25.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Björn Kristjánsson:

Umræður um þetta mál eru nú orðnar alllangar og talsvert hefir verið tekið fram af því, sem eg vildi sagt hafa. Eg stend aðallega upp til þess að svara tveim atriðum hjá háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.). Hann hélt því fram, að rétt væri að blanda saman venjulegum eldhúsdegi við þessa alvarlegu stund, þegar um það er að ræða, að vísa ráðherra á bug, og þá auðvitað fyrir einhverjar stórar sakir. Mér finst það óskylt mál, eldhúsdagur og vantraust til ráðherra. Eldhúsdagsverkin eru í því fólgin, að tína til alt smátt og stórt, sem stjórninni verður fundið til foráttu, án þess nokkrum detti í hug að fella ráðherra fyrir það. Með þessum hætti má alt af tína saman sæg af aðfinslum. Þessu hefir hinn háttv. þm. blandað alveg saman. Þótt eitthvað finnist athugavert við starf einhvers manns, þá er honum þó ekki vísað á bug jafnharðan fyrir því; þarf ekki annað en benda á dæmi úr daglegu lífi til að sanna þetta. Eg tel sjálfsagt, að h. háttv. þm. sjálfur hafi haft misjafna þjóna og hafi þó ekki rekið menn frá sér fyrir smámisfellur, heldur ámint þá um að bæta það, sem aflaga hefir farið, en ekki rekið þá fyr en mjög mikið hefir verið afbrotið. Þessu hefir h. hv. þm. blandað saman, smásökum og stórsökum. Og þegar um frávikning ráðherra er að ræða, þá er hún óeðlileg nema um miklar sakir sé að ræða.

Annars voru í ræðu háttv. þm. að eins tvö atriði, sem voru nokkurs virði og gætu orðið því valdandi, að ráðherra yrði vísað frá, ef hann hefði skýrt rétt frá.

Í fyrsta lagi bar hinn háttv. þm. ráðherra það á brýn, að hann hafi setið landinu í ljósi fyrir hagkvæmu láni af þeirri ástæðu, að sonur hans (ráðherra) hefði verið í útvegum um lán annarstaðar. Ef þetta væri satt, væri það næg ástæða til að víkja ráðherra frá. En þessi áburður á ráðherra er blátt áfram fjarstæða, og mun eg nú sýna fram á það.

Á síðasta þingi barst kvis um það, að franski konsúllinn hefði með höndum lánstilboð til alþingis. Ekki var á þetta minst fyr en í þinglokin, og ímynda eg mér, að tilboðið hafi ekki verið til nema á vörunum, enda lagði eg ekki mikið upp úr þessum fréttum. Mér voru sögð þessi tíðindi af einhverjum úti í bæ, og grenslaðist eg ekkert eftir þeim, því að eg lagði eigi trúnað á þau. Og það veit eg, að aldrei fékk stjórnin neitt tilboð frakkneskt á þeim tíma, ekki sá eg heldur neitt þvílíkt tilboð. Út úr þessu spanst svo tilraun til þess að vita, hvort franski konsúllinn mundi ekki geta útvegað fé til láns á Frakklandi, og stofnaðist félagsskapur í þessu augnamiði hér í bænum. Síðan var gerður út maður privat fyrir félagsins eigin reikning, en ekki á kostnað landssjóðs, þótt svo væri sagt í blöðunum, að ráðherra hefði gert hann út. Auðvitað mundi landinu í heild sinni hafa verið hagur að því, að þetta lán hefði fengist með aðgengilegum kjörum. Þessi maður fór til útlanda og stóð í sambandi við herra Brillouin konsúl. En þegar hann kom aftur úr þeirri för, var hann vondaufur um, að þetta næði fram að ganga. En nokkru síðar lét konsúllinn svo, sem lán væri fáanlegt Eg man ekki hvaða dag, en mig minnir, að það væri í marzmánuði 1910, að konsúllinn kæmi til bankastjórnar landsbankans með blað, og stóð þar á, að á boðstólum væri 3 miljóna króna víxillán, ef samkomulag næðist. Þetta acceptcreditlán, sem hann bauð landsbankanum, átti að vera nokkurskonar fyrirrennari, eða undirbúningsviðskifti undir stærra landslán, sem næsta alþingi yrði boðið. Lánið átti að vera með dýrum kjörum, 5%, og gat landsbankinn eðlilega ekki haft nema lítil not af því. Þetta blað, sem áður var ávikið, var ódagsett og óundirskrifað, en var vitanlega trúað, þar sem maður í slíkri stöðu átti í hlut, auðvitað hefði verið krafist umboðs, ef til lántöku hefði komið. Eg hygg, að þetta tilboð hafi aldrei til stjórnarinnar komið. Þetta mál hefir vakið nokkrar umræður í blöðunum, en þetta er alt og sumt, sem um það er að segja; ekki var neitt afgert um það. En bak við þetta tilboð munu hafa legið þær kröfur til landsstjórnarinnar, að því er kunnugur maður hefir sagt mér, — það kom auðvitað ekki fram í áminstu bréfi til bankastjórnarinnar, — í fyrsta lagi, að aðflutningsbanninu yrði frestað, í öðru lagi yrði Frökkum gerður kostur þrátt fyrir lág tilboð annara að sitja í fyrirrúmi með fyrirtæki í þarfir landsins, bæjarfélaga eða sýslufélaga, með öðrum orðum, öll samkepni yrði útilokuð og einveldi í öllum fyrirtækjum þessa lands. Þriðja skilyrðið var það, að mál Jóns Jenssonar yfirdómara yrði tekið fyrir sem sakamál. Fyrir þetta hefir bankastjórn og landsstjórn verið legið á hálsi, og það jafnvel verið gefið í skyn hér í kvöld, að hætt hefði verið við að taka tilboðinu vegna þess, að sonur ráðherra hafi gert einhverjar ráðstafanir til að útvega fé í útlöndum. Til sönnunar þessu skal eg með leyfi hæstv. forseta lesa upp bréf frá franska konsúlnum, sem tekur af öll tvímæli um það, að kjör þau, sem bankanum voru boðin, voru með öllu óaðgengileg. Bréfið hljóðar svo:

»Vice-Consulat de France Reykjavík.

Reykjavík le 11. maí 1910.

Til framkvæmdarstjóra landsbankans Reykjavík.

Sem svar upp á beiðni yðar viðvíkjandi láni því, sem persónulegur vinur minn, hr. Rouvier, hafði lofað mér ykkur til handa, til þeirrar tilteknu notkunar, sem við höfum talað um, skal eg leyfa mér að skýra ykkur frá því, að hr. Rouvier hefir tilkynt mér, að í trausti til skýrslu minnar um fjárhagsástand Íslands, í trausti til loforða íslenzku stjórnarinnar um hlunnindi þau, er ráðherra Íslands hefir gefið loforð um, í trausti til loforðanna um eftirlit með notkun fjárins, eins og við höfum talað um, í trausti til þess, að landsstjórnin geri bráðlega þær ráðstafanir viðvíkjandi hr. Jóni Jenssyni og Reykjavíkurbæ, er sýni og sanni, að réttvísi er til í landinu, gangi hann að því að veita lánið, sem um hefir verið talað, með þeim skilmálum, sem fyr er sagt, og með þeim skilmálum, sem ykkur voru tilkyntir skriflega síðustu dagana í marz. — — —

Með mikilli virðingu

Brillouin«.

Eg vona, að eg þurfi nú ekki að lesa lengra. Þetta er með öðrum orðum ekkert annað en það, að landsbankastjórnin á að sjá um það, að hr. Jón Jensson og bæjarstjórnin verði tekin fyrir út af þrætumáli við konsúlinn! Það ætti ekki að þurfa að eyða orðum að því, hvílík fjarstæða það er, að stjórnin gæti gengið að nokkru tilboði, þegar önnur eins skilyrði eru sett, og þó er ráðherra nú brigslað um það, að hann gerði það eigi. Og svo er ekki nóg með þetta. Við gátum aldrei einu sinni fengið með vissu að vita, með hvaða skilyrðum konsúllinn vildi veita þetta lán, né væntanlegt landslán, sem var aðalskilyrðið fyrir því, að landsbankinn vildi nota þetta víxillánstraust að einhverju leyti. Það er því sannarlega engin furða, þótt stjórnin færi að leita fyrir sér í aðrar áttir um lán, og sízt ámælisvert, þótt hún gerði svo.

Þrátt fyrir alt þetta var nú bankastjórnin þó fús til nýrra samninga, ef aðgengileg boð fengjust, en hún hefir átt mjög örðugt viðfangs í því, ekki síður en þeir menn, sem ætluðu að reyna að útvega fé frá Frökkum. Og það væri ekkert ósanngjart, þótt þeim mönnum ýmsum, sem að þessu hafa unnið í góðu skyni og kostað til þess ærnu fé með dugnaði og ósérhlífni, kæmi eitthvert endurgjald fyrir það. Það ættu þeir skilið, því að það er altaf leiðinlegt, þegar menn reyna eitthvað, sem þeir treysta að muni verða landinu til gagns, og það verður þá eingöngu sjálfum þeim til skaða. Þetta mál, sem þannig er vaxið, nefndi háttv. 1. þm.

S.-Múl. (J. J.) sem dæmi þess, hve hæstv. ráðherra væri óhæfur fjármálamaður!

Hann hefir nú reyndar sjálfur svarað fyrir sig um afskifti sín af enska tilboðinu, og vil eg bæta því við, að þau hafi eftir atvikum verið þakkarverð, þótt það væri auðvitað nokkuð á annan hátt.

Það sem hinn háttv. þm. segir um skrif herra Einars Benedikssonar, þá getur ráðherra naumlega borið ábyrgð á þeim, sem hann skrifar niður í Lundúnum, og sem hann orðar með tilliti til þess, hvernig þau muni bezt hljóma í eyrum enskra hluthafa.

Þetta er alveg eins og alt annað í ræðu háttv. þm. Hún er öll eintómir vafningar. Sennilega veit hann ekkert í því, sem hann er að fara með, því að hitt er ekki líkleg tilgáta, að hann fari vísvitandi rangt með. En hann ætti að hafa sama fyrirvarann eins og Gróa á Leiti forðum og segja: »Blessuð, hafið þið mig ekki fyrir því!«

Þá kem eg að »Thore«-málinu. Það er önnur sökin, sem gæti verið frávikningarsök, ef rétt væri frá skýrt hjá þingmanninum, að ráðherra hefði framið lögbrot í samningnum við félagið. En eg mun nú reyna að sýna fram á, að svo hafi ekki verið.

Eins og menn muna, hefir því verið haldið fram, að »Thore« hafi fengið 20 þús. kr. meira, en það átti að fá. Þetta er ósatt, því að gjaldið sem sameinaða félagið átti að fá, ef Suðurlandsbáturinn hefði fengist, voru 40 þús. kr. og 20 þús. kr. umfram alveg eins og nú hefir verið samið. Þetta má sjá af ræðu h. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) á síðasta þingi, (Alþ.tíð. B. II. 1671), er eg skal lesa hér kafla úr með leyfi hæstv. forseta:

»Um Suðurlandsbátinn er það að segja að hægt væri að útvega hann, eins og bréfið ber með sér: hann gæti verið 150 tons og gengið frá Rvík til Hornafjarðar — eða jafnvel austur á Fáskrúðsfjörð. Það mundi kosta 20 þús. kr. á ári umfram hið venjulega tillag (40 þús. kr.)«.

Þarna sést hvort það er ekki rangt, að núverandi gufuskipasamningar séu 20 þús. kr. dýrari, en ferðirnar hafa boðist fyrir á síðasta þingi.

Þá sagði háttv. þm. að öll skilyrði 10 ára samningsins, eða flest, hefðu þegar verið brotin. Það þarf ekki annað en líta á síðustu fjárlög, eða athugasemdirnar við fjárveitinguna til póstskipaferða, og bera þær saman við samningana við »Thore« og hið »Sameinaða«. Háttv. þm. gat einungis um þann samning, sem gerður var við »Thore«. Honum gleymdist alveg að geta þess, að samið var við tvö félög en ekki eitt, með því móti, að sleppa að geta samningsins við annað félagið var ofur auðvelt að fá það út, að skilyrðunum hefði eigi verið fullnægt, því að í »Thore«-samningnum er ekki talað um nema 20 millilandaferðir, en sameinaða félagið samdi um 25 ferðir samtímis, svo að ef sá samningur væri sá eini, þá hefðum vér eigi fengið svo miklar umbætur, sem til var ætlast. En nú vill svo til, að vér höfum fengið 45 ferðir fyrir sama verð og sameinaða félagið bauð oss 25 ferðir fyrir áður, og þar að auk höfum vér hlotið svo stórkostlega samgöngubót, sem Hamborgarferðirnar eru. Til þess að geta haldið þessu fram, er eg gat um áðan, þurfti háttv. þm. að forðast að minnast einu orði á samninginn, er gerður var við sameinaða félagið.

Samkvæmt nefndri athugas. í fjárlögunum var áskilið, að 2 millilandaskipin hefðu kælirúm. Þau eru þar líka, hvernig sem þau verða notuð. Stjórnin er ekki sek, þótt það sé ekki gert sem skyldi. En svo er það umfram, að ráðherra hefir pressað út úr Thorefélaginu kælirúm í 2 strandferðabátunum, og sýnir það, að hann hefir þar litið á landsins hag, en eigi »Thores«. Enn hefir hann skuldbundið sameinaða félagið til þess að hafa þriðja kælirúmið í einu af sínum skipum, Ceres, eða öðru líku. Hann hefir hugsað að þörf yrði á fleirum, þegar almenningur lærði að nota þau, og því áskilið þetta um fram því, sem lögin áskildu. Kælirúmakröfurnar eru því meira en uppfyltar, og samgöngur höfum vér betri en tilboðið var frá því »sameinaða« 1909. Því getur enginn borið á móti. Ferðirnar eru ekki eingöngu 20 á ári, hjá »Thore« eins og þær áttu að vera, heldur 38, þótt félagið hafi ekki skyldu til að fara fleiri en 20. Þær eru svona miklu fleiri en þingið áskildi, og þó vilja menn enn ekki láta sér skiljast að samgöngurnar séu betri, en áður var. Þetta ætti þó engan að geta blekkt. Eins er uppfylt skilyrðið um Hamborgarferðirnar, og lítur út fyrir, að þær ætli að koma að góðum notum. Kaupmenn segja, að þar muni 10—15% á flutningsgjaldi, og er það stór hagnaður. Yfirleitt eru skilyrðin meira en uppfylt og tek eg þetta svo vandlega fram hér, af því að það hefði mátt nota fyrir sterkt vopn á ráðherra, ef svo hefði eigi verið. — Eg heyri, að einhverjir eru að segja, að það sé ekki rétt, að ferðirnar séu 38. Eg hefi hér fyrir framan mig áætlun um ferðirnar milli Kaupmannahafnar, Færeyja og Íslands. Hún er til sýnis.

Eg hefi þá skýrt það stuttlega, að samningurinn er í fullu samræmi við fjárlögin og ekkert út á skilyrðin að setja. — Um hitt má lengi deila, hvort ferðirnar séu hentugar, eða ekki. Væntanlega gerir ný stjórn far um að laga sumt þess konar, t. d. að ekki komi eða fari mörg skip á sama tíma og að skipin komi nú við á færri stöðum en áður. Annars kennir þess líka hér, að háttv. þm. tekur ekki tillit til þess, að samningarnir eru tveir. (Hannes Hafstein: Er alt bundið við 10 ár?) Já, »sameinaða« félagið er líka bundið í 10 ár. Eg geri ráð fyrir því, að »Thore« hætti ekki, en þótt sameinaða félagið hætti þá eru nógir aðrir til þess að taka við af því, »Thore« eða önnur félög, fyrir sama styrk. Það er full trygging fyrir því, að ferðirnar leggjast ekki niður.

Það er sagt að skipin fylgi aldrei áætlun. Það gera þó strandbátarnir. (Jón Jónsson 1. þm. S.-Múl.: Já, það sagði eg), Og »Sterling« líka. (Jón Jónsson S. Múl.: Jú). Og »Sterling« er skip sem fer margar ferðir. Dalla, sem sendir eru aukreitis hingað og þangað, er auðvitað engin skylda að láta halda áætlun. Það eru aðeins 20 ferðir af 38, sem eru bundnar við samninginn. Og ef félagið skyldi ekki halda hann, þá er auðvitað sjálfsagt að kæra það, og stjórnin skyldug að sinna því. Sú kæra hefir engin komið svo eg viti til, en kvartað hefir verið um þetta í heimastjórnarblöðunum og er ekki von að því sé sint. Það er ilt, að menn skuli vera svo deigir að kæra. Það ætti að kæra hlífðarlaust galla beggja félaganna, svo sem ef skipin eru að tefja sig á höfnum, þar sem þau eiga ekki að koma, því það þarf að venja félögin af allri slíkri misbrúkun, og brotum á áætlun sinni.

Eg stóð meðfram upp vegna þess, að háttv. þm. S.-Múl. (J. J.) gat þess tvisvar í ræðu, að landsbankinn hefði of marga starfsmenn, og fór þar um óvirðulegum orðum, sem hann mun hafa tekið upp úr heimastjórnarblöðunum, og það á nú alt að vera gott og gilt, sem þau flytja. Eg get vitnað til starfsmanna bankans, og sumir af þeim munu þó að minsta kosti vera trúverðugir í augum háttv. þingmanns, og þeir vita eins vel og eg, að þar er enginn maður vinnulaus frá kl. 8 á morgnana til kl. 7 á kveldin, og mun það vera einhver lengsti skrifstofutími hér. Það vita allir, að við slíkar stofnanir byrjar vinna vanalega ekki fyr en kl. 9 f. m. annarstaðar. Og allir þessir menn hafa nóg að gera. Ef nú verður skipuð ný rannsóknarnefnd, verð eg meira að segja að játa það fyrir henni, að við höfum enn hvergi nærri komist yfir alt, sem við ættum að vera búnir að fá vitneskju um í bankanum. Margir vilja gera samanburð við Íslandsbanka, en hve margar inn- og útborganir skyldi hvor hafa? Í landsbankanum eru þær yfir 60 þús. á ári, eða um 200 á dag, og eru þær færðar í margar bækur. Auk þess eru bréfaskifti sem óðum að aukast, svo að bréfaskiftin við útlönd þrefölduðust árið sem leið, og í janúarmánuði einum bárust bankanum 107 bréf útlend og 96 bréf innlend. Flestöll krefjast þau svars, og stundum verður að leggja talsverða hugsun í svörin.

Það kemur mér eiginlega ekki mikið við, þótt einhver segi, að bankinn hafi mist traust við stjórnarskiftin, en yfir því hefir mikið verið látið, hve það hafi orðið, bæði innanlands og utan. Eg nefndi það áðan, að bréfaskifti hefðu margfaldast, og þótt það sé ef til vill ekki okkur að þakka, þá bendir það þó til þess, að bankinn lifir góðu lífi, en ekki á neitt traustleysi. Innheimtur hafa aukist stórum, það get eg sýnt með tölum, og sama er að segja um sparisjóðsviðskifti, og bendir það ekki á traustleysi, þrátt fyrir hina miklu tilraun, sem gerð var í janúar í fyrra til þess að tæma sparisjóðsbækurnar. Einn háttv. embættismaður kom með 2 um miðjan dag, en 12 voru þær orðnar um kveldið, og alls misti bankinn í þessum mánuði um 200 þús. kr. Jafnvel norður á Sauðárkrók tók einn út 25 þús. kr. En þrátt fyrir alt þetta nemur þó sparisjóðsféð um 200 þús. kr. meira en í fyrra. Það vill til, að það er ekki svo auðvelt að koma skelk í fólkið. Það er skynsamt og ekki eins órólegt og óttagjarnt og víða í útlöndum. Auk þess eru samgöngurnar ógreiðari hér en annarstaðar, og því eigi jafnhægt að smala saman stórum upphæðum á skömmum tíma. Það skal og sagt mönnum til lofs, að margir lögðu inn í staðinn. Einn kom t. d. með 25 þús. kr., þegar hann sá, hvað verið var að gera.

Það væri nú auðvitað ýmislegt fleira, sem ástæða hefði verið til að athuga, ef tími hefði leyft, en eg sé ekki ástæðu til þess nú, þegar aðalkjarninn er svo hrakinn, sem eg vona að gert sé. Það hefir verið tekið fram áður, að margt af því, sem tínt hefir verið til ráðherra til foráttu, hefði miklu fremur átt við eldhúsdaginn. Það voru smámunir. Það er ekki nema sjálfsagt fyrir hvern og einn að finna að því, sem athugavert er hjá stjórninni, en umfram alt verða menn að finna rök fyrir sínu máli og segja það eitt, sem satt er. Annars er ekki við neinu að búast nema úlfúð og hatri milli þingmanna. Og það verður að heimta af þingmönnum, hver sem ráðherra er, að þeir fari með það eitt, er sæmilegt er, og eitthvað hefir við að styðjast.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) gat þess í niðurlagi ræðu sinnar, að ráðherrastaðan væri nú fallin svo í verði, að menn byggjust við pólitískum labbakútum í hana. Honum þótti það leiðinlegt, en mér hefði verið það meiri ánægja, ef hann tæki það sárt, ef breytingin yrði til þess, að trúlaus og siðgæðislaus labbakútur kæmi í stað núverandi hæstv. ráðherra.

Að svo mæltu skal eg ekki teygja tímann meira í þetta sinn.