29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg skal leyfa mér að minnast á breyt.till. á þgskj. 240. Eins og kunnugt er, hefir talsvert verið talað um, að við færum ekki sem hyggilegast að í fjármálum og að ýmisleg hrossakaup hafi átt sér stað. En það eru fleiri leiðir til að lagfæra þetta, en sú er breytingartillagan fer fram á. Það er kunnugt, að fram hefir komið frumv. um að stækka kjördæm­in til þess að fyrirbyggja flokkapólitík. Það getur verið, að sú stefna sé ekki ofan á, að þjóðin vilji ekki aðhyllast hana og að þess vegna sé eina leiðin sú, að takmarka tillögur um fjárveitingar. Eg hefi komið fram með tillögu, sem er rýmri en þessi breytingartillaga. Því að það er of takmarkað, að ráðherra einn skuli hafa vald til þess að koma fram með tillögur um fjárveitingar. Slíkt er hættulegt. Það er ekki rétt að fara eftir Bretum, sem eru miklu þroskaðri í stjórnmálum en vér. Það getur vel átt sér stað, að tillaga um fjárveitingu komi frá 6–7 þm. og þá ekki rétt að virða hana að vettugi, því að þm. verða að hafa tillögurétt um, hve mikið fé skuli veitt til ýmsra fyrirtækja í landinu. Ef stjórnin hefði ein tillögurétt um fjárveitingar er eg hræddur um, að þm. yrðu henni og ráðherra of háðir. Þm. mundu róa í stjórnina og fara fram á, að hún styddi þeirra málstað, og það gætu verið fleiri en fylgifiskar hennar, er gerðu slíkt; það er hætt við, að aðrir brytu odd af oflæti sínu og færu þess á leit við stjórnina að hún héldi fram þeirra málstað. Mundu þeir þá fara í hrossakaup við hana og gæti hún notað sér slíkt, því að stjórn­in hefir líka sín áhugamál. Háttvirtur frams.m. (J. Ó.) gaf sjálfum sér á munninn, þegar hann sagði, að sérhver þingmaður mundi róa í samþingismenn sína til þess að ná fylgi þeirra. Eins mundi fara með stjórnina.

Hér gæti líka farið svo, að flokksaginn réði og meiri hlutinn bæri minni hlutann ofurliði. En það er einnig aðgætandi, að þegar þetta eru orðin lög, munu menn vanda meir kosningu í fjárlaganefnd. Það mundi heldur ekki verða alment, að meiri hlutinn beitti minni hlutann rangindum í þessu efni. En það er máske ekki heppilegt að setja þetta ákvæði í stjórnarskrána nú, og eg vildi spyrja frsm. (J. Ó.), hvort hann vilji ekki taka þessa tillögu aftur og láta nú sitja við það, sem er. Eg skal játa, að fjárveitingar ganga nokkuð úr hófi eins og nú er og erfitt að hafa taum á fjárhagnum. Í því efni mundi breyt.till. mín vera til bóta. En eins og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) tók fram, þá mætti setja sérstök ákvæði um þetta seinna og þyrfti þá ekki stjórnarskrárbreytingu.

Eg ætla að fara örfáum orðum um breyt.till. háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), um rétt kvenna til kosninga. Eg felst á það, að konum séu veitt réttindi í þessu efni smátt og smátt og að því leyti finst mér tillaga þessi skynsamleg. Þegar konur fá réttindin smátt og smátt, þá öðlast þær, við að nota þessi réttindi, meiri þroska og kynna sér málin betur og verða þannig betur undir það búnar. En að sleppa þessum réttindum við þær strax og alt í einu yrði bylting í svip.

Þá er brtill. á þgskj. 330 frá 1. þm. S.-Múl. (J. J.) mikið góð, en mig langar til að spyrja hann, hvort hún sé framkvæmanleg; eg held að það sé erfitt að framkvæma hana.

Þá er breyt.till. frá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um þinghald á hverju ári. Hún er að vísu nokkuð athugaverð, en ekki þó svo, að það sé frágangssök; og það er margt, sem mælir með henni. Áhugi manna eykst á, stjórnmálum og eftirlitið verður betra með stjórninni og að því leyti er hún góð. En það ber líka að líta á það, að þinghald á hverju ári hefir mikinn aukinn kostnað í för með sér.

Mér finst ekki vera margt, sem mælir með því að skjóta lögum frá þinginu undir atkvæði kjósenda í landinu. Þjóðin er ekki svo þroskuð, að hún sé í fljótu bili fær um að leggja sanngjarnan dóm á lög frá þinginu.

Þá er ein breyt.till. um breyting á þingtímanum. Sá tillaga hefir verið feld áður hér í deildinni og eg mun halda mér við það, sem eg hefi gert áður í því máli, og vera einnig á móti henni nú. Fyrir þá, sem fást við búskap, er þinghald á þeim tíma mjög óþægilegt. Þeir eru þá ekki lausir við vorverk sín, kauptíð stendur þá yfir og stórbagalegt fyrir þá að fara frá búi sínu á þeim tíma. Og reynslan sýnir, að það var ekki vanþörf á að færa þingtímann til vetrarins. En ef það yrði ofan á, að þessi breyt.till. yrði samþykt, þá sé eg ekki, að neitt sé á móti því að hækka dagpeninga þingmanna. Eg sé heldur ekki, að þingmenn eigi að offra sér um skör fram í þarfir fósturjarðarinnar og menn þurfa fyrst að hugsa um að geta lifað, til þess að vinna henni gagn.