05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

162. mál, símskeytarannsókn

Skúli Thoroddsen:

Mig furðar á því, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) skuli ekki hafa valið sér betra vitni, til þess að standa hér upp, en háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.). Það er óneitanlega harla kynlegt að sjá hann standa hér upp í deildinni sem sannleiksvitni, svo alkunnur sem hann er af blaðagreinum sínum í Reykjavíkinni og öðru. Að hann standi hér upp og segi: Eg get borið sannleikanum vitni, bendir meðal annars á fífldirfsku þá, sem getur gripið suma menn, jafnvel á gamals aldri. Öðruvísi virðist mér ekki ástæða til að svara digurmælum háttv. þm.