24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Stefán Stefánsson:

Eg vil aðeins leyfa mér að minnast á það, sem okkur nefndarmenn hefir greint á um, nefnilega viðskiftaráðunautinn. Hann hefir vissulega fengið meira fé en honum var ætlað. Hann er skipaður frá 1. ágúst og bar því ekki að fá laun nema 5 mánuði af árinu 1909 — eða 4166,67 í stað þess að hann hefir fengið 5000 kr. eða fult kaup fyrir 6 mánuði, og þar að auki verið veittur 600 kr. ferðastyrkur til Ítalíu, sem enginn sýnilegur árangur sést af. Þessar fjárveitingar virðast mér því lýsa nokkurri ógætni í fjárreiðum frá stjórnarinnar hendi.

En aðallega vildi eg minnast á fjárveitingu til manns í Hamborg, sem stjórnin kveðst hafa fengið þar til að aðstoða sig við samningaumleitanir við þýzk gufuskipafélög um ferðir hingað til landsins. — Því gat stjórnin ekki notað viðskiftaráðunautinn til þessa starfa, sem sýnilega var hans hlutverk, ef nokkur alvara hefir verið um útvegun á slíku tilboði. Að hinu leytinu er mikil freisting til að ætla, að þessar samningaumleitanir hafi verið algerlega tildur eitt, því eftir því kappi, sem stjórnin lagði á það á síðasta þingi að kaupa skip af einu ákveðnu gufuskipafélagi, þá hafði maður fulla ástæðu til að álíta, að það félag, Thorefélagið, mundi hljóta þessar ferðir hvað sem öðrum tilboðum leið. Það er því eigi alllítil ástæða til að halda, að ekki hafi verið mikil alvara í þessum samningaumleitunum í Hamborg, og viðvíkjandi því, sem meðnefndarmenn mínir, háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) og og háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.), segja í nefndarálitinu, að féð til viðskiftaráðunauta hafi verið veitt skilyrðislaust, þá er þetta dálítið villandi, því alls enginn vafi er á því, að þingið ætlaðist til að því væri varið einvörðungu til ráðunautsstarfa en ekki til hins eða þessa. Annars skal eg fyrir mitt leyti láta í ljósi óánægju mína og mér er óhætt að segja mjög margra yfir því, hvernig stjórnin hefir bruðlað með ráðunautaféð, því upphaflega var ætlast til, og á því hygg eg sé enginn vafi, að þeir væru tveir, og fjárveitingin gengi til þeirra sem næst til jafnra skifta, en nú er það svo, að þessi eini maður fær að mestu leyti alt það fé, sem þeim tveimur eða fleiri var ætlað. Þetta sem eg nú hefi drepið á, þótti mér ekki rétt að ganga með öllu þegjandi fram hjá, eða láta með öllu óátalið.