30.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að leyfa mer að tala örfá orð viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og framsögum. meiri hl. (J. Ól.) hafa sagt.

Þessir háttv. þm. eru óánægðir með það, sem eg ásamt fleiri mönnum hefi borið fram um það, að gjaldþrotamenn og þeir, er sveitarstyrk þiggja, hafi kosningarrétt til alþingis. Þeir vilja svifta þessa menn réttindum fyrir það, að einhver atvik hafa orðið þess valdandi, að þeir hafa eigi jafnmikið fé í höndum og einhverjir aðrir kjósendur. Enda þótt eg ímyndi mér, að hinir háttv. þingmenn muni ekki vilja halda því fram, að þessir menn geti ekki haft jafnmikið vit á því að kjósa menn til alþingis eins og hinir, sem einhverra hluta vegna eru svo heppnir, að eiga nokkrum krónum meira. Og þegar litið er til hins, hversu sárafáir þessir menn eru af öllum kjósendum landsins, þá verður það nærri hlægilegt að vilja svifta þá þessum rétti, því það munar ekki þeim ósköpum.

Viðvíkjandi því, sem háttv. framsm. (J. Ól.) sagði um það, að ekki væri vert að auka svo stórkostlega kosningamark­aðinn hér á landi, það væri nóg verzl­að samt, skal þetta sagt. Jafnvel þó að eg álíti það sitji á öðrum betur en hinum háttv. þingmanni að tala um kaupskap í þessu efni, þá er eg hinsvegar honum alveg samdóma um það, að það er nú þegar nóg verzlað á kosningamarkaðinum, því altaf er þar eitthvað af þeim, sem má kaupa, en þá vildi eg að eins segja til hins háttv. þingmanns:

„Skjót þú geiri þínum þangað

sem þörfin meiri fyrir er“

og mín sannfæring er það, að slík verzl­un muni minka, ef konum verður veitt­ur almennur kosningarréttur.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) talaði mikið um pilsalista, er fram mundi koma við nýjar kosningar, ef konur fengju kosn­ingarrétt. Það er mér enginn þyrnir í augum; en því talaði hinn háttv. þm. þá ekki um brókalista, því það veit hann þó vel, að búningurinn einn gerir ekki mun á því, hverjir muni kjósa bezt og viturlegast, og þótt hann taki til dæmis bæjarstjórnarkosninguna hérna í bænum, þá veit hann fullvel, að mikill munur er á alþingiskosningu og bæjarstjórnarkosningu, og þótt svo færi, að einhverjar konur yrðu kosnar á þing, þá yrði eg ekki neitt hræddur við það, þótt eg sæi konur hér í þingsalnum, því þær eru eflaust eins staðfastar, vitr­ar og kurteisar eins og við.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) var ærið þungorður í minn garð út af kvenfólkinu, og sagði, að eg hefði ekki komið með annað en tómar fullyrðingar, engin rök fært fyrir mínu máli. Að eg ekki kom með rök fyrir mínu máli, stafar af því, að eg hélt, að eg þyrfti þess ekki; þar sem hér er um skýlausan rétt kven­fólksins að ræða, þótt við ekki höf­um viðurkent hann fyr en nú, þótt þær að sjálfsögðu hefðu átt að vera búnar að fá hann viðurkendan fyrir löngu. Og svo kemur hinn háttv. þm. fram með þá tillögu, að þær einar konur skuli öðlast þennan rétt, sem séu orðnar 40 ára eða eldri. Eg get ekki séð af hverju hinn háttv. þm. velur einmitt þessa tölu, því það hlýtur alveg að vera af handahófi gert. Því byrjaði hann þá ekki eins vel á neðri endanum, t. d. 21 árs aldrinum, ellegar þá í miðjunni á 30–35 ára aldrinum, fyrir því hefir hann engin rök fært, því þetta er alveg af handahófi og út í loftið hjá þingm.

Þá lýsti þm. allri sinni furðu yfir því, að eg sagði, að nálega enginn munur væri á mentun karla og kvenna í sveitum, né á þroska þeirra í almennum málum. Þetta hélt eg, að þm. mundi vera kunnugt, þar sem að hann hefir dvalið lengi í sveit; hins vegar skal eg játa það, að töluverður munur er á karlmönnum og kvenmönnum í þessu tilliti í bæjunum og það einkum hér í Reykjavík. Þetta veit eg, að allir vita eins vel eins og eg og kannske mikið betur. Þá hélt hann því fram, að það mundi vera mikið óráð að fjölga svo mikið kjósendum í einu, og hann heimfærði sögudæmi fyrir því, hvernig þetta muni gefast, og skal eg þá benda hon­um á, að meiri munur hefir það verið, þegar að einvaldarnir settu á stofn löggjafarþing og gáfu mönnum kosningarrétt, því að þar var áður enginn sem kosningarrétt hafði, þ. e. sama sem núll, en óx alt í einu upp í mörg þúsund eftir því hvað fjölment var í hverju landi.

Þá sagði sami háttv. þm. að eg hefði brugðið sér um hugleysi, en það er ekki rétt, heldur var eg að áminna mig og aðra um það að vera ekki með mjög mikinn kynferðishroka; en það sem eg sagði átti als ekki að vera brigsl til neins sérstaks manns. En það vil eg minna hinn háttv. þm. á, að hann skorti ekki hugrekki til þess að samþykkja sambandslagafrumvarpið sæla, smátt happaverk, þótt hann nú virðist skorta hugrekki til þess að gefa þeim helmingnum réttindi, sem áður hefir verið órétti beittur, nema að hálfu leyti, þann­ig að hann vill taka aftur með annari hendinni, það sem hann gefur með hinni. Ef að hans tillaga verður samþykt, þá er eg viss um, að fólki finst mikið til um þann dýrmæta grip, og það mun sannarlega ekki leyna sér hverjir ávextirnir verða. Þá talaði hann um ábyrgð, sem karlmennirnir þyrftu að hafa við kosningar, og að kvenfólkið væri svo illa undirbúið að það gæti ekki tekið þátt í þeim; þá vil eg skjóta því að hin­um háttv. þm. að hann hefir komið með tillögu um að hafa kosningapróf, sem þá að sjálfsögðu nær einnig til kvenmann­anna og háttvirtur þm. ætlar sér líklega að vera prófari og prófdómari við þau próf. Þá mintist háttv. þm. á, að kvenfólkið hefði ekki tíma til að taka þátt í stjórnmálum, eða pólitík eins og sum­ir menn kalla, en eg held, að þeim tíma sé ekki ver varið en hjá karlmönnun­um, og þó að þingmaðurinn talaði um, að kvenfólkið hingað til hafi mest gengt húsmóður- og uppeldisstörfum, þá vil eg halda því fram, að þær muni alveg eins halda því áfram að vera mæður og hugsa um menn sína og heimili, þótt þær fái réttindi sín, nema hvað þær muni vera mikið færari um það að veita börnum sínum gott uppeldi, ef þær sjálfar hafa tekið þátt í almennum málum, með fullu jafnrétti við karlmenn. Hinsvegar skal eg játa það rétt hjá hinum h. þm., að það er fyllilega eins veglegt starf að annast um barnauppeldi og húsmóðurstörf eins og að standa hér á þingi og halda misjafnlega góðar ræður, og hann heldur því fram ennfremur, að þær væru of góðar til þess að kasta þeim inn í hið pólitíska skítkast, en þm. gætir ekki að því, að það eru einmitt þær sjálfar, sem vilja takast þetta á hendur, og trúa mín er sú, að hið pólitíska skítkast muni þverra, þegar þessi kurteis­ari helmingur mannanna tekur þátt í stjórnmálastörfum ásamt karlmönnum, því það verður til þess, að karlmennirn­ir munu temja sér meiri kurteisi bæði í orði og í verki.

Þá benti hinn háttv. þm. á það, að margir af vitrustu mönnum heimsins væru á móti kvenfrelsi, en eg vil þá geta hins, að eg get bent á alt eins marga vitra menn, sem eru á gagnstæðri skoðun.

Eg sé nú að háttv. deildarmenn eru farnir að ókyrrast, og þykir víst eg hafa talað all-langt mál, en þó vil eg áður en eg sezt niður benda 1. þm. S.-Múl. (J. J.) á það, sem hann talaði um, að ekki mundi vera hægt að stemma stigu fyrir þessum kvennfrelsistraum, sem nú væri uppi, og væri þá heppilegra að veita þeim straum í beinan og góðan farveg, heldur en að stríða á móti honum, því að það mundi leiða til þess, að við mundum hér verða fyrir sömu búsyfjum frá kvenfólksins hálfu eins og nú eiga við að búa margar erlendar þjóðir, einkum Englendingar. En hann ætlar að leiða strauminn rangt. Því að ef við ætlum að mjatla þessum réttindum í kvenfólkið í 12–15 ár, þá er það óhjákvæmilegt, að slíkt hlýtur að vekja óánægju kvenþjóðarinnar og því koma fram það, sem þm. vill forðast. Eg er ekki hræddur við, að þjóðarskútan muni kollsigla sig, svo sem þeir kveða að orði þm. S.-Múl., þó að við ekki höfum þessa seglfestu. Seglfestan er nóg samt, þar sem er vanastagl og elliþvagl kulnaðra sálna.