmál að koma henni fram. Eg kom fram með hana af því að mér sýndist hentugra að sýslunefndirnar ættu nokkurn þátt í samning ferðaáætlananna. En þar sem hv. 2. kk. þm. hefir bent mér á ýms vandkvæði á þessu, bæði nú í ræðu sinni og áður í samtali, þá hefi eg sannfærst af því, og skal lýsa því yfir, að eg tek þessa breytingartillögu aftur.

En þá er hin breytt. á sama þskj. Um hana er öðru máli að gegna, enda varðar hún meiru. Eins og nú stendur, sé eg ekki betur en að Vestmannaeyjar fái ekkert samband, hvorki loftskeyti eða síma. Þetta eru illar búsifjar fyrir Vestmannaeyjar, því fremur sem þingið 1909 taldi nauðsynlegt og sjálfsagt að koma eyjunum í samband sem allra fyrst. En þeir sem voru sem ákafastir þá, berjast nú á móti því að nokkurt samband fáist. Eins og kunnugt er, hefir þessi deild felt allar tillögur neðri deildar í þessu efni, og ekki sett neitt í staðinn. Því hefir verið barið við, að fjárhagurinn væri slæmur, sérstaklega þar sem ætlast var til að Skaftafellssýslu yrði komið í loftskeytasamband jafnframt. Þessvegna hefi eg slept þeirri tillögu, en fer að eins fram á samband við Vestmannaeyjar, það kostar miklu minna og er aðgengilegra að því leyti. Það er að eins farið fram á 40 þús. kr. síðara ár fjárhagstímabilsins. Eg skal ekki fara að rekja þetta mál eða orðlengja um það, því að það er margrætt bæði í þessari deild og neðri deild. En þar sem svoleiðis andar á móti þessari tillögu, að eg býst varla við að hún gangi fram hér í deildinni, þá verð eg að geta þess, að mér þykir afstaða hv. mótflokks einkennileg og ósamræm sjálfri sér, þar sem hann vill fella þessa till. um stofnun loftskeytastöðva, en vill þó hins vegar taka aftur tillögurnar 11 og 12 á þskj. 951 og láta standa á fjárlögunum fjárveitingu til reksturs loftskeytastöðva í Vestmannaeyjum, Vík og Hornafirði. Þetta er einkennileg stefna og verður ekki annað séð en þetta sé hreinn og beinn skrípaleikur. Hv. frsm. færði þá ástæðu, að það mætti ekki hrófla við þessum liðum, af því að forseti sameinaðs þings gæti brotið þingsköpin, ef það væri gert. Eg ætla að forseti sameinaðs þings hafi ekki brotið þingsköpin í neinu og því engin ástæða að óttast þingskapabrot af honum framvegis. En þar sem hv. frsm. gaf svona fáránlega ástæðu fyrir því, að hann tæki aftur breytingartillögurnar 11 og 12 á þskj. 951, þá lýsi eg því yfir, að eg tek þessar breytingartillögur upp aftur. Úr því að þær hafa verið bornar fram, er rétt að deildinni gefist kostur á að greiða atkvæði um þær, enda get eg ekki séð neina ástæðu til að veita fé til starfrækslufyrirtækis, sem þingið ætlast ekki til að verði komið á stofn.