24.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Ráðherrann (B. J.):

Það er gert að sannleika, er stendur í enskri skýrslu Einars Benediktssonar, og látið heita eins og eg hafi flutt sjálfur það, er þar stendur!

Þá voru mér send illyrðaskeyti út úr blaðamálaferlunum; það átti að vera níðingsverk að lögsækja málgögn minni hlutans! Eg geri ráð fyrir, að öðru vísi verði á litið af öðrum síðar meir. Eg hafði árum saman látið hlutlausar níðgreinar um mig, sem látlaust rigndi niður um mig, einkum frá því um 1908—1909. Sjálfur hefi eg litla vitneskju um níðið, því að eg sé aldrei málgögn þessi, en vinir mínir og kunningjar höfðu ráðlagt mér að lögsækja þau, til þess að láta ekki ósómann vaða uppi alveg að ósekju og veitti eg því umboð til þess. En enga tölu kann eg lögsóknanna; svo er krökt af þessum óþverra. Það, að jafna þessu við lögsóknir Alberti, mun sprottið af ókunnugleika fremur en ásetningsblekkingum. Það væri ófögur saga, ef lýsa ætti framkomu þessara málgagna og leppritstjóra, sem hafa að bakhjarli menn, sem eru ella í tölu stórhöfðingja landsins.

Loks held eg, að virðulegur 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hafi komist inn á að minnast á stjórnarfrv. og drátt á þeim, en það held eg, að flestir kannist við, að sé rökstuðningslaus sleggjudómur frá upphafi til enda. Það má ætíð segja, að það og það sé gagnslaust og alsiða að telja það hrakníð, að eitthvert frv. er þýtt úr dönsku og hefir þó fyrverandi stjórn og háttv. þm. sjálfur notað þá aðferð. Það, sem þýtt er af stjórnarfrv. í þetta sinn, er samið af úrvalsmönnum á öllum Norðurlöndum og er í öndverðu komið frá þýzkri löggjöf. Eg er ekki í vafa um, að þegar menn fara að fjalla um frv., þá leggi menn alt annan dóm á það verk.

Enn mintist sami háttv. þm. á fjárlagafrv. og taldi áfengistollinn settan vitleysislega háan, en engin rök færði hann fyrir því. Hann athugaði það ekki, að fyrir nýár má flytja inn ógrynni af vínföngum til margra ára. Áætlunin er vitanlega ágizkun, en styðst við fróðra manna álit.

Einhverjar bollaleggingar og brigzl til mín um bankavaxtabréf Íslandsbanka var háttv. sami þm. með, en eg læt mér nægja að mótmæla því sem helberum ósannindum. Eg gæti farið dálítið út í að lýsa óreglunni við landsbankann, en eg sleppi því nú, því að eg mun gera það þegar þess þarf, og tel óviðurkvæmilegt að hleypa inn í þetta dómadagsfargan öllum málum, sem hugsanlegt er, að rædd kunni að verða á þessu þingi eða fyrir tekin.

Eg hefi nú leitt full rök að því, að þær ástæður, sem fram hafa verið bornar til að fóðra þetta áform, að ráða mig af dögum, eru að miklu leyti helber hégómi, sem enginn maður gæti haldið fram nema í gamanleik. Hér er brugðið fyrir sig þeim ósannindum og rangfærslum, að ekki verða bornar saman við annað en öfugmælavísur þær, sem eg fór með í kvöld. Eg býst þó við, að flutningsmenn þessa máls hafi sitt fram að þessu sinni. En þó getur svo farið, að sannleikurinn sigri síðar meir og að rangindin og ósannindin verði þeim til maklegrar ófrægðar, sem tillöguna flytja og styðja.