29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Sigurðsson:

Það er til gamall málsháttur, sem segir, að það eigi vel að vanda, sem lengi eigi að standa.

Þetta gamla máltæki ættu þingmenn að hafa fyrir augum við alt lagasmíði, en þó eigi sízt, þegar ræða er um verulegar breytingar á stjórnarskrá landsins. Það er skoðun margra stjórnmálamanna, að það eigi yfir höfuð að fara varlega í allar breytingar í stjórnarskrám þjóðanna, og vanda mjög til þeirra, þegar í þær er ráðist. Í sambandi við það má geta þess, að talið er hyggilegt að leyfa í stjórnarskránni, að þessu eða hinu megi breyta með sérstökum lögum. Þannig er heimilað í stjórnarskrá vorri að breyta megi með lögum þingtímanum, tölu þingmanna o. s. frv. Þetta álít eg þýðingarmikið atriði og það styður að því, eða ætti að styðja að því, að ekki sé verið að gera sífeldar smábreytingar á stjórnarskránni.

Þá vil eg víkja að breytingatillögum mínum á þgskj. 328, er eg hefi leyft mér að koma fram með. Eg býst nú við að háttv. þingmönnum þyki þær miða töluvert í íhaldsstefnuna eða vera »konservativar«. En það er oft gott og nauðsynlegt að vera hæfilega íhaldssamur.

Breytingartillögur þessar eru við 10. og 11. gr. frumv. meiri hluta nefndarinnar í stjórnarskrármálinu og miða að því að takmarka kosningarrétt manna og kjörgengi. Kosningarrétturinn er í tillögum mínum miðaður við 25 ára aldur. Eg hefi átt tal um þetta við marga menn og margir þeirra, allir þeir gætnari, kannast við, að eigi sé ástæða til að fara lengra í þessu efni. Menn eru ekki almennt orðnir andlega full­þroskaðir fyr en 24–25 ára. En óneitanlega er það í þessu sambandi þýðing­armikið, að það sé komin festa og þroski á skoðanir manna, sem fenginn er í hendur sá mikli réttur að kjósa til alþingis. Eg hygg einnig, að allur þorri ungra manna sakni þess eigi mjög, þótt þeir fái ekki þenna rétt fyr en þetta, einkum þegar þess er gætt, að þá veitist kosningarrétturinn öllum þeim karl­mönnum undantekningarlaust, sem orðn­ir eru 25 ára að aldri. Þá fá kosningarréttinn jafnt bændur og búlausir menn, vinnumenn, lausamenn o. s. frv.

Þá þykir mér og fara betur á því, að konum megi veita kosningarrétt og kjörgengi til alþingis með sérstökum lögum. Eg efast um, að það sé yfir höfuð hagkvæmt eða holt fyrir þjóðina og okkar pólitíska líf að fara jafn langt og frv. til stjórnarskipunarlaga á þgskj. 228 ger­ir, að því að útfærslu kosningarréttar­ins snertir. Eg tel jafnvel, að þar sé of langt farið. Fyrir því hefi eg viljað gera tilraun til, að hæfileg takmörk í þessu efni kæmust inn í frumvarpið. Og 25 ára aldur tel eg hæfilegt aldurstakmark, þegar um kosningarrétt til alþingis er að ræða.

Um kosningarrétt kvenna vil eg að eins segja það, að á síðasta alþingi var þeim veittur kosningarréttur og kjörgengi til sýslunefnda og bæjarstjórna utan Reykjavíkur, en þar var búið að veita þennan rétt áður. Nú virðist mér rétt að lofa kvennþjóðinni að æfa sig í að nota þessi fengnu réttindi og sjá hvernig það gefst. Eg efast nú ekki um, að það gangi alt skaplega og þá er ávalt hægt að færa út kvíarnar, þegar heimild er til þess í stjórnarskránni.

Um hitt skal eg ekki ræða, hvort það yfir höfuð er æskilegt að veita konum kosningarrétt í pólitískum málum Þar um eru skoðanir manna skiftar. Að minsta kosti sé eg ekki neina brýna þjóðarnauðsyn á, að það sé hrapað að því.

Um hin önnur atriði í þessum breytingartillögum mínum skal eg ekki fjölyrða. Þess skal eg þó geta, að eg álít sjálfsagt að útiloka alla dómendur landsins frá þingsetu. Til þess liggja mörg rök og þau auðsæ öllum skynbærum mönnum.

Þá hefir mér virst ástæða til að færa upp aldurstakmarkið fyrir kjörgengi til efri deildar. Samkvæmt tillögum meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar er mein­ingin sú, að fá með þannig lagaðri skip­un efri deildar festu í löggjafarstarfið. Tillaga mín fer í sömu átt og miðar að því að tryggja þetta enn betur. Aldur manna hefir sína þýðingu í þessu efni. Eg tel það því til bóta, að aldurstakmarkið, þegar um kjörgengi til efri deild­ar er að ræða, sé fært upp í 30 ár í staðinn fyrir 25 ár eins og frumvarpið ráðgerir.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) fann það að þessari tillögu að hún færi helzt til skamt. Vildi hann einnig miða kosn­ingarrétt til efri deildar við 30 ára ald­ur og er eg honum í raun og veru samdóma um það. Hugsanlegt að þetta megi laga til 3. umr. málsins. Það er í mínum augum afar þýðingarmikið, að búið sé svo um, að efri deild verði einskon­ar hæfileg seglfesta í störfum þingsins og löggjöf landsins.

Áður en eg lýk máli mínu vil eg leyfa mér að minnast á 3. gr. frumv. á þgskj. 228. Þar er gert ráð fyrir því og slegið föstu, að ráðherrarnir skuli vera þrír. Eg hefði nú heldur kosið, að ekki hefði verið lengra farið en það, að heimild væri til að fjölga þeim, og þá helzt með þjóðaratkvæði. Eg kannast við, að margt mælir með því, að ráðherrar séu þrír, og að því leyti get eg fallist á flest af því, er háttv. framsögumaður meiri hlutans (J. Ól.) tók fram um þetta atriði. Hins vegar sé eg ekki ástæðu til þess nú þegar að fjölga ráðherrum. Þjóðin hefir jafnan krafist þess og krefst þess enn, að farið sé varlega í það að fjölga embættum. Hér er um hálaunuð embætti að ræða, sem naumast geta haft í för með sér, að öðrum embættismönnum sé fækkað.

Nú býst eg við, að þótt ráðherrunum sé fjölgað, þá mundi það ekki verða til þess að auka verulega starfskraftana í stjórnarráðinu. Það er hætt við, að ráðherrarnir verði aðeins pólitískir ráðherr­ar, meir og minna ókunnugir »administrationinni« og þeim málum, sem varða atvinnuvegi landsins. Öðru máli er að gegna, ef ráðherrarnir væru fagmenn, hver á sínu svæði. En eg geri mér enga von um, að það verði fyrst um sinn, og sízt eins og nú horfir við.

Mér hefir verið sagt, að stjórnarskrárnefndin hafi valið þessa leið vegna þess, að ef ekkert stæði ákveðið um tölu ráðherranna í frumv., þá gæti svo farið, ef leyft væri að eins að fjölga þeim án þess að tiltaka hve margir þeir mættu vera, að allir þingmenn vorir kæmu sér saman um það að láta útnefna sig til ráðherra. Fengjum við þá 40 ráðherra og er það óneitanlega heldur mikið af því góða.

En ef nauðsynlegt er að fjölga núna ráðherrum upp í þrjá, þá getur ávalt komið fyrir, að þörf þyki að fjölga þeim upp í fjóra eða fleiri. En er nú svo brýn þörf á að fjölga þeim? Eg held að betur færi á því, frá hvaða hlið, sem málið er skoðað, að heimila að eins fjölgun þeirra, en ekki frekar.

Einnig er á það að líta, að ef ráðherrunum er fjölgað, þá verður óumflýjanlegt að stækka stjórnarráðshúsið eða að gera nýtt hús handa stjórnarráðinu. Hér er því ekki einungis um stofnun hálaunaðra embætta að ræða, heldur flýtur af því óhjákvæmilega, að leggja verðar í mikinn kostnað nú þeg­ar, til þess að auka stjórnarráðsskrifstofurnar. Þetta verður að takast með í reikninginn, þegar um fjölgun ráðherra er að ræða. Eg mun því reyna að koma fram með breytingartillögu við þessa grein frumvarpsins til þriðju umræðu.