09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jens Pálsson:

Eg vildi leyfa mér að minnast með örfáum orðum á brtill. þá sem við. háttv. 1. þm. Gullbr. og Kj.s. og eg, eigum á þskj. 963. Háttv. 4. kgkj. hefir minst á hana allrækilega og þykir mér því rétt að taka til máls til að andmæla ræðu hans. Það var öldungis rétt tekið fram af hv. þm., að framan af tímabili því, er vegagerðin suður eftir Gullbr.sýslu hefir staðið yfir, lagði sýslusjóður meira fé fram en landssjóður. En á þinginu 1907 breyttist þetta. Var þá til þess ætlast, að sýslusjóðurinn og landssjóðurinn skyldu framvegis leggja sinn helminginn hvor til vegargerðarinnar; og síðastliðin 3 ár 1908—10 hefir þetta verið svo. Vegurinn hefir verið lagður með helmings framlagi af landssjóði og sýslubúar hafa skoðað það vera orðið að samkomulagi, og það hugðu menn að stæði fast og að því mætti treysta. Lengra hefir sýslubúum ekki dottið í hug að fara, meðan að þessi vegur er sýsluvegur. Af eðlilegum ástæðum, er eg síðar mun víkja að, hefir samt sem áður svo farið öll þessi áminstu þrjú árin, að ekki hefir orðið nákvæmlega miðað framlag sýslunnar við krónuupphæð þá, sem lögð hefir verið fram úr landssjóði. Árið 1908 lagði landssjóður fram til vegarins kr. 7500.00 en sýslan kr. 8248.23. Árið 1909 veitti landssjóður kr. 7500,00 en sýslan 9621,48. Árið 1910 var landsjóðstillagið hið sama, en sýslan lagði fram 6636,21. Með öðrum orðum framlag sýslunnar hefir ekki verið hnitmiðað niður við hvert árið. Það verður að fara eftir því, hverjar ástæður eru fyrir hendi í það og það skiftið; ef illa viðrar að haustinu til, miklar rigningar ganga, þá er sjálfsagt að hætta snemma. Ef gott er árferðið, þá er líka sjálfsagt að halda lengur áfram.

Menn hafa talað um, að vegur þessi sé dýr, og eg skal viðurkenna að það sé satt. En það liggur í því, að kostað er kapps um að hafa hann sem vandaðastan, hlaðinn úr grjóti einu og púkklagðan. Þeir sem þekkja hvernig til hagar furða sig heldur ekki á því, þótt hann verði dýr. Vegurinn er lagður um ósléttan hraunfláka, þar sem að hlaða verður upp lautirnar og sprengja fyrirstöður burtu, og ekki nóg með það, heldur bætist þar á ofan að ekki er hægt að fá ofaníburð, nema með því að aka honum að langar leiðir. Enn er eitt, sem gjörir vegalagning þessa dýra, og það er það, að vegna gróðurleysisins þar syðra verða menn að hafa fóður með sér, hey, sem kostar 4—5 aura pundið, handa hestunum, fram eftir öllu sumri. Verkkaupið aftur á móti hefir ekki verið hærra en alment gjörist, — öllu heldur lægra — og forstöðumaðurinn, sem er hinn reglusamasti, hagsýnasti og áreiðanlegasti maður, og hefir fengið mesta lof, hvar sem hann hefir verið að vegagerð, hefir lagt mikla stund á að gjöra veginn sem ódýrastan.

Um það, að sýslan hefir árin 1908 og 1909 lagt fram miklu meira fé en það sem svarar landsjóðsstyrknum þau árin, læt eg þess getið, að svo hefir verið litið á, að hún hafi eytt til vegarins fyrir sig fram af næsta fjárlagaárstillagi. Menn hafa álitið það koma í sama stað niður, en viljað hinsvegar flýta vegalagningunni sem mest, því að það hefir verið mikil óþreyja í mönnum að fá sem mest lagt, þar sem vegurinn er svo nauðsynlegur. Ennfremur verður að taka tillit til þess, að vegurinn endi það og það árið á hentugum stað, þar sem hægt er að komast af gamla veginum á nýja veginn, og það er ekki alténd hægt að miða það við krónu eða eyri. Að því er snertir þessa tillögu, þá hefir hún ekki aðra þýðingu en þá, að tryggja það, að vegalagningunni verði lokið á fjárhagstímabilinu 1912—13. Við flutningsmenn vitum, að ef þessi vegur á að vera vel lagður það sem eftir er, þá verður hann að vera púkklagður, því annars yrði viðhaldið of dýrt. Það sem eftir er leiðarinnar, er jarðvegurinn víða gljúpur og aursamur, og veðst upp í rigningum. Eins og eg sagði, þá viljum við tryggja það, að veginum sé lokið á næsta fjárhagstímabili. Í þessu sambandi skal eg geta þess, að kauptúnið, við suðurenda vegarins, Keflavík, með 500 manns, hefir farið þess á leit, að byrja mætti að leggja veginn frá sér næsta ár og mun það afráðið. Ef fjárveitingin hrykki ekki til, þá yrði afleiðingin sú, að eftir yrði lengra eða skemra bil, er yrði ófær vegleysa, sem gjörði veginn mikið til gagnslausan. Hverjum væri það til góðs, að láta lítinn spotta vegarins bíða? Eg skil ekki, að það munaði svo um þessa upphæð, að fjárlögin löguðust mikið við, þó hún væri ekki með. Eg held að það sé ekki gjörlegt að vera að sneiða nú af fjárveitingunni til þessa vegar, sem menn hafa nú verið að vinna að yfir 10 ár.

Maður er alt af látinn heyra það, að þetta sé sýsluvegur. Það er satt, að þessi Gullbringusýsluvegur allur er sýsluvegur, en hann á ekki allur að vera sýsluvegur. Það er ekki og hefir aldrei verið sanngjarnt né rétt að hann sé það. Það var ein af misfellum vegalaga vorra frá upphafi, og misrétti er það gagnv. Gullbringusýslubúum. Yfir þetta sást löggjafarþinginu 1893, og í annað sinn, er vegalögin voru endurskoðuð 1907, og þó var þá byrjað á þessari dýru og nauðsynlegu vegagerð. Þá var auðsætt, að ekki tjáði framar að láta þennan veg halda áfram að vera sýsluveg, það átti að fara með hann eins og vegi, sem liggja yfir og í gegnum fólksflestu sýslur. Norðan megin á Reykjanesskaganum ætti vegurinn að vera flutningabraut, þ. e. vagnvegur til mannflutninga og vöruflutninga. Það ætti hann að vera og á að verða alla leið frá Reykjavík suður að kauptúninu Gerðum. Hinumegin ætti að vera þjóðvegur um Miðnes, Hafnir og Grindavík til Selvogs. Vegirnir eru bygðir fyrir fólk, til þess að fara eftir þeim og til þess að nota þá til vöruflutninga. Því fleira fólk sem er á einhverju svæði, því meiri þörf er góðra gönguvega, reiðvega og akvega. Nú er það kunnugt, að norðan megin á Reykjanesskaga eru fólksmargar bygðir, er þarfnast stórlega nothæfs vegar gegnum þær og millum þeirra yfir hin alræmdu hraun og klungur, sem eru þó flatlendi, vel fallin til kerruflutninga og vagnferðalaga, er vegurinn er kominn. — Fólksfjöldinn að sleptu Seltjarnarnesi er:

í Garðaprestakalli um 1900

- Kálfatjarnarprestakalli " 600

- Útskálaprestakalli " 1600

- Grindavíkurprestakalli " 360

eða alls um 4460

Þar við bætast í Herdísarvík og Selvogi á að gizka 90

eða fólksfjöldi alls á skaganum 4550

Er nú rétt að láta Gullbringusýslu eina allra sýslna landsins vera án nokkurs þjóðvegarspotta ? er það sanngjarnt og réttvíst að líta á hana sem mannfátt útnes, er hljóti að verða í þessu efni útundan, — er það sanngjörn meðferð á sýslu, þar sem að búsettir eru meir en hálft fimta þúsund manna? Í annan stað er þess að gæta, að við annan enda þess vegar, er hér ræðir um, er Reykjavík höfuðstaður landsins, með um 12000 manns, ásamt Kjósarsýslu, en við hinn enda þess þjóðvegar, sem eftir sunnanverðu Reykjanesinu ætti að leggjast, er langstærsta landbúnaðarsýsla landsins, Árnessýsla. Af þessu er það auðsætt, að það er ekki sanngjarnt, að þessi vegur sé sýsluvegur og það ætti að vera öðruvísi. Eg skal taka til samanburðar annað nes, Snæfellsnesið. Þar átti sama misréttið sér stað; þar var enginn þjóðvegur; en löggjafarþingið er fyrir nokkrum árum búið að sjá og viðurkenna, að þar mátti eigi við svo búið standa. Þessvegna var það, að þegar vegalögin voru endurskoðuð 1907, þá var gerður að þjóðvegi vegurinn um Hnappadalssýslu, Kerlingarskarð og Helgafellssveit til Stykkishólms. Það mun hafa verið gert mest fvrir dugnað og framkvæmd manna þar. Liggur því beint við að spyrja, hvort að þar sé fleira fólk heldur en í Gullbringusýslu, svo að sanngjarnara væri að hafa þar þjóðveg. Ónei, því er ekki að heilsa. Í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu voru eftir fólkstalinu 1. des. 1910, 3900, eða nákvæmlega tekið 3911 manns, en á hinu svæðinu 4550 manns, eða meir en hálfu þúsundi fleira fólk, og þar eru þó enn ekki annað en hreppa- og sýsluvegir, alt utan af Garðskaga og austur að Hellisheiðarvegi. Auk þess er insti spottinn á Gullbringusýsluveginum, vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, langfjölfarnasti vegur á landinu. Hann er svo fjölfarinn, að það þykir tíðindum sæta, ef að maður fer svo um þann veg, hvort heldur er á nóttu eða degi, að hann mæti ekki mönnum og vögnum, og samt verður sýslan að kosta veginn, þó að Reykjavík liggi við annan enda hans og hafi hans einna mest not. Viðhaldið á þeim vegi er ákaflega dýrt, af því að hann er ekki púkklagður; það má segja, að hann sé orðinn hreinasti vandræðagripur fyrir sýsluna. Sýslusjóðurinn fékk að kenna á honum, þegar heilsuhælið á Vífilstöðum var bygt í fyrra. Það er sannarleg sanngirnis og réttlætiskrafa að landsjóður kostaði þennan veg. Því segi eg það, að allar ástæður mæla með því og krefjast þess, að landsjóður leggi nú fram sama og undanfarin ár, 7500 kr. hvort árið, svo að víst sé og trygt, að fullgerður verði á fjárhagsárinu þessi vegur, sem sýslufélagið er nú búið að kosta 42 þús. kr. til. Eg álít að sú fjárveiting mundi fremur prýða en óprýða fjárlögin; að minsta kosti held eg, að hún mundi ekki verða talin til slettnanna á þeim, þótt sumir telji þau í þetta sinn slettótt í meira lagi.

Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta mál nú, en það er af því, að eg hefi ekki, stöðu minnar vegna á þinginu, haft tækifæri til að tala um það fyrri. Eg vil að eins enn bæta því við til samanburðar, að stærstu kauptún á Snæfellsnesi eru: Stykkishólmur með 590 manns og Ólafsvík með 525 manns, en í Gullbringusýslu, Hafnarfjörður með 1550 manns og Keflavík með 470 manns. En þareð Hafnarfjörður er orðinn kaupstaður með bæjarréttindum, er hann laus við skyldu til sýsluvegarlagningar; til hans verður því engin krafa gerð um umrædda vegagerð.

Eg vona, að menn, að öllu þessu yfirveguðu, sjái, að það er ekki sanngjarnt að draga þetta sýslufélag lengur á að lokið verði við þennan veg. Það eru nógir vegir samt eftir í sýslunni, sem hún þarf að leggja.