05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

162. mál, símskeytarannsókn

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Háttv. þm. getur ekki komið þessi till. á óvart. Það var rætt talsvert um símskeyti til íslenzku skrifstofunnar í Khöfn og konungs viðvíkjandi ráðherraskiftunum á prívatfundi meðal þingmanna hér á dögunum, og þarf því ekki miklar umræður, þar sem málið liggur ljóst fyrir. Það hefir orkað tvímælis, hvort öll þau skeyti hafi verið sannleikanum samkvæm, og grunur á, að sumir hafi ekki með skeytasendingum sínum fært alt til sanns vegar, heldur hallað réttu máli. Að vísu er þetta ekki annað en grunsemd, en þar sem mjög er áríðandi að fá að vita sannleikann í þessu máli, sem mjög er mikilvægt og afdrifaríkt fyrir þjóðina, þá höfum vér komið fram með þessa þingsályktunartillögu. Eg vænti þess, að þeir, sem hafa hreinar hendur, séu fúsir á að samþykkja hana. Nefndinni ætti að verða þetta lítið starf og hægt að ljúka fyrir þinglok, enda þótt nokkuð sé liðið á þingtímann, og ef allir hafa hreint mjöl í pokanum, þá hlýtur rannsókn hennar að taka fyrir alla tortryggni og grunsemdir. Hvað breyt.tillögurnar snertir, þá vil eg mæla með till. á þgskj. 866, að ekki séu eingöngu rannsökuð þau símskeyti, sem hafa verið send íslenzku skrifstofunni, heldur og símskeyti, þau, er send hafa verið konungi eða handritara hans. Að því er snertir breyt.till á þgskj. 924, þá virðist hún ekki vera nauðsynleg. Hún fer fram á það, að fráfarandi ráðherra sýni einnig þau skeyti, er hann hefir sent, en þar sem hann er þingmaður, hlýtur þingsályktunartillagan að ná líka til hans, enda var það og bein tilætlun vor flutningsmanna. En úr því að brt. þessi er fram komin á annað borð, þá vil eg mæla með því, að hún verði samþykt, því að ef hún væri feld, gæti það valdið misskilningi og þótt sönnun þess, að ekki væri tilætlunin að rannsaka skeyti fyrverandi ráðherra. Að lokum skal eg geta þess, að svo ramt hefir kveðið að um skeytasendingarnar héðan, að orð hefir verið á því gert í dönskum blöðum, að borist hafi þangað einhver dularfull skeyti héðan út af ráðherraskiftunum, lítt vinsamleg sumum þingmönnum, og væri ekki vanþörf á að athuga það. Eg held, að allir ættu að geta verið ásáttir um það, að bezt muni vera, að allur sannleikur í þessu máli komi í ljós, — að minsta kosti þeir, sem um öll svik eru skírir, og getur þá atkvæðagreiðslan orðið nokkur raun á því.