23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorkelsson:

Mál þetta liggur nú hér fyrir í því formi, sem nefndin hefir á það komið. Eins og menn muna, komu í fyrstu fram 2 frumvörp, annað frá mér og háttv. þm. Dal. (B. J.), hitt frá háttv. þingmönnum S.-Múl.

Í þessu sambandi vil eg geta þess hér, út af því sem hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) veik að við 1. umr. á frv. okkar, þingm. Dal. og mín, — að frv. væri ekki frá vorum flokki komið, — að hann hafði enga heimild til þeirra ummæla. Frumv. hefir að vísu ekki verið samþykt með orðum og endimörk­um af flokknum. En fyrir þing var oss þrem, mér, þm. Dal. (B. J.) og þm. Strand. (A. J.) falið á hendur af miðstjórn flokksins að semja frumv. í þessa átt. Þetta var ítrekað á flokksfundi í þingbyrjun. Þetta var það, sem eg vildi leiðrétta hjá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) svo að bert yrði, að við höfum ekki komið fram með frumv. að flokknum forspurðum.

Nefndin hefir orðið sammála um margt, enda var margt líkt í frumv. okkar þm. Dal. (B. J.) og frv. hinna hv. þm. S.-Múl. (J. Ó. og J. J.), það er varðaði ákveðin efni, sem landsmenn alment hafa farið fram á og nauðsynlegt er að fá sem allra fyrst. Við höfðum lagt til í okk­ar frumv., að ráðherrarnir yrðu 3, og eftirlaun ráðherra og annara embættismanna yrðu afnumin. Þetta hefir nefnd­in tekið til greina. Enginn ágreiningur varð í nefndinni um mörg almenn at­riði, sem alment er heimtað. Það var um hin stærri atriði, sem ágreiningur varð. Við háttv. þm. Dal. (B. J.) og eg, vildum víkja 1. gr. stj.skr. svo við, að tilvitnun í stöðulögin hyrfi. Þetta hefir lengi verið vilji landsmanna og var samþykt á þingmálafundi hér í Reykjavík í vetur, á öllum fundunum af öllum flokkum í einu hljóði. Þá dró og annað mál til ágreinings, en það var skifting þingsins, hvort vera skyldi tvískift og þingmenn kosnir í einu lagi, eða tvískift og kosið í tvennu lagi. Okk­ur háttv. þm. Dal. (B. J.) og mér þótti nægilegt að kjósa í einu lagi og láta sameinað þing velja efri deild, svo sem áður hefir verið; þótti okkur það nógur hemill á neðri deild, sem er aðaldeild­in og ætti hún ekki að leggja á sig herfjötra frekara en þörf er á. Aftur á móti vildi meiri hluti nefndarinnar láta kjósa til efri deildar sérstaklega, og töldu, að við það kæmist meiri festa á þingið. En okkur þótti sem nóg festa væri að hafa hina sömu skipan um þetta, sem verið hefir, er um jafn fáment þing er að ræða. Má og benda á fjölmennari þing, er svipað fyrirkomulag hafa. Svo er um Finnland, svo sem menn geta séð í þingtíðindunum 1909, en þar er stjórnarskrá Finnlands prentuð. Líkt fyrirkomulag er og í Noregi. Menn skyldu og vara sig á að stofna lávarðadeild eða slíka lítt hagganlega þingdeild, þar sem aðrar þjóðir kvarta mjög yfir slíkum efri deildum. Allir vita, hvílíkum gauragangi það hefir valdið í Englandi, er deildum parlamentisins lenti saman.

Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að á frumvarpinu eru nokkrir hroðvirkn­isgallar, hvort sem um er að kenna skrifara nefndarinnar, prentsmiðjunni eða skrifstofu alþingis, og mun þó helzt sökin vera hjá skrifaranum. Það eru eink­um tilvitnanir nokkrar í stjskr., sem eru rangar. Eg hefi rekið mig á þessar, og mega þó vel fleiri vera: Í 7. gr. frv. er vitnað í 14. gr. stjskr., en á að vitna í 4. gr. stjórnarskipunarlaga 3. oktbr. 1903. Í 8. gr. frv. er vitnað í 15. gr. stjskr., en á að vitna í 5. gr. laganna 3. oktbr. 1903. Í 13. gr. frv. er vitnað í 19. gr. stjskr., en á að vera 7. gr. laganna frá 1903.

Eg hefi einnig veitt því athygli, að skrifarinn hefir ekki farið nógu vandlega yfir stj.skr. og ekki tekið það með, sem nefndin hafði þó áður samþykt, t. d. 34. gr. stj.skr.; hana hefir honum gleymst að lagfæra, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta upplesin:

»Ráðherra Íslands á, samkvæmt embættisstöðu sinni, sæti á alþingi, og á hann rétt á að taka þátt í umræðunum eins oft og hann vill, en gæta verður hann þingskapa. Í forföllum ráðherra má hann veita öðrum manni umboð til þess að mæta fyrir sína hönd. Atkvæð­isrétt hefir ráðherrann, eða sá, sem kem­ur í hans stað, því að eins, að þeir sé jafnframt alþingismenn«.

Hér er alstaðar talað um einn ráðherra, þar sem breytingar nefndarinnar segja, að þeir skuli einmitt vera þrír. Þetta hefir skrifari nefndarinnar gleymt að lagfæra, sem þó var sjálfsagt. Höfum við háttv. þm. Dal. (B. J.) og eg tekið þetta til greina. (Jón Ólafsson: Hvar?) Í breyt.till. okkar, en þær eru nú í prentsmiðjunni og verður útbýtt í dag eða á morgun.

Eg sé, að nefndarálitið hefir verið lagfært frá því sem það var upphaflega, enda veitti ekki af því; það var flaust­ursverk. Þá virðist mér og sem komið hafi í blöðunum tilvitnanir í nefndarálitið, eins og því var fyrst kastað upp af skrifaranum og enn ekki samþykt, — t. d. í Lögréttu í gær. Er frásögn blaðsins röng, bygð á röngu nefndaráliti, er síðar var lagfært. Þykir mér þetta undarlegt og vil spyrja skrifarann, hvaðan blaðinu komi heimild til þessa eða hvort hann hafi látið nokkuð uppi við blaðið úr uppkastinu til nefndarálitsins.

Að svo stöddu skal eg ekki fjölyrða um málið, en vera má, að eg taki til máls aftur, ef mér þykir þörf vera.