29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Thoroddsen:

Brtill. mínar eru flestar á þskj. 332. Þær hafa flestar borið á góma í nefndinni, en ekki náð fram að ganga þar.

Tillögur mínar miða að þrennu aðallega:

1. Efla og tryggja rétt þingsins.

2. Efla rétt þjóðarinnar.

3. Styðja persónufrelsi manna.

Að því er fyrsta atriðið snertir, lýtur þar að sú tillaga mín, að óheimilt sé að rjúfa þing fyr en eftir þann 8 vikna tíma, sem það hefir rétt til að vera saman. Það getur komið sér illa um fjárlög o. fl., ef hægt er að rjúfa þing fyr.

Að þessu lýtur einnig tillaga mín um það, að þing skuli haldið á hverju ári. Það eru mörg þing síðan farið var að hreyfa því, að þetta væri nauðsynlegt. Á milli þinga dofnar yfir þjóðinni og hún legst í pólitískt dá. Þjóðin mundi miklu fremur vera vakandi, ef þing væri haldið á hverju ári. Menn bera kostnaðinn fyrir sig. Eg játa það, að kostnaður verður meiri við árlegt þinghald heldur en nú. En menn verða að gæta þess, að ein gagnleg lög vega margfaldlega upp kostnaðinn við eitt þinghald. Eg skal t. d. benda á lögin um það að borga verkamönnum í peningum, í stað þess að áður höfðu þeir verið látnir taka kaup sitt út í vörum. Hafa menn gert sér í hugarlund, hvílíka þýðingu slík lög hafa fyrir þjóðina. Þá er og eftirlitið frá þjóðarinnar hálfu miklu meira með árlegu þinghaldi.

Í samræmi við þetta legg eg til, að þingmenn séu kosnir til 3 ára í senn. Það er eðlileg afleiðing af því, að þing sé haldið á hverju ári. Þjóðin fær þannig frekari afskifti en áður og drýgri ráð yfir þinginu. Í samræmi við þetta er tillagan um, að kosið sé til Ed. til 6 ára. En þótt eg geti felt mig við frumv. með því að kjósa til 6 ára í Ed., get ekki felt mig við, að Ed. sé kosin til 12 ára, jafnvel þótt ? gangi úr eftir 4 ár o. s. frv. Eg tek undir með hv. þm. Dal. (B. J.), að við eigum ekki að hafa neinn stjóra eða ok til að hindra oss frá því að koma af stað gagnlegum breytingum. Það er betra að hlaupa á sig, heldur en að láta ógert áhugamál sitt. Vér getum líka leitt oss fyrir sjónir reynslu annarra þjóða, þar sem barátta er út af líku fyrirkomulagi.

Þriðja atriðið er að sjá persónufrelsinu borgið. Til þess má telja 6. brt. á þgskj. 332, að menn, sem þegið hafa sveitarstyrk eða eru gjaldþrota, séu eigi útilokaðir frá kosningarrétti. Það gat verið ástæða til að hafa þetta ákvæði meðan kosningarnar voru opinberar, en síðan þær urðu leynilegar, er ekki minsta ástæða til að halda því. Það er ónáttúrlegt að hegna þeim mönnum, sem oft kringumstæðnanna vegna komast í þessi vandræði, án þess að þeir geti nokkuð að gert. Til þess að styðja persónufrelsið lýtur og sú tillaga mín, að enginn sé skyldur að greiða til annarrar guðsþjónustu en hann aðhyllist sjálfur. Frumv. fer fram á, að sá sem er í engu viðurkendu trúarfélagi skuli greiða til skóla jafnmikið og honum bæri að greiða til þjóðkirkjunnar, ef hann væri í henni. Þetta ákvæði þykir mér mjög ófrjálslegt. Það er ómótmælanlegt, að trúmál eru algerlega persónulegt mál. Þau koma engum manni við, nema sjálfum manni. Ef hann vill ekki vera í kirkju- eða trúarfélagi, á hann að hafa heimild til þess, og vera sinn eiginn prestur, ef hann vill. Ef menn fara að flykkjast úr þjóðkirkjunni, er löggjafarvaldsins að finna ráð til að koma kirkjunni svo fyrir, að ekki skerðist persónufrelsi manna.

8. brt. mín miðar einnig að því að vernda persónufrelsið. Hún er þess efnis, að engan megi setja í gæzluvarðhald fyrir sakir, sem varða fésektum eða fangelsi. Nú má setja menn í gæzluvarðhald fyrir sakir, sem fésektir eða einfalt fangelsi liggja við. Þetta ákvæði þykir mér of strangt. Það eru mjög fá brot í hegningarlögunum, sem fésektir liggja við. Gæzluvarðhald er mjög mikið brúkað til að knýja menn til játningar, oft fyrir litlar sakir. Menn verða að gæta að því, hvað gæzluvarðhald er. Það veldur mönnum bölvi og hugarangri og álitshnekki. Geta þeir einir gert sér það í hugarlund, sem reynt hafa. Mín tillaga fer fram á það, að gæzluvarðhald megi eigi brúka nema við brot, sem þyngri hegning liggur við en fangelsi. Þótt það sé mikils virði að knýja menn til játningar, þá er hitt þó meira virði að ganga ekki of nærri persónufrelsi manna. Þótt lög séu til um skaðabætur fyrir gæzluvarðhald að ósekju, eru þau lög mjög ófullkomin og ófullnægjandi.

Nú hefi eg rakið kjarnann í mínum brtill. Hinar aðrar brtill. mínar eru flestar orðabreytingar, sem standa í sambandi við hinar brtill.

Þó er. 9. brtill. á þgskj. 322 veruleg breyting. Í frumv. er gert ráð fyrir, að þing skuli rofið, þegar sambandslög eru samþykt. Þetta álít eg ekki alls kostar heppilegt ákvæði. Það getur gert þjóðina leiða á sambandslögunum, meðfram vegna kostnaðarins við aukaþingin. Það rákum vér oss á, er hin svokallaða Benediktska var á ferðinni. Eg vil að stjórnin hafi leitað hófanna um, hvort kostur sé á, að lögin nái staðfestingu, sé ella enga ástæðu til að hafa aukaþing.

Hinn hv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hefir komið með brtill., sem feld var í nefndinni, um það, að konur fái ekki kosningarrétt aðrar en þær, sem fertugar eru, þegar lögin öðlast gildi, og færist svo aldurstakmarkið niður á við um 1 ár á ári hverju, unz allar konur 25 ára og eldri hafa fengið kosningarrétt. Þessi tillaga ætti að falla hér í einu hljóði. Það eru nú 20–30 ár síðan fyrst var farið að hreyfa þessu máli, í mínu blaði og á Þingvallafundinum 1888. 1891 var borið upp frumv. um þetta á þingi. Síðan hafa komið fram áskoranir um þetta mál hvaðanæva, fyrst frá Ísafjarðarkaupstað. Raddirnar um þetta mál hafa æ orðið háværari, svo að líta verður svo á, að þetta sé alment áhugamál. Því getur enginn neitað, að þjóðmál varðar alla jafnt, karla og konur.

Eg vona því, að ekki sé neinn vafi á því í þessu máli, hvernig greiða beri atkvæði. Sama er að segja um till. h. 2. þm. Árn. (S. S.), sem fer ekki lengra en það, að veita megi konum atkvæðisrétt með einföldum lögum. Það er eng­in ástæða til þess, að fresta þessu máli, allir játa, að hér er kvenþjóðinni órett­ur ger í pólitískum skilningi, og þótt hið sama viðgangist annarsstaðar, þá er það ekki betra fyrir það. Það er því brýn skylda að bæta úr þessum órétti nú þegar, og það til fulls, eins og kon­ur eiga heimtingu á. Svo hefi eg ekki meira um mínar breyt.till. að segja.

Út af ræðu háttv. 2. Árn. (S. S.) skal eg geta þess, að eg álít það ákvæði í frumv., að ráðherrar skuli vera þrír, mjög til bóta. Það, að völdin séu hjá einum manni, getur oft leitt til mikils ills, auk þess sem stjórnin verður fjölhæfari, ef hún er skipuð fleiri mönnum. Hinn háttv. þm. leit á kostnaðinn, sem af þessu mundi leiða. Eg hygg að hann hafi ekki íhugað það mál nógu rækilega. Þótt einn af ráðherrunum yrði sem »repræsentant« landsins látinn halda þeim launum, sem nú eru, þá dettur víst engum í hug að fara að launa hina tvo nema með svo sem 5 þús. kr., eða svipað því, sem landritari hefir nú. Þá verður líka landritaraembættið úr sögunni, og það gæti líka komið til greina, að ráðherrarnir tækju að sér eitthvað af störfum skrifstofustjóranna. Að minsta kosti ættu þeir þá að verða ódýrari en nú.