24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg vil víkja máli mínu að fjárveitingunni til Hamborgarmannsins. Eg er sammála háttv. þm. Barð. (B. J.) um, að allt er undir því komið, hvort fjárveitingin hefir verið réttmæt eða ekki; hitt er aðeins formsök, hver hlaut hana, — enda var viðskiftaráðunauturinn ekki skipaður þá.

En það er eitt atriði þessa máls, sem eg vil fara nokkrum orðum um. Eg hef ekki getað skilið »Ísafold« og háttv. þm. Barð. (B. J.) öðruvísi, en að þetta tilboð hafi verið útvegað, ekki til þess að fá tilboð, sem að yrði gengið, heldur til þess að fá tylliboð, sem hægt væri að veifa framan í þá, sem háttv. fyrv. ráðherra (B. J.) þá var að semja við; að öðrum kosti hefir þetta Hamborgarfirma verið ginnt til þess að gera boð og það látið standa í góðri trú, þótt stjórnin hafi aldrei í alvöru ætlað sér að gera samninga við það. Hvort sem nú heldur er, þá er það mín skoðun, að það sé ekki neinni stjórn sæmilegt að beita slíkri aðferð. Eg hef fundið ástæðu til að taka þetta fram, þó að fjárhæðin, sem um er að ræða, vaxi mér alls ekki í augum.