20.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

1. mál, stjórnarskrá Íslands

Hannes Hafstein:

Flutum. hefir viðurkent, að í frumv. þessu séu ýms sambandslagaatriði, þ. e. atriði, sem koma í bága við þann grundvöll, sem núgildandi stjórnarskrá vor lagalega byggist á, og sem vér eigi getum breytt eftir eigin geðþótta eingöngu. Jafnvel þótt alþingi samþykti þetta frumv., þá gæti það samt ekki orðið lagt fyrir konung, nema það fyrst væri samþykt einnig af ríkisþingi Dana, vegna sambandslagaatriðanna sem í því eru, og væri þá vel að verið, ef vér legðum þannig stjórnarskrána um hin sérstöku mál vor á náðir annars löggjafarvalds. En þar sem þessi sambandslagaatriði sum hver fela í sér kröfur, sem vissa er fyrir, að ekki ná samþykki ríkisþingsins að svo stöddu, er sennilegast, að flutnm. hafi flýtt sér svo mjög að koma fram með þannig lagaðar breytingar á stjórnarskránni, til þess að reyna að koma því til leiðar, að engar breyt­ingar fáist á stjórnarskránni að þessu sinni.

Frumvarpið er annars alls ekki í löglegu formi. Það hefði átt að vera tekið fram í fyrirsögn frumv., að það væri frumv. til stjórnarskipunarlaga Íslands. Hitt er rangt form, að orða fyrirsögnina eins og gert er í frumv.