08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Steingrímur Jónsson:

Eg ætlaði ekki að tala meira, en ræða hv. þm. Vestur-Skaftfellinga gerir það, að eg verð að segja nokkur orð til svars. Hann sagði, að það værum við Heimastjórnarmenn, sem berðumst móti því að Vestmannaeyjar fengju hraðskeytasamband. Þetta er staðleysa. Það vorum við, sem börðumst fyrir því á þingi 1909, að Vestmannaeyjar fengju síma. Og það var hv. þm. Vestur-Skaftf., sem þá var ákafastur að skera málið niður, og tókst það. Það vorum við, sem tókum það upp aftur á þessu þingi, að leggja síma til Vestmannaeyja. Og það var hv. þm. Vestur-Skaftf., sem tókst að drepa það, hann hafði enga Heimastjórnarmenn með sér í því, að eins einn milliflokkamann. Þetta vil eg undirstrika, úr því að þessi hv. þm. er að fara með þessa staðleysu hvað eftir annað. Ástæður okkar eru margteknar fram, fyrst að síminn er gagnlegri en loftskeyti, og í öðru lagi að hann er billegri. Þetta er margtekið fram, en þessi hv. þm., hinn 3. stærsti kaupmaður í Vestmannaeyjum, vill endilega láta eyjarnar vera sambandslausar. Aðferð þessa hv. þm. hér í deildinni í dag í þessu máli er skringileg, en hún er skiljanleg, þegar þess er gætt, að hann er að undirbúa það sem á að gerast í sameinuðu þingi á morgun. Þetta kom óvart fram áðan, þegar hann tók upp breytingartillögurnar um að fella niður fjárveitingarnar til starfrækslu lofskeytasambandsins til Vestmannaeyja. Aðferð okkar í þessu máli er enginn skrípaleikur, en hinsvegar skal eg játa, að það er ekki skemtilegt að þurfa að hafa þessa aðferð. Það er að sínu leyti eins og þegar maður fær sér traustan skáp og aflæsir honum vandlega. Það er kannske ekki skemtilegt, en það getur verið nauðsynlegt til þess að verjast því að það verði eyðilagt, sem í skápnum er geymt. Oss virðist réttast að læsa þessum lið fjárlaganna svo vandlega, að ekki verði í hann komist. Og hirðum þá minna um það, þó sumt sé þar sem við heldur kysum að ekki væri innilæst.

Viðvíkjandi breytt. hv. 1. kgk. þm. skal eg geta þess, að fjárveitingin var feld í neðri deild með 13 atkvæðum, en margir sátu, svo að það var meira en eins atkvæðis munur. Eg get sagt fyrir mitt leyti, að eg hefi ekki viljað taka þessa fjárveitingu upp aftur, af því að eg tók eftir því í Nd., að allmargir þingmenn búsettir hér í Reykjavík greiddu atkvæði á móti henni.