26.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

17. mál, stjórnarskipunarlög

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Þegar eg tók til máls áðan, þá sá eg, að á dagskránni stóð: 1. umr., og vildi eg ekki brjála þingsköpunum, eins og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefir gert. Öll ræða hans var brot á þingsköpunum. (Jón Þorkelsson: Eg hafði leyfi forseta). Já, hann er frjálslyndur.

Af öllum þeim einstöku greinum, er háttv. þm. fór út í, er það ekki nema ein, fyrsta greinin, sem getur verið um­ræðuefni nú, því að það er grundvallarregla, sem gengur í gegnum alt frv.

Háttv. þm. talaði um 1. gr. með venjulegri ráðvendni, þegar hann þagði um það, sem honum hafði þó verið skýrt frá, að við höfðum fyrst samið nýtt stjórnarskrárfrv., en snerum því svo upp í frv., sem að eins gerir breyting­ar á núgildandi stjórnarskrá, og þá láð­ist að strika út 2. málsgrein fyrstu grein­ar. Hann veit vel, því þess var getið skýrt á nefndarfundi að 1. þm. Rvk (J. Þ.) viðverandi, að þetta væri vangá, og talar því þm. hér á móti betri vitund.

Þá skal eg víkja að aðal umræðuefninu í dag, sem sé þessari aðferð, að gera breytingar við einstakar greinar í nú gildandi stjórnarskipunarlögum, og því hvort hún sé heppileg. Við höfðum byrjað á hinu, en strönduðum á því, að orða 1. gr. Höfðum reynt að fella burtu stöðulagaákvæðið, en þá kom að því, að við þurftum að fara að telja upp sérmálin, og þá hefði þingið orðið að greiða atkvæði um það, hvað væru sér­mál, og þannig samþykkja ákvæði stöðulaganna óbeinlínis, viðurkenna þá um­gerð eða takmörk, sem þau marka sér­málum vorum. Þetta vildum vér forð­ast, vér vissum, að flestum þm. mundi vera áhugamál að forðast það, en hins vegar brýn þörf á að fá ýmsu öðru breytt. Og við héldum að háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) vildi ekki fremur en aðrir samþykkja ákvæði stöðulaganna, þótt eigi væri lögin sjálf nefnd. En annað var ekki auðið, ef ekki átti að gera sig sekan í kórvillunni hans. Og það hefði hann átt að sjá, að honum tjáir ekki að gera grand úr sambandslögum og stjórnarskrá, þegar flokkurinn lýsti yfir því, að hann vildi engan þátt eiga í þeirri grautargerð. (Jón Þorkelsson: Flokkurinn? — 1 maður!) Já, hann lýsti því fyrir hönd hinna. Við höfum ekki viljað hrófla við 1. gr., til þess að standa ekki í vegi fyrir því, að almenn­um óskum kjósenda í nærfelt hverju kjördæmi yrði fullnægt, þeim óskum, að fá framgengt nokkrum verulegum breyt­ingum á sjórnarskránni, þar á meðal þeirri breyting, að afnema konungskosn­ing þingmanna, og annað sem stendur í nánu sambandi við það, svo sem skip­un þingdeildanna og afstöðu þeirra. Auk þess eru ýmsar meinlausar breyt­ingar aðrar teknar með, en forðast að nefna alt það, sem ekki er hægt að breyta, nema með sambandslagabreyt­ingu, því að sambandslaga ákvæði eða ákvæði um ríkisréttarstöðu Íslands, hlutu, ef þau væru tekin inn í stjórnarskrárfrumvarpið, að tálma staðfesting laganna og þá væri alt unnið fyrir gýg.

Eg skal ekki fara mikið út í einstak­ar greinar, sem h. þm. rakti, t. d. yfirheyrsluna. Hvar stendur það ? Frv. gerir aðeins ráð fyrir því að ákveða megi með einföldum lögum þekkingarskilyrði fyrir kosningarrétti. Það er nokkuð annað, en það sem 1. þm. Rvk (J. Þ.) var að hjala um út í loftið.

Það er í rauninni eðlileg krafa, að kjósendurnir viti eitthvað um skipulag þjóðfélagsins, t. d. um rétt og valdsvið alþingis og fleiri einföld atriði, hafi dálítið hugboð um, hvernig þeim er stjórn­að. Er sennilegt, að slíks verði einhverntíma krafist af öllum þegnum þjóðfélagsins. Krossa og titla höfum við ekki minst á. Okkur hugkvæmdist ekki það atriði, en tæpast mun það verða mikið misklíðarefni. Í frv. háttv. þm. Rvk. (J. Þ.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) er að eins talað um krossa og orður, aftur á móti minnast þeir ekki á afnám titla. 1. þm. Rvk. hefir því hér með sinni venjulegu »diplomatarisku« nákvæmni, lesið inn í textann orð, sem hvergi standa þar. Út af því atriði, að í frumv. okkar stendur, að konungur geti kært aðra menn en ráðherra fyrir landsdómi, spurði háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hvort tilgangurinn væri, að heimila konungsvaldinu rétt til þess að draga t. d. skilnaðarmenn fyrir þann dómstól. Eg get skýrt háttv. þingmanni frá því, hver tilgangur okkar flutnm. var með þessu ákvæði. Hegningarlögin ákveða ómaklega harðar hegningar fyrir póli­tíska glæpi. Þau þekkja ekki til kviðdóma. Hinn eini kviðdómur hér á landi er landsdómur. Hann mun fara mýkra í málin og verður því þeim, sem sak­aðir eru um pólitíska glæpi, hagræði að fá mál sín dæmd af honum. Þetta ákvæði er því eingöngu til tryggingar pólitísku frelsi í landinu. Svo er það ósatt, að vér höfum lagt þetta á vald stjórnarinnar eða konungs, vér höfum að eins lagt til, að það væri heimilað með samþykki alþingis. En ekki mun­um við flutnm. gera það að neinu kappsmáli.

Hæstv. ráðherra (B. J.) lofaði að leggja fram stjórnarskrárfrumvarp. Hann sagð­ist vera óánægður með bæði þau frumvörp, sem fram hafa verið lögð, en kvaðst sjálfur mundi leggja fram nýtt frumv., sem ekki hefði þá annmarka, sem honum þótti vera á hinum. En eftir það, sem gerðist í gær hér í deild­inni, stendur það nú ekki á svo ákaflega miklu, hversu honum geðjast að því, sem þetta þing samþykkir. Hann var að tala um nýja flokkaskiftingu í þinginu, en mer er ókunnugt um hana. Afstaða flokkanna hefir í engu raskast, þótt einstöku menn úr báðum flokkum hafi orðið sammála í einstöku máli, sem ekki snertir þau atriði, sem flokkana greinir á um.