18.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

95. mál, vantraust á Kristján háyfirdómara Jónsson

Flutningsmaður (Skúli Thoroddsen):

Eg skal svara nokkru ræðu hæstv. ráðherra (Kr. J.). Fyrst skal eg byrja á því, að mér er kunnugt um fylgi hæstv. ráðherra (Kr. J.). Hann hafði fyrst 3 menn auk sjálfs sín. Þessu getur hann ekki mótmælt. Hann skýrði frá því, að eg hefði haft fylgi 7 svonefndra »sparkverja«. Þetta er rangfært, því að þótt svo hafi verið fyrst, þegar reynt var um fylgi einstakra manna, þá varð niðurstaðan alt önnur síðast og það er hið eina, sem máli skiftir. Eg skal í framhaldi af þessu fara að eins og hæstv. ráðherra (Kr. J.) og segja sögur af því, hversu mínu fylgi var varið. Eg hefi hér í höndum skjal, undirskrifað af 19 þingmönnum og skal eg með leyfi hæstv. forseta lesa það upp. Það hljóðar svo:

»19 af 24 þjóðkjörnum þingmönnum sjálfstæðisflokksins hafa tjáð sig meðmælta Skúla Thoroddsen sem ráðherraefni. Auk þess eru tveir ákveðnir flokksmenn og lætur annar útnefninguna hlutlausa, en hinn, ráðherrann, sem frá fer, hefir lýst yfir því, að hann vilji ekki steypa Thoroddsen á þessu þingi. 3 óvissir.

Enginn annar en Thoroddsen getur vænst stuðnings sjálfstæðisflokksins, og þess vegna mælir flokkurinn allraundirgefnast með honum«.

Þetta skjal er undirskrifað af: Ara Jónssyni, Bened. Sveinssyni, Bjarna Jónssyni, Birni Kristjánssyni, Birni Sigfússyni, Birni Þorlákssyni, Gunnari Ólafssyni, Hálfdáni Guðjónssyni, Jens Pálssyni, Jóni Jónssyni 1. þm. N.-M., Jóni Þorkelssyni, Jósef Björnssyni, Kristinn Daníelssyni, Magnúsi Blöndahl, Sigurði Gunnarssyni, Sigurði Hjörleifssyni, Sigurði Stefánssyni, Skúla Thoroddsen og Þorleifi Jónssyni.

Þegar litið er á þetta skjal, er skjótt auðsætt, að það felur í sér meiri stuðning en loforð heimastjórnarmanna til hæstv. ráðherra (Kr. J.) um »að bregða ekki fyrir hann fæti að tilefnislausu«. Eg get þannig »documenterað« fylgi mitt, en það getur hæstv. ráðh. (Kr, J.) ekki. Þess utan ber þess að gæta, að þetta skjal mitt var »supplerað« seinna af sjálfstæðisflokknum með símskeyti þann 12. þ. m., þar sem tekið var fram, að eg einn hefði fylgi flokksins, því að þótt rígur væri fyrst innan flokksins, þá var nú svo komið að síðustu, að ekki var nema um einn að gera. Eg sé, að einn kgkj. þm., sem hér er staddur í deildinni, brosir; en það er kuldaglott. Hann hefði líklega viljað eitthvað annað.

Hæstv. ráðherra (Kr. J.) spurði, hvað hann hefði gert. Því er auðsvarað: hann hefir framið þingræðisbrot, framið lögbrot. Hæstv. ráðherra talaði um, að hér væri að ræða um persónurétt, eða »prærogativ« konungs, en konungur hafði gefið þinginu undir fótinn með skeyti sínu þann 28. febrúar, er heimilaði þinginu að koma sér saman um ráðherraefni. Eg vil líka benda hæstv. ráðherra á það, að við síðustu ráðherraútnefningu 1909, hélt hann ekki svo fast við þetta »prærogativ« konungs; þá hélt hann því fram, að atkvæðafjöldi réði innanflokks. Það er ekki rétt, að á sama standi, hver sé valinn ráðherra úr sama flokki. Það getur haft mikla þýðingu, hver verður ráðherra af flokknum. Einum flokki getur verið svo háttað, að það sé að eins eitt mál, sem flokkurinn hangi saman um. Einn maður hefir hugsjónir, sem hann vill koma í framkvæmd, annar hefir ekki svo ríka tilfinningu fyrir þörf almennings. Þannig getur það haft afarmikla þýðingu, hver tekst á hendur ráðherraembættið.

Hæstv. ráðherra kvaðst vera einráðinn í að sitja, hvort sem tillagan yrði samþykt eða ekki. Það yrði þá hvert þingræðisbrotið ofan í annað. Taldi þá hæstv. ráðherra rétt fyrir tvo síðustu ráðherra að sitja, þegar samþykt var vantrauststillaga til þeirra? Nei, þá var eitthvað annað uppi á teningnum.

Hæstv. ráðh. benti á, að þingið gæti ekki komið sér saman um mann. Ekki horfði hann í það, þegar borin var upp vantraustsyfirlýsingin til fráfarandi ráðherra; þá áleit hann, að þingið gæti komið sér saman um það á eftir. Þetta eru hálmstrá, sem hæstv. ráðh. notar til að komast út úr ógöngunum. Eitthvað var hæstv. ráðh. og að tala um, að sér hefði staðið til boða ráðherrastaðan 1909, og að hann hefði afþakkað það þá. Það eru nógu margir, sem þekkja til þess, hversu þá var háttað. Hann fékk fáein atkvæði við fyrstu tilraunakosningu og dró sig þá í hlé. Þetta er ekki svo fátítt dæmi þess sem menn gera, er menn sjá sér engar vonir; þá gera menn þetta til þess að láta ekki á neinu bera.

Þegar litið er á þessar rangfærslur hæstv. ráðh. og blaðanna sumra, þá kemur manni til hugar, að þeim dyljist hvern ófrið þeir skapi og hverjar óheillaöldur blekkinga og lyga geti leiðst yfir landið með þessu. Eg heyri, að hæstv. forseti hringir. Vill hæstv. forseti með bjöllu sinni »protegera« lygarnar. (Forseti: Eg krefst, að þm. gæti þinglegs velsæmis í orðum og áminni hann um að gæta góðrar reglu).

Þá skal eg snúa mér að tillögu þeirri um rökstudda dagskrá, sem fram hefir komið frá háttv. þm. Seyðf. (B. Þ.) Mér kom á óvart þessi tillaga, þar sem flutningsm. er í flokksbræðra minna hóp, en enginn af flokknum hefir fengið nokkuð um hana að vita, þrátt fyrir fundarhald í morgun innan flokks. Hinn háttv. þm. kannaðist að vísu við, að um þingræðisbrot væri að ræða hjá núverandi ráðherra, en vildi samt láta við svo búið sitja. Eg álít, að ekki beri að samþykkja tillögu hins háttv. þm., því að það yrði til þess, að þjóðin fengi síður réttan skilning á því, sem gerst hefir. Þetta er skylda gagnvart þjóð vorri. En það er líka skylda, að gæta þeirrar hliðarinnar, sem snýr út á við, gagnvart danska valdinu, að lofa því ekki að ráða því, að tekinn sé sá maður í ráðherrastöðu, sem fremur er hlyntur danska valdinu. Þetta vil eg að allir geri sér ljóst og hafi hugfast í dag; hversu sem atkvæði falla, hvort sem fleiri eða færri verða með vantrauststillögunni, þá höfum vér, sem henni greiðum atkvæði, gert vora skyldu. H. háttv. þm. þótti viðaukatill. kynleg. Það má segja, að hún sé óþörf. Hún getur þó haft þá þýðingu, að skýra aðaltillöguna og leggja í hana annan skilning en þann, sem lagður var í vantrauststillöguna í vetur. Sami háttv. þm talaði um þau vankvæði, sem leiddi af þingrofi, er yrði afleiðing þess, að samþykkja vantrauststillöguna. Hann gerði ráð fyrir, að vér, sem fylgjum tillögunni, legðum aðaláherzluna á þingræðisbrot hæstv. ráðherra, en gaf þar með í skyn, að hann, eins og heyra mátti á hæstv. ráðh. sjálfum, væri svo fastur í stóli, að honum yrði ekki haggað úr sess. Þar til er því að svara, að ábyrgðin hvílir ekki á oss, heldur á ráðherra og ef til vill þeim, sem lofað hafa að bregða ekki fyrir hann fæti.

Annars var ræða hins háttv. þm. Seyðf. (B. Þ.) svo vaxin, að hún hefði aldrei átt að koma fram. Sama þingrofshættan vofði yfir, þegar samþykt var vantraust til fyrverandi ráðherra. En þá mintist hinn háttv. þm. ekki á þetta. Þá þagði hann og varaði ekki þingið við þessum yfirvofandi háska.

Eg held, að það sé ekki fleira, sem eg hefi ástæðu til að taka fram.

Í ræðu hæstv. forseta kom fram viðurkenning um það, að hann hefði hlaupið eftir lausafregnum og bæjarslúðri í símskeytum sínum.