18.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

95. mál, vantraust á Kristján háyfirdómara Jónsson

Forseti:

Eg finn mig knúðan til að segja nokkur orð frá forsetastól, til að leiðrétta ummæli í blaði, er háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gefur út. Í ummælum þessum er mér borið á brýn það »ódrengskaparathæfi (!)« að eg hafi ótilkvaddur átt að senda konungi villandi símskeyti um það, hvernig horfurnar væru á þinginu. Um leið og eg mótmæli þessum áburði blaðsins á mig, sem alveg tilhæfulausum, skal eg leyfa mér að skýra frá málavöxtum.

Hinn 8. marz fekk eg svohljóðandi símskeyti frá stjórnarskrifstofunni í Kaupmannahöfn:

»Altingsformand

Hannes Thorsteinsson Reykjavík.

»Til Kongens Efterretning udbedes ogsaa Deres Udtalelse Ministerkrisens Lösning.

Krabbe«.

(Á íslenzku: »Til leiðbeiningar konunginum eruð þér einnig beðinn að láta uppi með símskeyti skoðun yðar um ráðherraútnefninguna«).

Eins og skeytið ber með sér, spyr konungur um mína skoðun á ráðherraútnefningunni. Mér fanst því að eg ekki gæti komist hjá að svara, og sendi því samstundis, eða svo að segja samstundis, svohljóðandi símskeyti:

»Islands Ministeriums Kontor,

Krabbe, Köbenhavn.

Altinget tre Fraktioner: Ministerens Fraktion 14, Modfraktionen 11, den samlede Opposition 15. Ministerens Fraktion har nægtet deltage i Nomination af Efterfölgeren. Situationen iövrigt uforandret. Nærmere snarest.

Hannes Thorsteinsson

Altingsformand.«

(Á íslenzku: »Á alþingi eru 3 flokksbrot: Flokksbrot ráðherra 14, mótflokksbrotið 11, andstæðingaflokkurinn allur 15. Flokksbrot ráðherra hefir neitað að taka þátt í tilnefningu eftirmannsins. Ástandið að öðru leyti óbreytt. Nánara bráðlega«).

Þetta var að eins bráðabirgðaskeyti, því að þá var ekki unt að segja, hver úrslitin yrðu með ráðherratilnefninguna. Og frá skeyti þessu skýrði eg á flokksbrotsfundi þá samdægurs (8. marz) og hafði enginn við það neitt að athuga.

Nú leið og beið þangað til á sunnudagsmorguninn 12. marz. Þá fyrst var hægt að senda ákveðið svar, og það gerði eg. En ástæðan fyrir því, að eg skýrði hinum svonefnda sjálfstæðisflokki ekki þá þegar frá því, var sú, að eg skoðaði mig þá úr þeim flokki farinn og hafði látið það áður í ljósi í sambandi við atferli sumra flokksmanna í ráðherraútnefningunni, sem eg gat ekki fallist á. Eg áleit og, að eg þyrfti engum sérstökum flokki reikningsskap að standa af símskeyti þessu, en ásetti mér sem forseti þessarar háttv. deildar að herma rétt og hlutdrægnislaust frá afstöðunni, og það þykist eg hafa gert, hversu illa sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) kann að hafa fallið það. Nú vil eg láta þingdeildina ganga úr skugga um, að það er alveg rétt, sem eg símaði. Skal eg því til sönnunar lesa skeytið, sem er alveg í samræmi við fyrra skeytið, upp fyrir deildinni, en fyrir henni einni á eg að bera ábyrgð, en ekki fyrir neinum sérstökum flokki eða flokksbroti. Skeytið hljóðar svo samkvæmt eftirriti frá landsímastöðinni:

»Krabbe Islands Ministeriums Kontor Köbenhavn. Ministerkrisen ulöst. Skuli Thoroddsen har sikre 7 Stemmer sin egen iberegnet af Ministerens Modfraktion. Den samlede Opposition enstemmig nægtet at stötte hans Kandidatur. Langvarige Forhandlinger mellem Ministerens Fraktion og Thoroddsens Tilhængere skönt Fraktionen för har nægtet al Medvirkning til Nomination. Paa fælles Möde í Gaar Aftes Thoroddsen faaet Tilsagn om 12 passive af Ministerens Fraktion. Kristjan Jónsson menes at kunne samle de övrige 21 Stemmer.

Hannes Thorsteinsson.

Altingsformand«.

Lauslega þýtt á íslenzsku er það svo: »Ráðherra tilnefningin óútkljáð. Skúli Thoroddsen hefir ákveðin 7 atkv. að sínu eigin meðtöldu úr mótflokksbroti ráðherra. Andstæðingaflokkurinn hefir í einu hljóði neitað að ljá honum fylgi sitt sem ráðherraefni. Langvarandi samningaumleitanir milli flokksbrots ráðherrans og fylgismanna Thoroddsens, þrátt fyrir það, að flokksbrotið hefir áður neitað allri hlutdeild í tilnefningunni. Á sameiginlegum fundi í gærkveldi hefir Thoroddsen fengið loforð um 12 hlutlausa úr flokksbroti ráðherra. Það er álitið að Kristján Jónsson muni geta náð því 21 atkvæði, sem þá er eftir«.

Þetta eru öll ósköpin, að eg segi, að ætla megi, að Kristján Jónsson fái hin 21 atkv. Eg þarf hvorki að blikna né blána fyrir því, sem eg hefi sagt, og væri betur, ef aðrir gætu sagt hið sama. Afstaða mín í þessu máli er hrein og bein og eg hefi engu að leyna. En alls þessa get eg hér nú til þess, að það geti komið fram í þingtíðindunum svart á hvítu. Vona eg, að þau blöð, sem ranghermt hafa um skeytin, finni ástæðu til að leiðrétta það, sem sagt hefir verið í sambandi við þau. Eg á ekki þær ákúrur skilið, og mundi senda nákvæmlega sama skeyti enn þann dag í dag. Eg hefi því alveg hreint mjöl í pokanum, en það verður líklega tæplega sagt um suma aðra, t. d. fyrv. ráðherra (B. J.) og jafnvel h. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), sem enn hefir ekki birt langa 300 kr. skeytið sitt m. fl. Geri þeir h. herrar jafnhreint fyrir sínum dyrum.