18.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

95. mál, vantraust á Kristján háyfirdómara Jónsson

Flutningsmaður (Skúli Thoroddsen):

Háttv. 1. og 2. þm. S.-Múl. hafa báðir minst á bréf frá mér til heimastjórnarflokksins, og skal eg þegar taka það fram, að það bréf var ekki og átti ekki að vera leyndarmál. Þegar það var ritað, 6. marz, var ekki sýnilegt, að nokkur von væri um samkomulag milli brota sjálfstæðisflokksins. Eg bjóst aldrei við fylgi heimastjórnarmanna, en vildi aðeins vita, hver skilyrði flokkurinn setti núverandi ráðherra. Skömmu síðar hitti eg einn virðulegan konungkjörinn þingm., »nauðavirðulegur« hefir hann verið kallaður í Ed., sem tók mig tali í fjárlaganefndarherberginu og spurði mig, hvort eg vildi ekki skrifa ítarlegra bréf, og skildist mér helzt á honum, að heimastjórnarmenn vildu hafa eitthvað fyrir snúð sinn og snældu. Eg sagði honum, að eg gæti ekkert vitað um hjartans óskir heimastjórnarmanna og ekkert varð úr frekari bréfaskriftum af minni hálfu. Þá voru 9 þjóðkjörnir þingm. heimastjórnarmenn, 19 þjóðkjörnir sjálfstæðismenn veittu mér þá fylgi, en óvíst var um tvo háttv. þingmenn, sömuleiðis þjóðkjörna, hvoru meginn þeir mundu verða. Af þessu sést, að það er fyllilega ranghermt hjá háttv. 2. þm.

S.-M. (J. Ó.) að eg hafi leitað stuðnings konungkjörinna þingmanna, þótt eg hafi snúið mér til heimastjórnarflokksins.

Háttv. 2. þm. S.Múl. (J. Ól.) sagði, að hér væri barist um lítið. Nei, hér er barist um mikilsvert pólitískt málefni! Hér er barist um það, hvort meiri hluti þjóðkjörinna þingmanna á að ráða skipun ráðherra! Hér er barist um, hvort það skiftir nokkru að vinna sigur við kosningar! Það er þingræðið, sem nú er í hættu, og mergurinn málsins er, hvort útlendu valdi á að haldast uppi að troða ráðherra upp á þingið. Ef hið útlenda vald kemur þessu fram, þá má vera að það haldi áfram, hver veit hvað langt. Hér er um mikilsverð réttindi þjóðarinnar að ræða, sem hún hlýtur að berjast um, þangað til sigur er fenginn, hvort sem baráttan varir lengri tíma eða skemri.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) fetti fingur út í, að nafn mitt stæði efst á blaði undir þingsályktunartillögu þeirri, sem hér liggur fyrir. En mér finst undarlegt, að hann gerir slíkt að umtalsefni, því að mér stendur það þó næst, að rétta hluta sjálfs mín og þess flokks, sem eg telst til. Hann ætlast víst til, að eg sé svo kurteis að þegja, þegar mér er rekinn löðrungur. Ekki hafði þó háttv. núverandi ráðherra þá aðferðina í bankamálinu; þar þóttist hann hafður fyrir röngum sökum og rak réttar síns af afli og hefir mér aldrei komið til hugar, að lá honum það. Eg sé enga ástæðu til að hegða mér öðru vísi en hann í því efni, enda er eg ekki vanur að sýna af mér neina uppgerðarkurteisi.

Hvort eg að eins hefði orðið ráðherra til bráðabirgða, getur enginn sagt neitt um; það eitt er víst, að eg harma það lítt, þótt eg kæmist ekki í þessa stöðu.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) las upp nokkur ummæli úr Þjóðviljanum, þar sem eg segi, að eg mundi aldrei hafa geta þegið slíkan stuðning, sem heimastjórnarmenn nú veita Kristjáni Jónssyni, og vildi hann efast um, að eg segði það satt. Mér má nú vera kunnugast um slíkt; allur sá stuðningur, sem núverandi ráðherra hefir af heimastjórnarmönnum er það, að þeir hafa lofað að bregða ekki fæti fyrir hann að ástæðulausu, og tel eg hann ekki öfundsverðan af slíkum stuðningi. En ef til vill hafa nú heimastjórnarmenn séð sig um hönd, og heitið ráðherra öruggara fylgi.

Þá sagði hinn háttv. þingm., að eg vildi taka að mér þetta embætti til fjár. Eg tók það fram í dag, að eg mundi skaðast fjárhagslega, ef eg yrði ráðherra. Slíkur er nú aldarandinn í landinu, að hver sem í ráðherrakjörum er, á mannorðsspellin vís; menn skilja ekki að aðrar hvatir en hálaunagræðgi og valdafíkn geti knúð menn til þess að taka það embætti að sér. Eg vil því leyfa mér að gefa hinni háttv. deild dálítið yfirlit yfir, hverju eg fjárhagslega hefði getað tapað, ef eg hefði orðið ráðherra. Eg hefði mist eftirlaun mín, 1500 kr., eg hefði þurft að ráða ritstjóra í minn stað við Þjóðviljann, og hefðu árslaun hans ekki getað orðið minni en 1200 kr. Ennfremur hefði eg orðið að skipa verzlunarstjóra við verzlun mína, og geri eg honum ekki minna en 2500 kr. í laun. Eg er fullfær til málaflutningsstarfa og hygg eg, að almenningur mundi ekki síður leita mín en ungra lögfræðinga; eg hefi að vísu ekki fengist við slík störf hingað til, en hefi hugsað mér að fara að leita mér atvinnu á þann hátt. Ef eg hefði orðið ráðherra, hefði eg auðvitað orðið að hyggja af slíku, og get eg ekki gert þann tekjumissi til minna en 1200 kr. Eg hefði þurft að setja mann í minn stað til eftirlits með prentsmiðju minni og bókasölu, og hefði ekki getað launað hann með minna en 1000 kr. Eg hefi hugsað mér að hafa bókasölu og smáverzlun með ritföng o. s. frv. í húsi mínu; eg hefði orðið að hætta við það áform, og get eg ekki gert það tap minna en 600 kr. Þá mundu breyttir lifnaðarhættir á heimili mínu hafa haft í för með sér margvíslegan aukinn kostnað, sem eg get ekki gert ráð fyrir, að hefði orðið minni en 600 kr. Eg á húseign hér í bænum, sem kostar 40,000 kr., og hefði eg getað átt á hættu, að hún hefði staðið óleigð, ef til vill heilt ár, og hefði eg þá skaðast um 2000 kr. Eg hefi þá þannig reiknað saman 10,600 kr., sem eg hefði skaðast um, ef eg hefði orðið ráðherra. En ráðherralaunin eru aðeins 8000 kr.! Og að því er kemur til þess fjár, sem veitt er til risnu, þá mundi eg ekki hafa haft þann sið, að gefa þeim mönnum einum að eta, sem minn flokk fylla. Eg hefi álitið rétt, að þetta kæmi fram í þingtíðindunum, svo að menn geti glöggvað sig á því. Eg hygg þess enga vanþörf, svo margt hefir verið fleiprað um mig og fjárhag minn, þessa síðustu daga.

Að lokum vil eg geta þess, að það hefði vakað fyrir mér, hefði eg orðið ráðherra, að framkoma vor út á við ætti að vera einlæg og hiklaus. Skoðanir mínar í sambandsmálinu þekkja menn; þar að auki hefði fánamálið, sem eg tel alíslenzkt sérmál, orðið áhugamál mitt og ef til vill konsúlamálið; viðskiftaráðunauturinn hefir bent á, að vér þyrftum að hafa konsúla í 8 löndum. Það eru einmitt slík stórmál, sem eiga að vekja þjóðina og efla og glæða áhuga ungra og gamalla. Eg hefi satt að segja þá trú, að eg, með lífsreynslu minni, hefði getað orðið að nokkru liði sem ráðherra. Eg hefi verið embættismaður, bóndi, sjávarútvegsmaður og kaupmaður og er nákunnugur kjörum og hugsunarhætti verkalýðsins. Eg þykist vita, hvað gera skuli til þess að kippa fjárhag landsins í lag; eg hefði látið mér ant um, að hegningarlögin yrðu endurskoðuð, því að þau eru nú í mörgum greinum stórhneykslanleg. Og auk alls þessa er enn þá eitt atriði, sem eg ekki get gert nánari grein fyrir; en eg vil aðeins leyfa mér að fullyrða, að það hefði ekki haft þýðingu fyrir íslenzku þjóðina eina, heldur og fyrir fleiri þjóðir, ef eg hefði orðið ráðherra.

Það er nú þýðingarlaust að orðlengja frekar um þetta mál. Aðeins vil eg að lokum mótmæla því, að eg hafi borið fram þingsályktunartillögu þessa, vegna þess að mér hafi runnið í skap við núverandi ráðherra. Það eitt hefir stjórnað framkomu minni, að eg lít svo á, sem hér sé um stórpólitískt málefni að ræða, sem þingið ekki má láta afskiftalaust.