15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg vil leyfa mér að tilkynna hinni háttv. deild, að eg í morgun hefi tekið á móti símskeyti frá stjórnarskrifstofunni í Höfn, sem hljóðar svo:

»Deres til Hans Majestæt Kongen sendte telegrafiske Indstilling om Udnævnelse af Justitiarius Kristján Jónsson til Islands Minister og Entledigelse i Naade og med Pension af Minister Björn Jónsson bifaldet af Hans Majestæt Kongen Amalienborg 14. Marts.

Bestalling for Justitiarius Kristján Jónsson til at være Minister for Island underskrven af Kongen samtidig.

Krabbe«.

Þetta er í íslenzkri þýðingu svohljóðandi:

»Tillaga yðar, símuð til Hans Hátignar konungsins, um að justitiarius Kristján Jónsson verði skipaður ráðherra Íslands og um að ráðherra Birni Jónssyni verði veitt lausn og með eftirlaunum er samþykt af Hans Hátign konunginum á Amalíuborg þ. 14. marz.

Skipunarbréf fyrir justitiarius Kristján Jónsson til að vera ráðherra fyrir Ísland samtímis undirritað af konunginum.

Krabbe«.

Jafnframt og eg tilkynni hinni háttv. deild þetta, skal eg geta þess, að eg hafði ástæðu til þess að ætla, að meiri hluti þingmanna mundi styðja mig, er eg tók áskorun konungs um að taka við ráðherraembættinu. Eg hafði ástæðu til að ætla, að ekki færri en 23 þingmenn mundu styðja mig eða að minsta kosti ekki amast við mér sem ráðherra. Eg hygg því, að óhætt sé að fullyrða, að hér hafi þingræðinu ekki verið traðkað eða að neinu leyti misboðið.

Sem ráðherra mun eg kosta kapps um að koma á friði og ró í landinu. Ófriðaröldum þeim, er yfir landið hafa gengið um síðastliðin ár verður að lægja. Það er hið nauðsynlegasta, nauðsynlegra en alt annað. Hin pólitísku stórmál ættu að hvíla sig og liggja í þagnargildi um nokkur ár, færri eða fleiri eftir atvikum. — Á þessu þingi mun eg stuðla að því af fremsta megni, að viðunanleg fjárlög verði samþykt, og að hagfeld stjórnarskrárbreyting nái fram að ganga. Verður þá þingið að sjálfsögðu rofið. En eg lýsi því yfir, að þó að stjórnarskrárbreyting verði ekki samþykt, þá hefi eg alt um það ásett mér að rjúfa þingið, til þess þjóðinni gefist færi á að láta álit sitt í ljósi um þá atburði, er hér hafa gerst þessa síðustu dagana. Það er hún, sem á að leggja dóm á þá.