20.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

1. mál, stjórnarskrá Íslands

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg vil leyfa mér að vekja athygli á, að flutningsmenn frumv. virðast ekki hafa lesið 26. gr. þingskapanna. Þar stend­ur: »Lagafrumvarp, er felur í sér tillögu um breyting á stjórnarskránni eða viðauka við hana, skal í fyrirsögninni nefnt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn, vísar forseti því frá«. Þessu ákvæði hefir hingað til verið stranglega fylgt, og hefir það komið tvisvar sinnum fyrir, að frumv. hefir verið vísað frá af þeirri ástæðu. Hér hefir verið brotið í bág við þetta ákvæði, og þar sem frumvarpið nefnist: »Frumv. til stjórnarskrár Íslands«, vil eg því skora á forseta að vísa málinu frá. — En úr því eg á annað borð er staðinn upp, vil eg fara nokkrum fleiri orðum um málið. Háttv. flutnm. (J. Þ.) afsakaði sig með því, að flutningsmenn frumv. hefðu eigi haft nægan tíma við samning þessa frumv. til að kynna sér stjórnarskrárfrv. það, sem stjórnin lagði fyrir síðasta þing. Þeir hafa þó haft 2 ár. (Jón Þorkelsson: Hefi aldrei sagt það!). Jú, háttv. flutningsmaður sagði það, því tók eg vel eftir, þótt hann kunni að strika það út úr ræðu sinni, áður en hún verður prentuð, en eg vil leyfa mér að benda á, að háttv. flutnm. hefir þó unnist tími til þess að skrifa upp heilar greinar úr stjórnarskrárfrv. stjórnarinnar frá síðasta þingi. — Vilji þjóðarinnar í þessu máli hefir sést á þingmálafundum þeim, sem haldnir hafa verið nú að undanförnu; á þeim öllum hefir þess verið óskað, að stjórnarskráin væri endurskoðuð og afgreidd á þessu þingi; að því er snertir einstök ákvæði, hefir það sérstaklega komið berlega fram, að það er almennur þjóðarvilji, að konungskvaðning þingmanna verði afnumin. Fáeinir þingmenn vilja þó enga endurskoðun og meðal þeirra munu vera hinir háttv. flutningsm. frumv., að minsta kosti hefir háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) gert ráð fyrir á þingmálafundi hér, að viðunanleg sambandslög fáist ekki fyr en eftir 1½ eða 2 aldir og að stjórnarskrárbreytingar verði að bíða jafnlengi. Frumv. þeirra félaga, sem inniheldur mörg sambandslagaákvæði, sem Danir vitanlega telja óaðgengileg, er því ekki annað en tilraun til að hefta framgang málsins, en slík tilraun er gagnstæð vilja landsmanna og væntanlega allra í þessari deild, annara en flutningsm. Öllum má vera ljóst, að frumv. þetta er engu síður sambandslagafrumv. en stjórnarskrárfrumv., og ef svo ólíklega færi, að slíkt frumv. yrði samþykt af alþingi, þá mundi næsta ráðherra vera skapaður aldur, því að hver sem við völdum tekur mundi velta á því. Hér eru t. d. sett ákvæði um, hvernig að skuli fara, þegar konungur er ófullveðja, sem kemur í bág við grundvallarlög Dana, og gæti því konungur aldrei samþykt slíkt. Eg fyrir mitt leyti tel eðlilegt, að meirihl. beri fram sambandslagafrv. eða skiln­aðarfrv.; um það er ekkert að segja. En eg er á móti grímuklæddu sambands­lagafrv., og eg er á móti, að því sé þvælt saman við stjórnarskrármálið, báð­um málunum til falls og hnekkis. Sam­kvæmt 2. gr. þessa frv. eru t. d. öll sérmál horfin úr sögunni, konungur og alþingi í sameining eiga að hafa lög­gjafarvald í »öllum málefnum landsins«, og ætti enginn að villast á, að upp úr slíku frumv. hefst hvorki endurbót á sambandinu né stjórnarskránni. Laumuleikur hinna háttv. flutningsm. er alt of augljós til þess. Þetta frumv. er því dauðadæmt frá upphafi, enda hefðu flutningsm. vel getað beðið, því að annað frumv. löglega orðað er á leiðinni; það var afhent til prentunar í dag. Eg vil svo að lokum skora á háttv. flutn­ingsm. að taka frumv. aftur, en ef þeir vilja það ekki, vil eg skora á forsetann að taka það út af dagskrá, þangað til fyrirsögn þess er lagfærð.