08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Kristinn Daníelsson:

Eg ætla að eins að segja örfá orð út af tillögu nefndarinnar um Keflavíkurveginn. Eg sé að nefndin ætlar ekki að gera endaslept við þennan veg, sem sýslubúar hafa lagt á sig að kosta að helmingi, með dæmalausri sjálfsafneitun, enda þó að svo standi á, að vegurinn hefði átt að kostast af landssjóði að öllu leyti, þar sem þetta er gegnumvegur um héraðið. Enda hefir það staðið til boða að vegurinn væri tekinn í tölu þjóðvega, en héraðsbúar vildu heldur fá veginn strax, þó að þeir yrðu að vinna það til að kosta hann að helmingi móti landssjóði. En nú er verið að þrykkja niður þessu framlagi til vegarins hvað eftir annað. Hv. frsm. sagði, að það væru til óeyddar 15 þús. kr. af veittu fé til þessa vegar. Það er ekki nema 13 þús. kr. og verður unnið fyrir það fé í sumar.

Eg skal leyfa mér, hinni hv. deild til upplýsinga, að geta þess, að sýslan er þegar búin að leggja miklu meira fé til þessa vegar — Keflavíkurvegarins, heldur en landssjóður hefir fram lagt. — Landssjóður hefir lagt fram 32 þús. og 100 kr., en sýslan 40 þúsundir króna; og þrátt fyrir þetta er verið að reyna að klípa utan af þessari fjárveitingu til vegarins.

Hv. frsm. sagði, að vegurinn stæði ekki undir umsjón landsverkfræðingsins; það er að miklu leyti rétt, því að í skýrslu hans voru allar sýslur upptaldar, nema Kjósar- og Gullbringusýslu — en hversu sanngjarnt það er, ætla eg að leggja undir dóm hinnar hv. deildar og annara skynbærra manna. Það er að vísu satt hjá hv. frsm., að töluvert auðveldara er að leggja veginn, er kemur suður fyrir Stapa; þar er nokkuð hægra með ofaníburð. En eg þykist hafa áður rökstutt það, að hvorki sé rétt né sanngjart að spyrna á móti þessum vegi lengur.

Þá vil eg leyfa mér að minnast á það, sem hv. frsm. sagði um eftirgjöfina á láninu til Barðastrandar og Vestur-Ísafjarðarsýslu; og eg vil enn taka það fram, að landssjóður hefði hiklaust átt að greiða alt féð, sem til símans þurfti. Og þetta er í raun og veru alls ekki eftirgjöf, heldur þvert á móti, að eins farið fram á, að staðið sé við áður gerðan samning.