20.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

1. mál, stjórnarskrá Íslands

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Svo sem menn mun reka minni til, lá fyrir síðasta alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga í sambandi við sam­bandslagafrumvarpið. Nefndin í sambandsmálinu hafði það til meðferðar, en fékk ekki afgreitt það vegna þess, að tími vanst ekki til. Meðal breytinga þeirra, sem farið var fram á í frumv. því, má nefna þau höfuðatriði: að fjölga skyldi ráðherrum, konungkjörnir þingmenn skyldu hverfa úr sögunni, kosn­ingarréttur skyldi rýmkaður og veittur konum og loks, að breyta mætti sambandinu milli ríkis og kirkju með ein­földum lögum. Frumvarpið varð, svo sem eg hefi sagt, ekki afgreitt frá þinginu, en hins vegar var stjórninni falið með þingsályktun að leggja stjórnarskrár­frumvarp fyrir þetta þing. En okkur flutningsmönnunum var kunnugt um, að slíkt frumv. var ekki tilbúið frá stjórn­arinnar hendi, þótt ráðherrann muni hafa haft í hyggju að leggja það fyrir þingið.

Í þingsályktan síðasta þings var það eitt tekið fram, sem bráðnauðsynlegast þótti, en það þótti okkur, flutningsmönnum þessa frumvarps, ekki nóg, heldur vildum við, að í stjórnarskrárfrumvarpi þessu kæmu nokkurnveginn fram hinar fylstu réttarkröfur vorar, sérstaklega vegna þess, að tilraunin til þess að bæta sambandið milli Íslands og Danmerkur, virðist nú vera strönduð.

Frumvarp vort fer því fyrst og fremst fram á, að löggjafarvaldið í öllum málefn­um landsins skuli eingöngu vera hjá konungi og alþingi, og er að því leyti fylgt stefnuskrá flokks vors frá 1908.

Annað nýmæli frumvarpsins er það, að fjölga skuli ráðherrum; teljum vér nauðsyn bera til þess, þar sem þing kemur aðeins saman annaðhvort ár, og þar að auki hyggjum við, að á þann hátt verði trygt meira jafnvægi og fjölhæfari þekking í stjórn landsins. Þá er og ætlast til, að eftirlaun ráðherra verði afnumin, enda munu og flestir líta svo á, sem ófært sé, að ráðherra hafi eftirlaun, því að ekki er víst nema ráðherrastóllinn reynist valtur á landi hér, og getur þá, jafnvel á nokkurra ára fresti, orðið mikill byrðarauki að ráðherraeftirlaununum.

Ennfremur er það nýmæli, að eftirlaun embættismanna megi afnema með lögum, og hyggjum við, að það ákvæði sé í samræmi við almennan þjóðarvilja hér á landi.

Þá er og farið fram á, að allir alþingismenn skuli þjóðkjörnir, en ekki er nánar tiltekið um, hvernig kjósa skuli til deildanna og verður það hlutverk nefndar þeirrar, sem væntanlega verður skipuð í málið, að gera nánari ákvæði um það; raunar er það skoðun margra — þar á meðal núv. ráðherra (Kr. J.) — að bezt færi á, að þingið sé alt ein deild. Sjálfsagt þótti okkur að rýmka um kosningarréttinn; samkvæmt þeim ákvæðum, sem nú gilda, hafa 25 ára gamlir karlmenn kosningarrétt, en kjörgengi 30 ára. En við hyggjum rétt að færa aldurstakmarkið niður til 21 árs, því að á þeim aldri hafa flestir náð þeim þroska og dómgreind, að þeim er vel trúandi til að kjósa til alþingis. Konum viljum við og veita kosningarétt, giftum sem ógiftum, ef þær að öðru leyti fullnægja lögmæltum skilyrðum; slíkt hið sama, að veita megi konum kjörgengi með lögum, ef öll önn­ur skilyrði eru fyrir höndum.

Enn er það ákvæði, að allir dómarar eru undanþegnir kjörgengi. Reynsla hinna síðari ára hefir sýnt, að ekki fer vel á, að dómarar vefjist mjög í landsmálum; slíkt getur valdið hlutdrægni af þeirra hálfu og það jafnvel á móti vilja sjálfra þeirra.

Minnast verður og þess nýmælis, að skipa skuli fyrirkomulagi kirkjunnar með einföldum lögum, og að enginn skuli skyldur að gjalda til annars kirkjufélags en þess, sem hann tilheyrir.

Afnema viljum við titla og orður, enda þykja dæmin deginum ljósari, hversu stjórnir hafa notað sér slíkt til þess að afla sér hylli og fylgis og er mál til komið, að sá óvandi sé ger landrækur.

Loks hefir því verið skotið inn, að sambandslög, sem sett kynnu að verða milli Íslands og Danmerkur, skuli sæta sömu meðferð sem frumvörp til breyt­inga á stjórnarskránni. Þykir mönnum sem slíku stórmæli megi ekki hrapa af á einu þingi.

Að endingu skal þess getið, að öll nýmæli frumv. hafa verið prentuð með leturbreytingum; þó hafa nokkur mistök orðið: í 55. gr. eiga orðin »og lög­mæltum« að prentast með skáletri, en í 38. grein eiga orðin: »er hann situr í«, að falla burtu.

Skal nú ekki að svo komnu farið fleiri orðum um þetta mál; það hefir vakað fyrir okkur flutningsmönnunum, að láta öll nýmæli frumv. vera svo gagnger og ákveðin, að eigi þurfi bráðlega að fara að káka við nýjar stjórnarskrárbreyt­ingar. Vonum við fastlega, að nefnd verði skipuð í málið, er svo geri þær umbætur á frumv., sem þurfa þykir.