29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Briem:

Eg vil fyrst fara nokkrum orðum um breyt.till. á þgskj. 269. Háttv. framsm. meiri hlutans (J. Ó.) hefir þegar minst á hana og bent á, að hún fari fram á að fækka þingmönnum um 4. Sú þingmannatala, sem nú er, er ekki ýkja gömul. Það var fyrst með lögum 3. okt. 1903, að tala þingmanna var ákveðin 40. Lengst af hafa að eins 36 menn átt sæti á alþingi, sem sé á öllum löggjafarþingunum samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar 5. jan. 1874. Á ráðgjafarþingunum voru þeir ekki nema 26 samkvæmt ákvæð­um tilskipunar 8. marz 1843. En í sambandi við það, að þingmönnum var fjölgað með lögunum frá 1903, er á það er að líta, hvað fjölguninni olli. Hún var ekki lögleidd beint í þeim einum tilgangi að auka starfskrafta þingsins, hugsunin var aðallega sú, að fjölga þjóðkjörnum þingmönnum svo í efri deild, að þeir væru þar í meiri hluta. Eg skal játa, að búast má við, að þingstörfin aukist í framtíðinni og löggjafar­málefnin verði margbreyttari, en þá kemur hitt til greina, að ef þetta frv. verður að lögum, þá verða málin betur undirbúin undir þing. Það hefir mikið til stafað af slæmum undirbúningi málanna undir þing, hvað störf hafa ofhlaðist á einstaka þingmenn bæði í nefndum og vegna frumv., sem þeir sjálfir hafa flutt. Ef ráðherrum verður fjölgað, verður ein afleiðingin, sú, að aðalstarf þingmanna verður ekki að koma fram með ný frumv., heldur hitt, að segja álit sitt um þau frumv., sem stjórnin leggur fyrir, og vekja máls á ýmsum endurbótum, sem stjórnin svo undirbýr fyrir næsta þing. Háttv. framsögum. lagði áherzlu á, að tiltölulega lítill hluti þingmanna væri þingstörfum vaxinn. Það kann að vera satt að nokkru leyti. En margur getur verið nýtur þingmaður, þótt hann t. d. sé ekki mikill orðamaður eða fimur til að skrifa nefndarálit; alt um það getur hann haft góðar hugmyndir og haft heppileg áhrif á löggjafarstarfið. Það mun láta nærri, að ef þingmenn eru 36, þá verði 1 þingmaður til jafnaðar fyrir hverja 2300 landsmenn, en víðast annarsstaðar tíðkast, að 1 þingmaður er fyrir hver 10–20 þús. íbúa. Þetta stafar auðvitað af fámenni þjóðarinnar, sem veldur því, að allar þjóðstofnanir vorar verða tiltölulega dýrari en annarsstaðar gerist. En rétt er að hafa engan tilkostnað meiri og engar stofnanir stærri um sig en þörf gerist og stendur í réttu hlutfalli við fólkstölu og efnahag þjóðarinnar. Hér má spara nokkuð fé með því að hafa þingmenn ekki fleiri en 36 og verður sá sparnað­ur meiri, ef farið yrði síðar meir að halda þing árlega.

Þá vil eg minnast á annað atriði á þgskj. 283. Framsögumaður fór um það nokkrum orðum og söng þingræðinu lof og dýrð. Vitanlega hefir sú stefna nú mikið gengi; en svo er um hana sem um marga nýbreytni, að þeir sem hafa gert sér miklar vonir um ágæti henn­ar, eru ófúsir á að kannast við þá galla, sem á henni eru. Þó er nú víða í löndum mikil óánægja með þingræðisstefnuna og mjög kvartað um, að hún reynist miður en menn höfðu gert sér vonir um. En það ætti mönnum að geta komið saman um, að grundvöllur þingræðisins er réttur þjóðarinnar til þess að ráða sjálf málum sínum. Þessi réttur er nú framkvæmdur með því að kjósa fulltrúa; en sá er hængur á, að mikill vandi er að meta kosti manna og galla svo til þess starfs sem annara. Og ennfremur verða úrslit kosninga oft eftir því, á hvaða málefni kjósendur leggja mesta áherzlu í þann svipinn, og er þá minna tekið tillit til, þótt menn að öðru leyti séu óánægðir með þingmannsefnið og skoðanir hans á öðrum málum. En þó að nú kjósendur séu vel ánægðir með þingmanninn og skoðanir hans, þá, hljóta á hverju kjörtímabili að koma fram mörg ný mál, sem hvorki þingmanninum né kjósendum hefir áður gefist tækifæri til að mynda sér skoðanir um og verða þá kjósendur að láta sér lynda, þótt framkoma þingmannsins sé alt öðru vísi en þeir vilja vera láta. Menn hafa reynt ýmis ráð til þess að bæta úr þessu; meðal ann­ars að takmarka valdsvið þingsins. En sérstaklega hafa menn á síðari árum víða bent á eitt ráð, sem sé alþjóðaratkvæði um einstök mikilsvarðandi málefni, er snerta mjög hagsmuni almenn­ings. Slík almenn atkvæðagreiðsla kjósenda um löggjafarmál hefir allvíða verið tekin upp á seinni árum, einkum í ýmsum ríkjum Bandafylkjanna í Ameríku. En hvergi hefir hún verið jafnlengi í lögum eins og í Sviss. Þar hef­ir þjóðin ekki eingöngu synjunarrétt, heldur einnig frumkvæðisrétt í löggjafarmálum. Hér er aðeins farið fram á synjunarrétt. Háttv. framsögumaður hélt því fram, að mikil hætta gæti stafað af þessari tillögu. En eg get ekki séð, að svo sé; samkvæmt till. getur þjóðin að vísu skotið málum á frest, en þar með er fengin trygging fyrir, að eigi verði hrapað að lagasetning og að þjóðin verði ánægðari með þau lög, sem hún á að búa undir. Þetta er enda ekki óþekt í löggjöf vorri, að láta þjóð­ina hafa beint atkvæði um málefni sín. Það er eitt atriði í sveitarstjórnarlöggjöfinni, að samþykki lögmæts sveitar­fundar útheimtist til þess, að nýmæli sem miklu varða og hafa mikinn kostn­að í för með sér fyrir almenning, geti fengið framgang. Og á síðari árum hefir samþyktarlagalöggjöfin fengið meiri og meiri festu og gengi, en hún byggist á rétti allra atkvæðisbærra manna til þess að skipa málum sínum að eigin vild. Á alþingi hefir að eins einu sinni verið ályktað að leggja mál undir alþjóðar dóm; eg á við aðflutningsbannið, en þá var það óheppilegt, að að eins ein spurning um atriði, sem hlaut að hafa víðtækar afleiðingar var lögð fyrir þjóðina, en ekki málið í heild sinni, og urðu því úrslitin óábyggilegri en ella mundi. Þá hefir því og verið hreyft bæði utan þings og innan um annað mjög mikilsvert mál, aðskilnað ríkis og kirkju, að því skyldi ekki ráð­ið til lykta án þess að það væri borið undir almenning. En úr því að þessi aðferð þannig er að ná fótfestu, þá virðist sjálfsagt að hafa einhver ákvæði um slíka atkvæðagreiðslu í stjórnarskránni, heldur en að alt hangi í lausu lofti. Vel getur verið, að eigi sé þörf á að beita þessari aðferð við mörg mál, enda er eg sannfærður um, að hún mundi sjaldan verða notuð.

Eg sé að háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) hef­ir komið fram með till. á þgskj. 338 um, að landstjórnin ein hafi rétt til þess að skjóta málum undir almenning, en til þess að kjósendur geti krafist slíkrar atkvæðagreiðslu þurfi nokkrir þingmenn að vera því hlyntir. Með slíku ákvæði væri það trygt, að slík atkvæðagreiðsla yrði ekki alt of oft heimtuð né í of lítilsverðum málum. — Það væri ef til vill heppilegt, að tilgreina helztu flokka þeirra mála, sem aðallega ætti að skjóta undir almenn­ing, en þar er mikið vandhæfi á að draga rétta takmarkalínu. Eg vil nefna eitt mál, sem gott væri að beita þess­ari aðferð við. Það eru ábúðarlögin, sem nýlega voru samþykt hér í deild­inni. Þau snerta mjög alþýðu manna og hafa í för með sér mikil útgjöld bæði fyrir landssjóð og jarðeigendur, einkum að því er snertir kostnað við húsabyggingar, og telja margir vafasamt, hvort í lögunum sé nægileg trygging fyrir því, að því fé verði ávalt sem bezt varið og komi að tilætluðum not­um. Háttv. framsm. (J. Ól). lagði áherslu á, að kjósendur væru almennt óhæfir til þess að mynda sér skoðanir um löggjafarmálefni. En eg vil leyfa mér að fullyrða, að allur þorri bænda er eins vel fallinn til þess að dæma um slík lög sem ábúðarlögin, eins og þingmenn. Eg skal nefna annað dæmi, ellistyrktarlögin frá síðasta þingi. Samkv. þeim eru allir gjaldskyldir í ellistyrkssjóð, en enginn hefir beinan rétt til þess að fá neitt í aðra hönd nema sem ölmusu eftir útbýtingu hreppsnefndar. Þetta stendur í sambandi við það, að sjóður þessi er ekki neinn tryggingarsjóður í eiginlegri merkingu, og geta verið skiftar skoðanir um hvort það fyrirkomulag sé að öllu leyti hentugt, ekki sízt þegar sjóðurinn vex að miklum mun. Á slík mál sem þessi hygg eg að almenningur beri fult skyn og get ekki séð, að neitt væri í húfi, þó að þeim væri skotið beint undir atkvæði kjósenda. Eg mun svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vil að eins leyfa mér að benda á, að hér er um framtíðarmál að ræða, þótt það ef til vill hafi ekki mikið fylgi á þessu þingi eða nái nú fram að ganga.