23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg ætla mér ekki að flytja langt erindi nú og mundi eigi hafa beðið mér hljóðs, ef hinn sæmilega virðulegi 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefði ekki staðið upp með dragsúgsrembingi, eins og hans er siður.

Hann dróttaði því að mér, að eg hefði sýnt blöðunum uppkastið að nefndarálitinu. Því fer fjarri. Bezt gæti eg trúað honum sjálfum til að hafa gert það. Tvö uppköst voru af álitinu gerð, hið fyrsta vélritað, hið síðara prentað í 10 eintökum og þeim eintökum var skift með nefndarmönnum. Hann tal­aði um, að álitinu hafi verið breytt frá því er það var samþykt í nefndinni. Það er fjarri öllum sanni; þar hefir ekki verið breytt svo mikið sem punkti eða kommu, svo sem sjá má af handritinu, sem varðveitt er á skrifstofu þingsins. En ef dragsúgsmaðurinn hefir verið að hugsa um eitthvað annað á nefndarfundi, þegar það var samþykt, hann um það. Annars ferst þingmanninum ekki að vera að tala um, að rit séu afvegafærð, hann, sem aldrei hefir getað gefið neitt rétt út af því, sem hann hefir verið að burðast með. Það er ekki mér að kenna, ef skakt væri vitnað í stj.skr. Frumv. og nefndarál. er prentað orðrétt, eins og það var samþykt í nefndinni, og ekki stóð þar á þingmanninum sjálfum að rétta upp putana ýmist með eða móti, þótt hann virðist nú ekkert vita, um hvað hann greiddi þar atkvæði. Annars held eg að vandalaust sé að leiðrétta þær 2 tilvitnanir, sem rangar eru; það er hægt án aðstoðar minni hlutans, því að nefnd­in hefir engin not haft hans í 8 daga, og þingmaðurinn ekkert gert nema hann hafi verið að koma hégiljum sínum á prent. Ef þingm. hefði lokið því fyrir þennan dag, þá hefði hann haft eitthvað að tala um. Eg skal ekkert skifta mér af þessum óskapnaði hans, sem í prentsmiðjunni er, fyr en hann rekur hér upp selshöfuðið.

Eg hafði ekki hugsað mér að fara út í einstök atriði fyr en við 2. umr. En svo að eg snúi mér aftur að hinum hæfilega virta 1. þm. Rvk. (J. Þ.), þá er það rétt hermt hjá honum, að ágreiningur varð í nefndinni um skipun efri deildar. Oss í meiri hlutanum þótti þurfa stöðvunarafl í þinginu, þegar afnumnir eru konungkjörnir þingmenn og rýmkað um kosningarrétt karla og kvenna, svo að kjósendur verða miklu meira en hálfu fleiri en áður. Það hef­ir víst engum dottið í hug öðrum en þessum þingmanni, að með tillögu vorri væri farið fram á að stofna lávarðadeild, því að ekki höfum vér stungið upp á erfðarétti til þingsetu. Tillaga vor var sú, að í efri málstofu ættu 15 menn sæti, kosnir hlutfallskosningum af öllum kjósendum landsins í einu lagi; kosningin gilti til 12 ára, þannig að 4. hvert ár væri kosinn þriðjungur í stað þriðjungs, er burtu viki (fyrstu tvö skift­in eftir hlutkesti). Þannig geta verið komnir 5 menn nýir eftir 4 ár, 10 eftir 8 ár og öll deildin getur verið orðin ný eftir 12 ár. Þetta nýmæli hefði eg hugsað, að flestum hugsandi og skynbærum þingmönnum þætti merkilegt; 1. þm. Rvk. (J. Þ.) tel eg ekki með; enginn tekur mark á orðum hans né skoðunum, ef nokkrar eru. Flestum sæmilega skynbærum mönnum er ant um það, að þingið hafi seglfestu, svo að það kollsigli sig ekki fyrir fullum seglum. Með því að kosningarréttur og kjörgengi verður svo geipilega rýmkað eftir frumv., er nauðsynlegt að hafa hemil á. Til þessa miðar tillaga vor. Landið sé eitt kjördæmi og hlutfallskosningar; þar með má telja víst, að þjóðin kjósi þá menn, sem kunnir eru og þjóðin hefir fest traust á, t. d. menn, sem áður hafa setið á þingi. Í öðru lagi er oss svo hætt við barnalegum hringlandaskap; vér erum fljótir að hlaupa upp og fljótir að hjaðna niður. Menn láta oft teyma sig, þjóta upp með loftkendum æsingi. Þessu þarf að setja hömlur við. Hver ný tillaga getur æst svo upp tilfinningar manna, að hún fái svo mikið fylgi í svip, að hún beri alt annað, og þar á meðal skynsamlega íhugun og gætni, ofurliða. Þessu á að reisa skorður við. Ef skoðun er réttmæt, þá er hún svo sterk, að hún hjaðn­ar ekki niður sem bóla, þá eru líkindi til að hún geti verkað á efri málstof­una, ef ekki þegar í stað, þá eftir 4 ár eða að minsta kosti eftir 8 ár.

Þetta höfum við álitið svo nauðsynlega seglfestu í löggjafarvaldinu, að fjölda margir af oss mundu ekki hafa farið eins langt og farið hefir verið í rýmkun kosningarréttarins, ef efri deild hefði ekki átt að vega salt á móti neðri deild. Þetta var álit meiri hluta nefnd­arinnar. En svo hafa þeir háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gert ágreiningsatkvæði og boðað, að þeir mundu koma með breytingartillögur, en þær eru ekki komnar fram enn, og það er nógur tími til þess að ræða um þær, þegar þær eru komnar fram. Þá er líka hægt að ræða um þær með betri rökum. En hvort nokkr­ar tillögur koma frá þessum dragsúgsþingmanni, hirðir víst enginn um að fá að vita. Og þó einhverjar komi, mun ekki nokkur skynsamur maður taka hið minsta tillit til þeirra.