18.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

95. mál, vantraust á Kristján háyfirdómara Jónsson

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Eg vil með örfáum orðum lýsa afstöðu vor heimastjórnarmanna gagnvart þessari tillögu.

Um daginn, þegar sem hæst stóð ráðabruggið meðal þeirra þingmanna gamla stjórnarflokksins, sem gengist höfðu fyrir því, að koma hinum háttv. þm. Barð. (B. J.) úr ráðherrasæti, um það, hver sætið skyldi taka eftir hann, bárust heimastjórnarflokknum málaleitanir frá tveim meðal þeirra þingmanna, er Ísafold hefir kallað »sparkliðið«, þeim núverandi ráðherra (Kr. J) og þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). þeir spurðust fyrir um það hjá heimastjórnarflokknum, hvor í sínu lagi, hvort vér mundum vilja heita því, að amast ekki við þeim nú á þessu þingi. öðrum þeirra, þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gáfum vér þau svör, að um það vildum vér engu heita, en hinum núverandi ráðherra (Kr. J.), að eftir atvikum mundum vér láta hann óáreittan fram yfir þinglok, ef konungur skipaði hann í ráðherrasæti.

Vér höfðum fulla ástæðu til að ætla, að hann hefði að minsta kosti eins mikinn stuðning meðal sinna fyrri flokksbræðra, eins og hinn þm., sem til vor leitaði. — Þegar ráðherra tók sæti sitt á miðvikudaginn, lýsti hann yfir, að hann vildi styðja að því, að efla frið og ró í landinu, vinna að því, að samþykt yrðu á þinginu viðunanleg fjárlög og nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni og svo skjóta deilumálunum til úrskurðar almennings með nýjum kosningum. Að þessum þörfu verkum teljum vér oss skylt að styðja ráðherrann, og greiðum því hiklaust atkvæði móti þessari tillögu.