05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

162. mál, símskeytarannsókn

Hannes Hafstein:

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) brá mér um, að eg hefði talað af kappi og hita. Eg kannast alls ekki við það, og skýt eg því undir h. deild, hvort svo hafi verið. Enda þótt eg hafi talað nokkru hærra eða heyranlegar en háttv. þm., sem er mjög rámur um þessar mundir, þá mun það þó flestra mál, að hitinn hafi verið hans meginn. Eg sagði ekkert stygðaryrði til hans, en út úr hans orðum skein blábert hatur og hann greip til þess úrræðis að bera fram ósannindi um mig, er hann vildi bera mér á brýn, það, sem hann sjálfur er sekur í.

Framkoma þessa virðulega þm. sjálfs við ráðherraskiftin var í mörgu tilliti alveg óhæfileg. Hann fékk skeyti og var beðinn upplýsinga sem forseti sameinaðs þings. Hann tók það óðara svo, að verið væri að gefa sér undir fótinn sem ráðherraefni, og hagaði sér eftir því. Í stað þess að gera öllum þm. jafnt undir höfði, að sjá skeytið og vera með að svara því, tekur hann það sem hvalreka fyrir sjálfan sig og sinn flokk, lætur að eins sína menn vita um þetta, og sendir svo konungi tólf álna langt og tírætt skeyti, sem kostaði landssjóðinn yfir 280 krónur, til þess að leiða hann í allan sannleika um það, að þingið og þjóðin sannlega vildi engan nema hann, hr. Skúla Thoroddsen, til þess að taka við stjórninni og vera brjóst fyrir Íslandi í hvívetna. Hann hefir lengi treyst sér vel til þess að »representera« hina íslenzku þjóð, utan lands og innan, eins og kom fram seinast þessa dagana, þegar hann útvegaði sér fé af landssjóði til Frakklandsfararinnar sælu, þvert ofan í þingsköpin! Hvað er eitt lítið lagabrot í samanburði við þann sóma að hafa hann fyrir fulltrúa sinn og frumherja? Hvað gerir það til, þótt landinu þurfi að blæða dálítið, þegar hann á í hlut? Eg hefi heyrt að hann hafi sagt sínum flokksmönnum eitthvað úr þessu hinu mikla skeyti. Fyrir öllum öðrum var það hulinn leyndardómur, og er það enn. Hann, sem þannig fór að, hann er að slá í borðið og bregða mér um, að eg leggi ekki spilin upp, en hann sjálfur, sem ranglega notaði stöðu sína sem forseti sameinaðs þings í þarfir sjálfs síns og síns flokks, hann þykist ekki þurfa þess, hann leynir þingið því, sem hann hefir látið uppi sem svar til konungs upp á skeyti, er honum var sent eingöngu í því trausti, að hann svaraði jafnt fyrir báðar deildir og alla flokka þingsins. Hann sagði, að það væru blekkingar úr mér að segja, að þingið ætti ekki heimting á að fá eftirrit af privatsímskeytum. Þetta hlýtur hann að segja mót betri vitund. Hann hlýtur að vita, að eftir 49. gr. stjórnarskrárinnar má ekki rannsaka bréf né önnur skjöl nema eftir dómsúrskurði, og í 15. gr. ritsímalaganna er mjög ákveðið bann gegn því, að embættismenn ritsímans láti nokkuð uppi um skeyti þau, er send hafa verið. Þagnarskyldan nær — jafnvel gagnvart nefndum, er þingið setur — eins til skeyta embættismanna, sem borgað er fyrir af opinberu fé, og er þess nýtt dæmi á þessu þingi, sem nú stendur yfir. Rannsóknarnefnd Ed., sem skipuð er til að rannsaka ýmsar gerðir fráfarandi stjórnar, vildi fá nokkur símskeyti hjá símastjóranum, er ráðgj. fráfarni (B. J.) hafði sent, en ritsímastjórinn neitaði að láta þau af hendi. Sneri hann sér jafn framt til stjórnarráðsins með fyrirspurn um þetta efni og úrskurðaði stjórnarráðið að skeytin skyldu ekki látin af hendi nema eftir dómi. Þetta er og algeng regla annarsstaðar í heiminum, og verður væntanlega framfylgt hér einnig í þessu tilfelli, eins og því, sem eg hefi nefnt. Það er því tilgangslaust að skipa nefnd til þess að fá skeytin hjá símastjórninni. En eins og eg hefi margtekið fram hefir mér ekki dottið í hug að fara leynt með efnið í mínum skeytum gagnvart þeim mönnum, sem eg á annað borð hefi saman við að sælda. Nálega helmingur þingsins, þar á meðal forseti Nd., veit hvað eg hefi símað og auk þess ýmsir utanþingsmenn. Ef eitthvað væri þar í, sem væri rangt eða hættulegt fyrir landið eða þingræðið, þá mundu einhverjir af þessum heiðursmönnum segja til þess.

Eg finn svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta, og það enda þótt háttv. N.-Ísf. (Sk. Th.) finni ástæðu til þess að úthella sér eitthvað yfir mig.