24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Framsögum. (Ólafur Briem):

Ágreiningurinn milli meiri og minni hluta nefndarinnar um þetta atriði er ekki mikill. Í nefndarálitinu er nákvæm sundurliðun á launum og ferðakostnaði viðskiftaráðunautarins og því fé, sem borgað hefir verið til umboðsmanns stjórnarinnar við samninga í sérstöku máli, gufuskipamálinu, er greitt var áður en hinn eiginlegi viðskiftaráðunautur var skipaður. Um hina síðast nefndu upphæð var enginn ágreiningur í nefndinni, enda hafa nú verið færðar ástæður fyrir, að hún hafi verið nauðsynleg. Hins vegar kom nefndinni saman um, að upphæðin ætti ekki fyllilega heima í þeim gjaldlið, sem hún hefir verið færð inn í, en þó hirti nefndin ekki um að færa hana til.

Ferðakostnaðurinn til Ítalíuferðarinnar er vafasamara atriði; hér veltur alt á því, hvort fjárveitingin til viðskiftaráðunautarins er skoðuð sem fastákveðin, þannig að hún bindi í sér bæði laun og allan kostnað, svo að honum sé skylt að bera allan ferðakostnað. Nefndinni kom saman um, að eigi bæri að greiða viðskiftaráðunautnum sérstakan ferðakostnað fyrir ferðir hans í þeim löndum, sem honum var sérstaklega ætlað að dvelja í, sem sé Norðurlöndum, Þýzkalandi og Bretlandi, en meiri hluti nefndarinnar áleit sanngjarnt, að hann fengi kostnaðinn til Ítalíuferðarinnar sérstaklega borgaðan, með því að það er löng ferð og kostnaðarsöm og liggur fyrir utan hið fyrirskipaða starfsvæði. Annars er ekki nema gott, að umræður hafa orðið um þetta atriði, svo að ítarlegri upplýsingar hafa fengist um það. Mér hefir skilist svo, að það sé ekki beint tilætlun minni hlutans að halda málinu til streitu, enda er það ekki hægt að svo komnu, þar sem engin brtill. liggur fyrir. En auðvitað væri hægt að koma fram með breyt.till. við 3. umr.