19.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

95. mál, vantraust á Kristján háyfirdómara Jónsson

Bjarni Jónsson:

Eg hygg, að allir verði mér sammála um það, að fullveldið eigi að vera hjá þjóðinni eða öllum atkvæðisbærum mönnum, eins og átti sér stað í fornöld hjá Grikkjum og Rómverjum. En jafnframt verða allir að viðurkenna, að þar sem ekki verður náð til alþjóðaratkvæðis (plebiscitum) sakir víðáttu, þá sé þó fulltrúakosningin til orðin til þess að bæta úr því og að fulltrúarnir fari með vald kjósendanna. Eina ráðið til þess að fulltrúarnir fái ráðið, er að þeir ráði ekki að eins löggjöfinni, heldur og hverjir með völdin fara, og að stjórnin styðjist við meiri hluta fulltrúanna. En sumstaðar er sá agnúi á, að konungsvaldið velur nokkurn hluta fulltrúanna, og á það alls ekki heima í fulltrúakerfinu. En svo er þó háttað hjá oss, að nokkur hluti fulltrúanna er konungkjörinn. En eftir eðli málsins á ekki að taka til þeirra, hver stjórnar. Auk þess eru þeir á förum, og ættu að vera farnir. Þetta segi eg sem inngangsorð, því vantraustsyfirlýsingin byggist á því.

Við tillögumenn vissum engar vonir þess, að hinn núverandi ráðherra hefði nema 19 menn sér fylgjandi, og af þeim voru 6 konungkjörnir, sem ekki á að taka tillit til við þannig löguð tækifæri. Eitt meðal annars, sem fékk mig til þess að vera með því, að Björn Jónsson færi frá, var að hann var kominn í minni hluta á þinginu. Auðvitað get eg þá ekki þolað, að annar taki við með minni hluta, ef eg vil vera sjálfum mér samkvæmur og báðum réttlátur. Eg var á móti hinum fyrri ráðherrum af því eg áleit, að ef þeir sætu lengur í ráðherrasæti væri þessi grundvallarregla brotin, og eg er á móti hinum núverandi ráðherra af sömu ástæðu. Eg lýsi þessu yfir hér, svo menn segi ekki, að eg geri þetta af illvilja eða hatri, enda veit ráðherra sjálfur, að aldrei hefir neitt slíkt á milli borið. Hér er ekki heldur um nein unnin verk að tala, og ekki þarf að óttast, að þessum ráðherra geti ekki farið vel úr hendi umboðsstjórnin. Ástæðan til vantraustsyfirlýsingarinnar er sú, sem eg tók ljóslega fram, að það er brot á þingræðinu, að takast ráðherraembættið á hendur með þeim hætti, sem hann gerði. Síðan hefi eg raunar heyrt hann segja, að hann hafi átt vísan stuðning 23 þingmanna. En áður vissi eg um fylgi og hlutleysi 21 þm. til handa öðrum manni; og eru á þann hátt þingmenn orðnir 44. Má nú atkvæðagreiðslan ein skera úr því, hverjum þessir 4 nýju þingmenn fylgja.

Nýi ráðherrann hefir nú lýst því yfir, að sér hafi gengið gott eitt til með að taka að sér ráðherraembættið; hann vilji kosta kapps um að kippa því í lag, sem aflaga fer, og efla frið í landinu og kippa okkur upp úr feninu. Eg efast ekki um, að þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefði viljað gera það sama, og eg skal ekkert um það segja, hver færari sé til þessa starfa, það kemur ekki málinu við.

Eg hefi þá gert grein fyrir, hvers vegna eg varð til þess að flytja þessa tillögu; það var af því, að hér hafa grundvallaratriði þingræðisins verið brotin, en ekki af kala; og þótt kali hefði verið, þá hefði það ekki riðið baggamuninn hjá mér.

Eitt atriði var það hjá hinum hæstv. ráðherra, sem að vísu ekki kemur málinu við, en eg verð að mótmæla. Það var um flokkinn, sem hann segist hafa stofnað 1895. En hvaða flokkur var það, sem þá var stofnaður? Það var gamli valtýski flokkurinn. En þeir höfðu alt aðra stefnuskrá en sjálfstæðisflokkurinn og var það alt annar flokkur. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1908. Hver sem segir, að eg nokkru sinni hafi verið í valtýska flokknum, hann fer með rangt mál.

Þá skal eg víkja nokkrum orðum að þm. Sfjk. (B. Þ.) og hinni rökstuddu dagskrá, sem hann ber fram. Dagskráin játar raunar, að þingræðið hafi verið brotið, en það undarlega er, að dagskráin vill ekki láta þann, sem brotið hefir framið, bæta úr því. Hún vill ekki gera neitt úr því, þótt þessi lítilfjörlega skyssa hafi viljað til. Dagskráin vill láta sér nægja að mótmæla þessu eins og einhverjum smáatburði, sem gerst hafi, en sé ekki þess verður, að menn séu að fást um slíkt lítilræði. Eg skil ekki þá ósamkvæmni, sem kom fram hjá hinum háttv. þm. (B. Þ.). Hann taldi upp alla þá möguleika, sem fyrir gætu komið, ef vantraustsyfirlýsingin yrði samþykt, jafnvel þingrof nú þegar, bráðabirgðafjárlög og ýmislegt fleira. En sá möguleiki kom honum ekki til hugar, að ráðherra beiddist lausnar og færi frá, ef vantraustsyfirlýsingin yrði samþykt, sem eg efast ekki um, að hæstv. ráðherra muni gera. Það virtist þó liggja næst að nefna það fyrst. Og með því virðist mér hann hafa komið með þær getsakir í garð hins núverandi ráðherra, sem hann (ráðh.) ekki geti látið standa ómótmæltar.