25.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Sigurður Gunnarsson:

Maður er neyddur til þess að beygja sig fyrir atkvæðagreiðslunni og úrskurði forseta og halda áfram umræðunum, þó að nótt sé komin. Eg skal verða stuttorður því fremur sem eg er illa upplagður til að tala nú, en eg vil að eins gera stuttlega grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. Þetta er þýðingarmikið mál og úrslit þess hér í nótt geta haft þýðingarmiklar afleiðingar.

Allir minnast þess, sem fram fór hér í deildinni á alþingi 1909. Þá var eg einn af þeim, sem greiddu atkvæði með vantraustsyfirlýsingu til þáverandi ráðherra, Hannesar Hafstein, ekki af því, að eg bæri ekki virðingu fyrir kostum hans ýmsum, heldur af því, að mér virtist hann og hans flokkur hafa viljað stuðla að innlimun landsins í Danmörku með millilandasamningnum, uppkastinu svo kallaða, sem þá var barist um. Þetta var svo þýðingarmikið mál í mínum augum, að það var næg ástæða til vantraustsyfirlýsingar. Og mér virðist ólíku saman að jafna, þegar sú meginástæða er borin saman við þessar sakir á móti núverandi ráðherra, sem hafa verið bornar fram hér í deildinni í dag og í kvöld, og hann sjálfur hefir hrakið skýrt og ljóslega. Ekki svo að skilja, að mér líki allar gerðir núverandi ráðherra, en það sem mér mislíkar vegur ekki nærri upp á móti hinu, sem mér virðist hann hafa vel gert, og þar vaka aðallega fyrir mér gerðir hans í sambandsmálinu, sem hafa verið í fullu samræmi við óskir og vilja meiri hlutans. Ef dæmt er með sannsýni, þá sé eg ekki betur en hann hafi gert það sem hægt var að gera í því máli, undir þeim kringumstæðum, sem fyrir hendi voru. Eins og margsinnis hefir verið tekið fram, gat hann ekki skipað Dönum eða kúgað þá til að leggja sambandslagafrumvarp síðasta alþingis fyrir ríkisþingið. En hins vegar er það sannað, að hann hefir gert það sem í hans valdi stóð til þess að reyna að fá Dani til að gera það og meira verður ekki af honum heimtað. Enda viðurkendi jafnvel flutningsm. vantraustsyfirlýsingarinnar (B Sv.) þetta hér í deildinni í dag, þar sem hann sagði, að ráðherra væri ekki liggjandi á hálsi fyrir það, að hann gat ekki komið sambandsmálinu fram. Sumum hættir við, bæði í þessu máli og öðrum, er ráðherra hefir haft um að fjalla við Dani, að líta ekki nægilega á það, hve illa aðstöðu hann hefir haft í þeim, svo illa sem frekast mátti verða, ekki að eins vegna mótstöðu Dana, heldur einnig vegna mótstöðu Íslendinga sjálfra á móti málinu, því að það má heita, að minnihlutaflokkurinn hér (Hafsteinsflokkurinn), hafi tekið höndum saman við Dani, um að hefta framgang sambandsmálsins og annara mála vorra. Þetta kemur og saman við það, sem háttv. formælandi minni hlutans sagði hér í deildinni í dag, er hann taldi það hið mesta óhappaverk, að uppkasti millilandanefndarinnar var hafnað. Í þessu máli eru skoðnir flokkanna alveg gagnstæðar. Þegar svona var ástatt er óhætt að segja það, að hæstv. ráðherra hefir haft ákaflega erfiða aðstöðu, þar sem og er víst, að mótstaða eigin landa vorra innan minni hlutans, hefir fallið í góðan jarðveg hjá Dönum, sem vænta mátti og eg hygg, að varla verði bent á þann mann, sem hefði getað komið sambandsmálinu betur eða lengra áfram en hæstv. núverandi ráðherra hefir gert. Bezta sönnunin fyrir því, að minni hlutinn er í bandalagi við Dani um að hefta framgang málsins, er það hve Danir hafa mikið dálæti á þeim flokk. Það er fullkomin sönnun. Sú iðja, sem minni hlutinn hefir unnið í þessa átt, er nú hefir verið bent á, er einhver sú lúalegasta, sem unnin hefir verið á þessu landi. Hann hefir breitt út ósannar sögur um ráðherra, meðal annars komið Dönum á þá trú, að ráðherra væri grímuklæddur skilnaðarmaður. Og svo þegar ráðherra hefir af fremsta megni reynt að leiðrétta missagnirnar og koma Dönum í skilning um hið rétta, þá hefir aftur verið hrópað til þjóðarinnar hér heima: Þarna sjáið þið duluna, sem þorir ekki að standa við skoðanir sínar frammi fyrir Dönum. Þetta sýnir hverjum óhlutdrægum manni við hve mikla örðugleika hæstv. ráðherra hefir haft að stríða.

Þó að svo færi nú hér, að núverandi ráðherra yrði feldur, þá er ekki nema hálfsögð sagan og ekki það, því að ekki er víst að maður hreppi betra en það sem slept er. Sérstaklega vil eg benda háttv. meirihlutamönnum á það, hve varhugavert það getur verið, að stjórnarskifti fari fram einmitt á þessum tímum. Meðfram þess vegna skal eg lýsa því yfir, að eg mun greiða atkvæði móti þessari þingsályktunartillögu.

Eg býst annars ekki við, að langar umræður hafi neitt að þýða í þessu máli; deildarmenn munu þegar hafa tekið afstöðu sína og með því að nótt er komin skal eg ekki lengja umræðurnar frekar en orðið er.