05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

162. mál, símskeytarannsókn

Hannes Hafstein:

Það er kunnugt, að í öllum löndum er það siður þeirra, sem standa fyrir ríkisstjórn, að kveðja á fund sinn menn úr þingflokkunum til þess að leita upplýsinga hjá þeim um ástandið, þegar stjórnarskifti verða. Það hefir engum dottið í hug að efast um, að þetta sé sjálfsagður réttur konungs. Hér á Íslandi hagar sérstaklega til. Konungur verður, vegna hinnar miklu fjarlægðar, sem er á milli, að nota annan veg til þess að afla sér upplýsinga. Í staðinn fyrir að kveðja þessa menn á sinn fund, notar konungur þá leið að kveðja þá þess að gefa sér í símskeytum þær upplýsingar, er hann óskar um ástandið. Við það sparast bæði beinn kostnaður og óbeinlínis verður líka mikill hagur að því, vegna þess að þingið tefst þá ekki í störfum sínum fyrir utankvaðningar. Eins og engum manni hefir dottið í hug, að þeir menn, sem kvaddir eru á konungsfundi í öðrum löndum, séu skyldir að gefa skýrslu til þingsins, hvað þá hverjum þingmanni sem hafa vill, um viðtal sitt og konungs, eins er það öldungis víst og vafalaust, að það er ekki hægt að krefjast af þeim mönnum, sem hafa sent konungi símskeyti um ástandið samkvæmt ósk hans, upplýsinga um það, sem hefir farið á milli þeirra og konungs. Það er nóg, að hlutaðeigendur sýni, ef orð þeirra eru vefengd, að þeir hafi verið kvaddir upplýsinga af konungs hálfu. Hitt liggur fyrir utan umráð og úrskurð þingsins. Eg var einn af þeim þingmönnum, sem varð fyrir því, að vera kvaddur álits, eins og mönnum er kunnugt, og kom mér eigi til hugar að skorast undan að verða við þeim tilmælum. Eg hefi alls fengið 3 skeyti frá stjórnarskrifstofunni í Kaupmannahöfn um þetta efni, og get sýnt, að þau eru til mín og frá hverjum þau eru, en eg hvorki vil né má sýna hvað í þeim stendur, nema með samþykki þeirra, er skeytin hafa sent. Skeyti þau, sem eg hefi sent, má eg aftur á móti sýna, ef eg vil, en eg er ekki skyldugur til þess. Eftir lögunum er heldur ekki hægt að heimta þau af símastöðinni, nema með dómi. Í þeim 6 skeytum, sem eg hefi sent, er ekkert, sem eg þarf að leyna, en mér dettur ekki í hug að sýna þau hverjum forvitnum þingmanni, sem hafa vill; eg læt engan fyrirskipa mér neitt í því efni, hvað sem forseti sameinaðs þings, þm. N.-Ísf. segir. Eg hefi sýnt skeytin flestum samflokksmönnum mínum, las þau síðast öll upp á dagskrárfundi í dag, og eins hefi eg sýnt þau mínum forseta, háttv. forseta Nd. Allir þessir menn vita hvað í þeim stendur, og að það er ekkert annað, en auðvelt er að standa við, hvar sem er. Annars get eg gefið þá yfirlýsingu, að ef háttv. þm. Barð. (B. J.) og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sýna deildarforsetunum báðum sín skeyti, þá skal eg líka sýna forseta efri deildar mín skeyti. Eg skuldbind mig aftur á móti alls ekki til að sýna neinni »rannsóknar«-nefnd, þótt skipuð væri, eitt einasta af þessum skeytum, því eg veit ekki nema í þá nefnd yrði settir menn, sem eg alls ekki finn ástæðu til að sýna slíka kurteisi. Að öðru leyti hefi eg ekki meira að taka fram að svo stöddu. Eg álít alla þessa málsýfingu af hálfu tillögumanna harla óheppilega, og gæti slík tortryggni eða forvitni leitt til þess, að konungur sæi sér ekki fært eftirleiðis að leita upplýsinga á þennan hátt. Það getur staðið svo á, að hann kæri sig ekkert um að eiga það undir högg að sækja hjá meira eða minna óprúttnum þinggörpum og ráðherraspekúlöntum, hvort honum væri óhætt að spyrjast fyrir í trúnaði um málefnin, með því að nota símskeyti til þess. Það gæti leitt til þess, að konungur kysi heldur að nota dýrari veginn og kalla menn á sinn fund.

Eg vona, að menn skilji það nú, að það er eingöngu »principsins« vegna að eg vil ekki sýna hverjum forvitnum þingmanni skeytin, en ekki af því, að eg hafi neitt að dylja. Eg hefi vitanlega ekki símað neitt annað en það, sem eg hefi vitað sannast og réttast.