24.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Magnús Blöndahl:

Eg hafði búist við því, að þeir sem mest kapp hafa lagt á það, að fylgja fram þessari vantraustsyfirlýsingu, bæði háttv. flutnm. og eins hinn háttv. minni hluti hér í deildinni, sem verið hefir, mundu, þar sem nú er komið fram á nótt, sýna þá sanngirni gagnvart hæstv. ráðherra og oss öðrum samþingismönnum sínum, að leyfa það, að fundi yrði frestað til morguns, en það er nú ekki því að heilsa. Hvorugum þessum herrum hefir þóknast að sýna þá tilhliðrunarsemi. Nei, nú tökum við saman höndum segja þeir, og erum í meiri hluta, og þið skuluð fá að beygja ykkur. Þetta kann nú, ef til vill, að þykja góð og drengileg aðferð frá vissu sjónarmiði, en grunur minn er sá, að meiri eða minni hluti þjóðarinnar kunni að meta framkomu þessara Heródesa og Pílatusa að verðleikum á sínum tíma.

Ef eg ætti að taka alt það fram, sem eg hafði hugsað mér, og ástæða væri til, þá mundi ganga til þess æði langur tími, en eg verð að vera stuttorður og get það líka, meðfram af því, að háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.), er síðast talaði tók margt fram af því, sem eg ætlaði að segja, og enda fleiri af þeim háttv. þm. sem talað hafa í dag, eða réttara sagt í gærkvöldi. Þó verð eg að dvelja lítið eitt við einstök atriði sérstaklega.

Framsm. minni hlutans, háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) drap á margt, þótt lauslega væri farið yfir það flest, enda var það heppilegast, þar sem hann hafði enga nýtilega ástæðu fram að færa ásökunum sínum til stuðnings, en margt af því, er hann var að fimbulfamba um, voru mál, sem hann, eftir eðli þeirra, hlaut að vera gerókunnugur, gat ekkert um þau vitað, og ekkert fyrir sér haft annað en órökstutt slúður manna á milli, og mest þó haft eftir minni hl. blöðunum.

Hann hefir máske haldið að því yrði enginn gaumur gefinn, sem hann sagði, eða að menn mundu gleyma því jafnharðan, og skal eg játa, að svo hefði það átt að vera; eg ætla þó ekki að ganga alveg þegjandi fram hjá því. Fyrst skal eg þó leyfa mér að fara lauslega yfir syndaregistrið, sem háttv. framsm. meiri hlutans (B. Sv.) kom með til stuðnings þessari mjög svo vanhugsuðu vantraustsyfirlýsingu, og verð eg þá þegar að lýsa yfir því, að aumari ástæður, eða lélegri rök hefi eg ekki heyrt færð fram nokkuru máli til stuðnings. Þess utan var margt af því, sem þessi háttv. flutnm. fann ráðherra til foráttu þannig vaxið, að ekki gæti ráðherra átt þar sök á, þó um sök væri að ræða, heldur þá ef til vill sumir af flokksmönnum hans. Þetta mátti háttv. flutningsm. vita manna bezt, og gæti eg tilnefnt óhrekjandi sannanir fyrir því, að eg fer hér með rétt mál, en eg skal nú geyma það þangað til síðar. Má vera að það verði þá gert svo, að enginn þeirra fimmmenninganna treystist til að mótmæla jafn einföldum sannleika.

Það eina skýra, sem eg fékk út úr ræðu klofningsframsögumannsins var það, að ef honum og félögum hans auðnaðist að losna við núverandi ráðherra, þá væri öllu borgið, þá mundum við líklega fá þann mann í ráðherrasessinn, sem ekkert væri út á að setja frá hvorugum flokknum. Eg verð að segja það fyrir mitt leyti, að eg hefi ekki þessa oftrú. Eg hygg, að sá sé enn ekki skapaður, sem ekki mundi eiga fyrir höndum að fá meira eða minna svipaða útreið, ef því væri að skifta, og þá, er núverandi ráðherra hefir fengið hér í kvöld. Og spá min er sú, að hver sem til þess verður, að taka við völdum nú, hann muni þegar á næsta þingári óska þess, að glapræði það, sem hér á að fremja í kveld, hefði aldrei verið unnið, að minsta kosti munu sumir af flutningsmönnum tillögu þessarar fegnir vilja óska þess, og það þegar áður þessu þingi er lokið. Eg segi þetta núna, til þess að það skuli sjást á sínum tíma, hvort eg hefi ekki rétt fyrir mér. Eg skal þá svara stuttlega hinum helztu sakargiftum, er háttv. framsögumaður meiri hl. (B. Sv.) hafði fram að bera máli sínu til stuðnings.

Það er þá fyrst framkoma ráðherra í sambandsmálinu, sem háttv. framsm. þykist þurfa að víta. En eg vildi spyrja, hvað átti ráðherra að gera frekar í því máli en gert var? Hvernig átti hann að þvinga Dani í því máli gegn einbeittum vilja þeirra sjálfra? Vill ekki háttv. framsm. benda á það?

Þá er það færsla þingtímans, og skal eg játa, að það mál gat ráðherra gert að kappsmáli þannig, að biðjast lausnar, ef hann hefði ekki fengið því máli framgengt. En það veit háttv. framsm., eins vel og eg, að á því á ráðherra þó enga sök, heldur miklu fremur miðflokksstjórnin eða meiri hluti hennar, sem ekki mun hafa viljað láta leggja svo mikið kapp á það mál, að ráðherra fyrir það skyldi hætta stöðu sinni. Þetta vita flutningsmenn tillögunnar vel, þar eð sumir þeirra voru einmitt í áðurnefndri flokkstjórn. Það er því miður drengileg aðferð, að koma nú fram með þessa ásökun.

Svo koma botnvörpusektirnar. Eg get ekki litið öðru vísi á það mál, en að ráðherra hafi þar ekkert af sér brotið; hann hefir þar engu lofað Dönum öðru en því, að bera málið fram á næsta þingi, eins og hann hefir nú gert, án þess að lofa þar um neinu frekar, hvorki fyrir hönd sjálfstæðisflokksins né annara. Ástæðan fyrir þessari ásökun er því einber hégómi og reykur. Um skilning ráðherra á þingsetu hinna konungkjörnu þingmanna má að vísu þrátta, en tilgangslítið og ástæðulaust virðist það vera, og vandi mikill að gera þar rétt upp á milli hans og flutningsmanna, en svo mikið má þó fullyrða, að réttmæt afsetningarsök getur það aldrei talist.

Þá er viðskiftaráðunauturinn og bréf ráðherra til Zahle í því sambandi talin afsetningarsök. Manni hlýtur að detta í hug málshátturinn: »Það er lítið sem hundstungan finnur ekki«. Og fátt sýnir betur, hve gersnauðir af réttum röksemdum flutningsmenn tillögunnar hafa verið og eru, að þeir skuli láta sér sæma að bera slíkt fram hér í þingsalnum, ef það eitt, að ráðherra svarar bréfum eða fyrirspurnum frá dönskum ráðgjöfum kurteislega, en ekki með illindum eða þjósti, á að varða afsetningu hans. Sama er að segja um ásakanirnar út af nafni ráðherra í bláu bókinni. Þetta voru nú ákærurnar út af framkomu ráðherra út á við.

Út af framkomu ráðherra inn á við tók flutnm. (B.Sv.) það fram, að ráðherra hefði mistekist mjög í rannsókn á landsbankanum; þar hefði alt farið í mola hjá honum, þar sem hann ekkert hefði skift sér af að rannsaka hag Íslandsbanka og gat um leið Akureyrar-hneykslisins. Þessari ásökun hefir þegar verið svarað af ráðherra sjálfum og fleirum og get eg því gengið fram hjá því, læt mér nægja að geta þess, að flutnm. hefir áður og eins reyndar nú í ræðu sinni játað, að ráðstafanir ráðherra gagnvart landsbankanum hafi verið á góðum og gildum rökum bygðar.

Tuttugu og fimm aura málið snertir ekkert ráðherra, hann var hvergi nærstaddur, er þau ráð voru ráðin og mundi heldur ekki hafa samþykt þau, ef af þeim hefði vitað.

Þá er undirbúningur lagafrumvarpa og skal eg játa, að æskilegt hefði verið, að hann hefði verið meiri og betri, en því munu hafa valdið óviðráðanleg atvik, svo sem heilsuleysi og fleira, svo ekki er réttmætt að taka hart á því.

Sama er að segja um dvöl ráðherra erlendis, að hún varð svo löng, kom af heilsufari hans.

Þá kemur þessi höfuðsök, er flutningsmenn vilja láta vera, að ráðherra skuli hafa gerst svo djarfur að koma á fund í hinu svokallaða skrælingjafélagi í Höfn og þegið heimboð hjá lýðháskólunum á Jótlandi. Eg get nú naumast hugsað mér, að flutn.m. hafi meint nokkuð með þessari broslegu ásökun; því að hvað er vítavert í þessu? Er það vítavert, að ráðherra þiggi slík boð frá mönnum, sem að mörgu leyti hafa sýnt það, að þeir vilja landinu vel? Er það vítavert, að ráðherra tekur þar rækilega málstað vorum, er á hann er ráðist af óhlutvöndum mönnum? Er það vítavert, að ráðherra sýnir sjálfsagða kurteisi með því að þiggja slík heimboð í stað þess að neita þeim ástæðulaust? Eg fyrir mitt leyti verð að neita því afdráttarlaust. Eg vona þá, að eg hafi sýnt fram á, hve gersamlega óréttmætar þessar ásakanir eru af hálfu flutningsmanna tillögunnar og læt því úttalað um þær að sinni.

Þá skal eg svara háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) nokkrum orðum, og skal eg þá fyrst snúa mér að því, sem hann fann ástæðu til að taka fram um einhverja fundi — eg held hann hafi kallað það þingmálafundi — er hann eða hans flokkur hafi haldið hér í bænum í fyrra. Eg veit nú ekki, hvers vegna hann fann ástæðu til að tala um þá í þessu sambandi? Það hefði vafalaust verið heppilegra af honum að hafa ekki hátt um þann óskapnað heimastjórnarmanna. Hann tók það fram í fyrstu, að til þessara funda hefði verið boðað af báðum flokkum, en tók sig svo á því og sagði, að það hefðu gert heimastj.menn og nokkrir menn aðrir. Hverjir voru það ? Ekki fleiri en einn eða tveir menn, og ekki var hreinlyndið meira en svo, að þingmenn bæjarins voru alls ekki hafðir með í ráðum, heldur var þeim eingöngu boðið á fundina löngu seinna á kortum. Eg ætla nú hverjum háttv. þm. sem er, að dæma um það, hvort við þingmennirnir gátum þegið þannig lagað boð, eða ekki, þar sem þetta voru sýnilega flokksfundir og annað ekki. Þarna var ekki einu sinni séð fyrir nægilegu húsrúmi. Því var það, að þingmenn bæjarins beittust fyrir því, að haldnir yrðu þingmálafundir á góðum stöðum, þar sem öllum kjósendum gæfist kostur á að hafa tal bæði af ráðherra og þingmönnum og koma fram með óskir sínar og kærur. Um framkomu ráðherra og þingm. á þeim fundum skal eg ekki tala margt; vil þó geta þess, að örðugt mun þingm. verða að umhverfa sannleikanum svo mjög í því efni — sem hann virðist hafa tilhneigingu til — að nokkur mætur maður verði til þess að trúa honum. Það hefði verið betra, að háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hefði skýrt réttara frá þessu í sinni löngu en þó að sumu leyti hógværu ræðu — því að það skal eg játa að hún var — úr því að hann fór að minnast á það á annað borð.

Þá mintist sami þm. á »hin taumlausu ósannindi«, sem ávalt stæðu í Ísafold — blaði ráðherrans er hann kallar. En þar hjó þm. heldur nærri sínum eigin vinum og átrúnaðargoðum, blöðum heimastjórnarflokksins. Ef borin eru saman blöð sjálfstæðismanna og heimastjórnarmanna undir stjórn H. Hafstein og aftur nú undir stjórn B. J., mun enginn óhlutdrægur maður neita því, að blöð minni hlutans nú, eru miklum mun ósvífnari og óskammfeilnari, en blöð meiri hlutans, sem nú er, voru gagnvart heimastjórnarflokknum í stjórnartíð H. H., þegar sjálfstæðisblöðin voru í »opposition«. Ekki skal eg neita því, að bardaginn var þá oft og tíðum harður. En hann var háður alt annan veg og miklu heiðarlegri vopnum beitt þá, af blöðum sjálfstæðismanna í garð Hafsteinsstjórnarinnar, heldur en nú á sér stað hjá blöðum heimastjórnarmanna.

Þá talaði þm. mikið um »óhappaverkið« er ráðherra hafi unnið þingi og þjóð í kosningunum 1908 og gat þess um leið, að millilandanefndin hafi unnið það þrekvirki, er mest hafi unnið verið á þessu landi næst lagauppsögn Þorgeirs Ljósvetningagoða í sinni tíð. Það vill nú svo vel til, að aðrar eins fullyrðingar og þessar, hafa venjulega gagnstæð áhrif við það, sem þeim er ætlað að hafa. Ósannindin á aðra hlið, en oflofið á hina hliðina svo áþreifanleg, að hver sá sem opin hefir augun og einhvern snefil af sannleiksást á til í eigu sinni, hlýtur að sjá í gegn um þennan ósannindavef og undrast þann mikilmenskubrag og ósvífni, sem inni felst í slíkum fullyrðingum. Að hér er ekki ofmælt, sést bezt á því, hvernig þjóðin leit á þetta þrekvirki millilandanefndarinnar við kosningarnar 1908.

Þá talaði sami þm. mikið um landsbankamálið og franska peningatilboðið og enska. En þar sem rangfærslum hans og staðleysum um þau mál, hefir verið svarað allrækilega af öðrum, læt eg mér nægja að geta þess, að hvað landsbankamálið snertir, þá er nokkuð snemt að kveða nú upp fullnaðardóm um það og trúað gæti eg því, að sagan á sínum tíma muni dæma öðru vísi um það mál. En hvað lánstilboðunum viðvíkur, þá hygg eg óhætt að fullyrða, að þm. er þar að dæma um þá hluti, er hann af vissum og eðlilegum ástæðum getur lítið vitað um.

Þá gat þingm. um hlutabréfakaup í Íslandsbanka, þ. e. frumvarp það, er fram kom á síðasta þingi um það efni, og vildi kenna ráðherra um, að það ekki var samþykt í Ed. Mig furðar nú á, að þingm. skuli ljá sig til að koma fram með jafn ósæmilegar aðdróttanir, en þó um leið barnalegar; því hvernig átti ráðherra að geta hjálpað því máli betur áfram en hann gerði, þar sem hann greiddi atkv. með málinu í neðri deild — eftir því sem eg man bezt, — og var þess hvetjandi bæði við mig og aðra, að það gæti gengið fram.

Sami háttv. þm. tæpti aðeins á silfurbergsnámunum í Helgustaðafjalli, fanst eins og viðkunnanlegra að taka það með, en aftur á móti var gert mikið veður út af því máli í Ed. fyrir skömmu, og margar spurningar framsettar. Af hverju það hefir verið gert, veit eg ekki. En að líkindum hafa þeir háu herrar þar lesið blöðin Reykjavík og Lögréttu, og talið sér skylt að endurtaka ósannindi þau, er í þeim blöðum hafa staðið um það mál. Betra hefði þó verið að afla sér upplýsinga hjá réttum hlutaðeigendum, en að hlaupa eftir því, sem í þeim blöðum stendur.

Eins og mörgum mun kunnugt, hefir landssjóður lengi átt námur í Helgustaðafjalli, og var lengi fram eftir enginn ágóði af þeim. En loks árið 1895 seldi landssjóður Þórarni Tulinius og föður hans námurnar á leigu til 5 ára. 1900 var sá samningur framlengdur aftur til 5 ára, og í þriðja sinn var samningurinn endurnýjaður 1905 og ennþá til 5 ára. Samningar þessir eru til, og geta allir, sem vilja kynt sér þá, og af þeim séð, hversu vel réttindi landssjóðs eru þar trygð.

Leigutími Tuliniusar endaði 1910. Þessvegna auglýsir núverandi stjórn í Lögbirtingablaðinu í fyrra vetur, að námurnar séu til leigu og óskar stjórnarráðið eftir tilboðum í leiguréttinn til 10 ára, og áttu tilboðin að vera komin til stjórnarráðsins í júnímánuði 1910. Þegar tíminn var útrunninn höfðu aðeins komið tvö tilboð. Var annað þeirra frá Tuliniusi en hitt frá Guðmundi Jakobssyni, og eru þau bæði til sýnis enn. Tulinius bauð að greiða 50% af söluverði silfurbergsins, en Guðmundur Jakobsson bauð mun hærra, eða 55%, og að sjálfsögðu tók stjórnin það tilboðið, er hagkvæmara var fyrir landssjóð. Það lítur nú helzt út fyrir, að þeir menn, sem finna ástæðu til að víta þessar gerðir stjórnarinnar líti svo á, að taka bæri lægra tilboðinu. Eg get samt hugsað mér þann hvell, sem úr því hefði orðið. Eg get hugsað mér þann úlfaþyt, sem orðið hefði í hinum herbúðunum, ef ráðherra hefði hafnað tilboði Guðmundar Jakobssonar, sem bæði var mun hærra og þess utan hafði Guðm. Jakobsson aðra silfurbergsnámu, sem gat verið landssjóði hættulegur keppinautur.

Þá mætti geta þess, að Tulinius, sem er manna kunnugastur Helgustaðafjallsnámunum hefir sagt bæði við mig og aðra, að námurnar þar væru tæmdar. Hann hafði líka, ekki alls fyrir löngu, sótt um 6—7 þúsund króna styrk úr landssjóði til þess að gera tilraunir og sprengja inn í fjallið og ganga úr skugga um, hvort nokkurt silfurberg væri enn í fjallinu. Eg veit að þetta er rétt, því eg hefi það frá stjórnarráðinu. Því hefir verið haldið fram í Reykjavíkurblaði einu, og líka hefir það verið sagt annarstaðar, að silfurberg væri ekki til nema í Helgustaðafjalli. En þeir, sem halda fram jafnmikilli fjarstæðu, hafa ekki lesið Lýsingu Íslands eftir Þ. Thoroddsen, því í henni er þó sagt frá því, að silfurberg finnist víðar hér á landi. Eftir því sem menn vita nú með vissu, finst það bæði í Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu, og tveim eða þrem stöðum öðrum. Silfurberg hefir einnig fundist í öðrum löndum, þótt það hafi verið litað og því ekki verið hægt að nota það.

Eg get að síðustu ekki stilt mig um að spyrja: Hvað hefir svo þessi »gullkista landssjóðs«, sem sumir kalla Helgustaðanámuna, gefið landssjóði miklar tekjur í þessi 15 ár, sem hr. Tulinius hafði hana á leigu? Fletti maður upp í landsreikningunum fyrir nefnt tímabil, þá kemur það í ljós, að tekjur landssjóðs af námunni hafa numið samtals öll árin liðugum 19 þús. kr., eða til jafnaðar um 1266 kr. á ári. En eftir að hinn nýi leigjandi tekur við námunni, fær landssjóður um 10 til 12 þús. kr. í tekjur af henni á fyrstu 5 mánuðunum.

Þetta á svo að ávíta stjórnina fyrir og jafnvel gera að dauðasök, að hún hefir ekki námuna í sömu niðurníðslu og áður. Eg skil ekki, hvernig menn geta litið svo skökkum augum á málið.

Breytingin, sem á er orðin, er því að þakka, að hinn nýi leigjandi varði bæði miklum tíma og kostnaði í að leita að góðum markaði fyrir silfurberg og tókst það líka. En svo kemur að því, að hinn nýi leigjandi sér sér hag í því að selja öðrum sinn rétt, og þá á það að vera eitthvert ódæði af stjórninni að leyfa það. Menn segja reyndar, að landið sjálft eigi að reka námuna og hafa hagnaðinn af henni, en þá er þess að gæta, að silfurbergsnámur eru víðar til en í Helgustaðafjalli, og sumar komnar á aðrar hendur, t. d. í Borgarfirði. Það er því hætt við, að samkepni muni myndast og varan því lækka í verði. Þess utan hefir það hingað til ekki þótt gerlegt, að reka slíkan námurekstur af því opinbera, og þann stutta tíma, sem landssjóður hafði rekstur námunnar á hendi, mun hann hafa tapað fé við reksturinn. Þess utan verða menn að taka það til greina, að meiri líkur eru fyrir því nú, að náman í Helgustaðafjalli sé nú orðin fremur fátæk. Eg sé að einn háttv. þm. hristir höfuðið, en af því eg veit hér betur, vildi eg ráða honum til að hrista kollinn gætilega, því tæplega mun honum veita af að halda öllum sínum heila, ef hann vill reyna að hrekja það, sem eg nú hefi sagt.

Hvað samningana snertir, þá er lítill vandi fyrir menn að bera þá saman, hinn gamla og þann nýja, og sér þá hver heilvita maður, að seinni samningurinn er stórum mun betri, svo mjög skilur á milli.

Eg hefi nú orðið að eyða talsverðum tíma í þetta mál, en þar var brýn nauðsyn til, til þess að drepa niður allar þær dylgjur og tröllasögur, sem um þetta hafa gengið.

Eg skal svo ekki þreyta háttv. deild lengur, en vil lýsa því yfir, að þegar alt er yfirvegað, eru ástæðurnar, sem fram hafa verið færðar fyrir þessari vantraustsyfirlýsingu, svo léttvægar, ósanngjarnar og ranglátar, að eg get ekki gefið henni mitt atkvæði. Það er auðvitað enginn maður svo, að ekki verði eitthvað að honum fundið, en eg er sannfærður um, að eftirmaður núverandi ráðherra muni að engu leyti verða honum hæfari í þá stöðu. Þess má og geta, að sennilegt er, að bráðum verði gengið til nýrra kosninga og getur þá margt breytst, og sízt ástæða til að óþörfu að setja fleiri ráðherra á eftirlaun, þegar ekki er um veigameiri ástæður að ræða, en þær er hér hafa verið bornar fram. Þetta virðist nú mörgum ef til vill ekki mikils um vert, en samt sem áður hafa þingmenn stundum talið það óhæfilegt, að bruðla svo með fé landssjóðs, að kasta 5 þús. kr. í eftirlaunum til fyrv. ráðherra (H. H.) að líklegt er þeir einnig telji það óhæfilega fjárbruðlun að kasta út að óþörfu 3000 kr. til hins næsta o. s. frv.

Eg vil því ennþá einu sinni taka það fram, að ástæðurnar fyrir vantraustsyfirlýsingu þessari eru ekki svo þungar á metunum, að eg geti greitt atkvæði með henni.