21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg vil að eins leiða athygli háttv. deildar að 4. lið tillögunnar, sem leggur það til, að allar umframgreiðslur á fé, sem veitt er á fjárlögum, skuli teknar upp á aukafjárlög, ef þær nema nokkru verulegu. Eg get ekki séð annað, en að þetta ákvæði sé óþarft og miði að því einu, að leggja óþarfa ómak á þing og stjórn, þar sem um lögákveðin en áætluð útgjöld er að ræða. Það getur ekki verið um annað að ræða, þar sem gjöld þessi eru lögákveðin, en að alþingi hafi ætlast til þess, að þau yrðu svo af hendi greidd, að þau kæmu að notum, og stjórninni hlýtur því að vera heimilt að greiða þau, og þá með þeirri upphæð, sem þörf er á. Þegar lög fyrirskipa einhverja greiðslu, og upphæðin til greiðslunnar er sett eftir ágizkun, eða er áætluð, þá hlýtur stjórninni að vera bæði heimilt og skylt, að inna greiðsluna af hendi, án þess að leita samþykkis þingsins til hennar á eftir í aukafjárlögum. Eg sé því ekki, eins og eg þegar hefi tekið fram, að hér sé um annað að ræða en að leggja óþarfa ómak á þing og stjórn, sem vel má komast hjá. Eg vil leyfa mér að skjóta því til háttv. tillögumanna, hvort þeir gætu ekki fallist á, að 4. liður félli niður. En annars skal eg geta þess, að umframgreiðslur á öðrum liðum en þeim, sem áætlaðir eru í fjárlögunum, munu allajafna hafa verið teknar á aukafjárlög, og hygg eg að þeirri reglu muni verða fylgt framvegis.