20.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

1. mál, stjórnarskrá Íslands

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hefir komið með ranga skýringu á því, hver væri tilgangur okkar með frumvarpi þessu, og borið það upp á okkur, að við ætluðumst til, að það yrði þröskuldur í vegi fyrir breytingum á stjórnarskránni. Við ætlum okkur auðvitað ekki þá dul, að við getum komið frumvarpi þessu óbreyttu gegnum deildina, og við erum heldur ekki þeir þverhöfðar, að við ekki tökum til greina breytingar þær, sem fram kunna að koma. Þessvegna mótmæli eg ummælum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að frumvarpið sé borið fram í þeim tilgangi að hindra nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni. En mönnum verður að skiljast það, að með frv. þessu er haldið í sömu stefnu sem tekin var á alþingi 1909. Hitt er álitamál og ágreiningsefni, hver aðferðin sé heppilegust til þess að ná takmarkinu. Eg fyrir mitt leyti álít það alls ekki sjálfsagt, að við eigum endilega að kosta kapps um að vera að gera sambandslög við Dani. Það getur legið eins nærri, að reyna að ná réttindum vorum smátt og smátt með vorri eigin löggjöf.