25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Björn Jónsson:

H. 2. þm. Eyf. (St. St.) rangfærði satt mál um það, að Bjarni Jónsson hefði getað hjálpað stjórninni við samningaumleitanir við gufuskipafélög í Hamborg, því það gerðist í júlímánuði, en Bjarni Jónsson var ekki skipaður viðskiftaráðunautur fyr en frá 1. ágúst, enda var ekki hægt að skipa hann, með því að fjárlögin voru ekki staðfest fyr en í júlímán. Hins vegar var ekki hægt að fá hæfan mann til þessa starfs fyrir minna en þetta, sem goldið var. Hitt, að viðskiftaráðunautar hafi átt að vera tveir, er gersamlegur misskilningur, eftir þeim lyktum, sem urðu á fjárlögunum. Það er satt, að upprunalega var til þess ætlast, en síðan horfið frá því. Þá var fjárveitingin höfð 20 þús. kr. En það var felt í Ed., og þar með eins hitt, að hafa ráðunautana tvo. Um Ítalíuferðina getur ráðunauturinn sjálfur gefið greinilegri skýrslu en eg. Hins skal eg geta, að honum var eftir erindisbréfi hans ætlað fyrir fasta kaupið, 10 þús. kr., aðeins að hafast við og ferðast um Norðurlönd og Þýzkaland, en lengri ferðir átti hann að fá goldnar aukreitis.