21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Framsögum. (Ólafur Briem):

Tillögur nefndarinnar eru 10 talsins — og miða einkum í þá átt að gera landsreikningana gleggri og aðgengilegri, ekki að eins fyrir yfirskoðendur þeirra, heldur einnig fyrir alla þá, sem hafa hug á að kynna sér fjárhag landsins.

1. till. lýtur að því, að skorað sé á stjórnina að framfylgja stranglega fyrirmælum reglugerðar 13. febr. 1873 um opinber reikningsskil o. fl. Vitaskuld er þetta sjálfsagt og nauðsynlegt, enda oft vakið máls á því af yfirskoðunarmönnum, en jafnaðarlega hefir þingið látið sér nægja að yfirskoðunarmennirnir áminni stjórnina í það og það skifti í athugasemdum sínum, en oss sýndist nú að rétt væri að slík áskorun kæmi fram í eitt skifti fyrir öll í þingsályktunarformi, án þess þó að þar með sé sveigt að því, að um neina vanrækslu af stjórnarinnar hálfu sé að tefla.

2. till. Það er skorað á landsstjórnina að ganga ríkt eftir að umboðsmenn þjóðjarða innheimti jarðaafgjöld í tæka tíð og gæti þess að lögtaksréttur gjaldanna glatist ekki. Stjórnin hefir sem kunnugt er vikið frá 2 umboðsmönnum og þó það sé vafalaust án nokkurs fjártjóns fyrir landssjóð, þá þótti þó ástæða til að koma fram með þessa tillögu. Viðvíkjandi innheimtu þessari er það að segja, að í flestum umboðum er umboðsmönnum gert að skyldu að taka upp á sig þær skuldir, sem útistandandi eru við reikningslok; að eins í einu umboði er þessari reglu ekki fylgt, sem sé í Arnarstapa- og Skógarstrandarumboði. Láti nú umboðsmaður fyrirfarast að gera lögtak, eða láti lögtaksrétt fyrnast, þá getur svo farið, að landssjóður tapi.

3. till. um að reikingshaldarar opinberra stofnana semji reikninga þeirra sem greinilegasta og samkvæmasta ákvæðum fjárlaganna er framkomin í tilefni af reikningum frá lagaskólanum og gagnfræðaskólanum á Akureyri. Hinn síðarnefndi reikningur er samkvæmt svari ráðherra upp á athugasemd yfirskoðunarmanna ekki eins greinilegur og ætti að vera, en framvegis má búast við að bætt verði úr því.

4. till. fer fram á að taka allar umframgreiðslur í landsreikningunum sem nokkru nema, hvort heldur um er að ræða fastákveðnar fjárveitingar eða áætlaðar upphæðir lögmætra útgjalda, upp í frumvarp til fjáraukalaga. Um ýmsar af slíkum greiðslum er jafnaðarlega ágreiningur milli stjórnarinnar annars vegar og yfirskoðunarmanna landsreikninganna hins vegar, hvort fyrir þeim þurfi að leita aukafjárveitingar. Nú til þess að spara ágreining leggjum við til, að allar þessar umframgreiðslur séu teknar upp á fjáraukalög.

5. till. um að þess sé getið í athugasemdum við landsreikninginn, ef tollur er endurgreiddur, hvort heldur af því að hann er feldur niður eða innheimtur í öðru lögsagnarumdæmi, er aðallega til glöggvunar fyrir yfirskoðunarmennina, svo að þeir sjái fljótlega, hvort innheimtulaun séu rétt reiknuð.

6. till. er um það, að hinni árlegu skrá yfir eftirlaun prestsekkna, sem greidd eru úr landssjóði, fylgi fullnægjandi skýringar um viðauka og breytingar, er orðið hafa síðan næsta ár á undan. Um þessa tillögu má segja hið sama og þá fyrri, að hún er einkum til glöggvunar fyrir yfirskoðunarmennina.

7. till. er um að taka til íhugunar, hvort ekki séu tök á því að flýta fyrir framkvæmd gildandi laga um innlenda brunabótaábyrgð með breytingu á lögunum eða öðrum ráðstöfunum af hálfu löggjafarvaldsins. Eins og kunnugt er, hafa lög 22. nóv. 1907 um stofnun innlends brunabótafélags aldrei komist í framkvæmd, því ekkert útlent vátryggingarfélag hefir fengist til að taka að sér endurtrygging samkvæmt 6. gr. laganna. Þykir því ástæða til að ýta undir stjórnina, þrátt fyrir það, þó hún segist hafa vakandi auga á málinu.

8. till. er áskorun til stjórnarinnar um að taka til endurskoðunar fyrirkomulagið á reikningsskilum landssjóðs, og breyta því í þá átt, að landsreikningarnir hafi að geyma sem fyllst og glöggast yfirlit yfir allan fjárhag landssjóðsins, ekki að eins um tekjur og útgjöld, heldur einnig um eignir og skuldir landsins. Það kann nú að vísu að vera svo, að ekki sé auðhlaupið að því að taka upp í landsreikninginn skýrslu um allar eignir landsins, með því að margt af því yrði að vera komið undir mati, en hinsvegar væri það til mikillar glöggvunar um fjárhaginn, að hafa ábyggilega skýrslu í landsreikningnum um þetta.

9. till. er um það, að landsreikningurinn verði eftirleiðis árlega afgreiddur til yfirskoðunarmanna í tæka tíð, svo að nægur tími vinnist til allrar yfirskoðunarinnar, áður en alþingi kemur saman. Það hefir orðið nokkur misbrestur á þessu. Þannig var landsreikningurinn fyrir árið 1909 ekki lagður fram með athugasemdum og svörum fyr en liðið var á þingtímann, enda er reikningurinn ekki dagsettur fyr en 15. des. 1910, en athugasemdir yfirskoðunarmanna 21. jan. 1911, svör ráðherra 1. marz og tillögur yfirskoðunarmanna 14. marz eða réttum mánuði eftir að þingið var komið saman. Það er bæði óþægilegt fyrir yfirskoðendur að hafa mjög nauman tíma til að athuga reikninginn, og þá er heldur ekki hægt að taka upp í fjáraukalögin allar þær upphæðir, sem yfirskoðunarmenn leggja til að aukafjárveitingar sé leitað fyrir, og að það hefir nú ekki verið gert, stendur í sambandi við það, hversu landsreikningurinn fyrir árið 1909 hefir verið seint saminn og yfirskoðaður, sem sé ekki fyr en búið var að afgreiða fjáraukalagafrumvarpið.

10. till. lýtur að því, að auk hinna sérstöku reikninga, Byggingarsjóðsins, Fiskiveiðasjóðsins og Ræktunarsjóðsins, verði hinn árlegi reikningur Kirkjujarðasjóðsins ásamt fylgiskjölum afhentur yfirskoðunarmönnum til athugunar, eftir að hann hefir verið yfirfarinn af hinni umboðslegu endurskoðun. Viðvíkjandi reglugerð Fiskiveiðasjóðsins frá 31. júlí 1906 vill nefndin vekja athygli á því, hvort ekki muni vera athugavert að veita lán út á skip, nema líka sé önnur frekari trygging, t. d. fasteignarveð eða sjálfskuldarábyrgð áreiðanlegra manna. Ennfremur er þess að geta, að lánin eru veitt til 8 ára en afborgunarlaus 1—3 fyrstu árin, en það virðist hæpið, að rétt sé að hafa þau svo lengi afborgunarlaus, með því að í flestum tilfellum, ef útvegurinn ber sig vel, þá gefur hann fljótan gróða og miklar tekjur. Ennfremur sýnist ekki vera fullgild ástæða til að hafa vextina miklum mun lægri en af flestum öðrum lánum, sem sé 3%. Þvert á móti ætti það að vera regla, að taka hærri vexti af þeim lánum, sem minni trygging er heimtuð fyrir, en hins vegar gefa góðan arð.

Viðvíkjandi öðrum athugasemdum nefndarinnar, þá leyfi eg mér sumpart að geyma umsögn um þær til seinni umræðunnar, og sumpart til umræðunnar um fjáraukalögin.