29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg hefi leyft mér að biðja um orðið til þess að gera nokkrar athugasemdir um þetta mikilsverða mál. Skal eg taka það fram, að eg er einn af þeim, sem óska, að hóflegar og nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni verði samþyktar á þessu þingi. Eg er þeirrar skoðunar, að eg standi ekki einn uppi með þessa ósk, því að þjóðin hefir á þingmálafundum víðsvegar út um land, látið þá ósk í ljósi, að ýmsar breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni á þessu þingi, og eg veit, að ýmsir háttv. þm. af báðum flokkum æskja þess einnig. Þetta er vissulega alvara háttv. þm. og alvara mín, og þetta hygg eg vera alvörumál fyrir báðum flokkum á þinginu. En sé það svo, þá má ekki gera stjórnarskrárfrumvarp­ið svo úr garði, að mjög verði tvísýnt, að það öðlist staðfestingu konungs, og það má ekki heldur taka nein þau kvæði upp í frumv., er fyrirsjáanlegt er, að muni valda því, að það nái ekki fram að ganga á þinginu. Þessar breytingar ættu helzt að vera fáar, og þær einar, sem eru bráðnauðsynlegar, og þegar hafa verið ræddar svo, að von er um, að samkomulag geti orðið um þær. Eg tel ekki rétt að setja nein þau nýmæli inn í stjórnarskrárfrumvarpið, sem koma flatt upp á þjóðina, eru lítið rædd og sem hætt er við að gæti hamlað því, að frumvarpið verði staðfest. Veruleg deilumál og órædd nýmæli ættu ekki að koma til greina við þessa stjórnarskrárbreytingartilraun.

Eg skal í sambandi við þetta minnast á tvö ákvæði á þskj. 287. Annað ákvæðið er það, að í 1. gr. er ætlast til,

að tekin sé upp upptalning á sermálum vorum. Þessi upptalning var ekki tek­in upp í stjórnarskrárbreytinguna frá 1903, og var það gert af ásettu ráði. Þetta er viðkvæmt mál. Hygg eg, að vér ættum að láta það liggja milli hluta að sinni. Upptalningin á sérmálunum virðist mér tekin upp úr hinum svonefndu stöðulögum frá 2. jan. 1871. Er það þá meiningin, að þetta eigi að vera sýnilegt tákn um, að lög þessi gildi hér á landi? Mér virðist vera hægt að komast hjá þessu með því að sleppa upptalningunni úr frumvarpinu, eða hvað vinnum vér með því að setja hana þar? Eg sé ekki, að vér vinnum neitt við það, eða færum sérmálasviðið minstu ögn út með því. Og ef svo er, ráðlegg eg háttv. deild til að sleppa þessu. Eg hygg, að sérhver háttv. þm., sem vill að stjórnarskrárbreyting verði gerð, eigi að stuðla að því, að þessu verði slept.

Hitt ákvæðið er í 3. gr. og hljóðar svo: »Engan má skipa embættismann á Íslandi annan en Íslending, nema hann hafi fæðingjarétt eftir þeim lögum, er alþingi hefir sett og samþykt«. En fæðingjarétturinn, réttur innborinna manna, hefir verið talinn sameiginlegt málefni. Það er enginn vafi á því, að Danir telja hann það og íslenzk löggjöf gerir það einnig. Þess vegna er ekki ráðlegt að taka þetta ákvæði upp í stjórnarskrána, þar sem það að sjálfsögðu verður deilumál við Dani. Þarf í því efni ekki að minna á annað en sambandslagafrumvarpið frá 1908. Eg vildi leiða athygli þeirra háttv. þm., sem vilja stjórnarskrárbreytingu, að þessu, og vona eg, að þeir greiði atkvæði móti þessu ákvæði um fæðingjaréttinn.

Eins og eg tók fram, álít eg varhugavert að taka nýmæli upp í stjórnarskrárfrumvarpið, sem eru lítið rædd og þjóðinni hefir ekki gefist kostur á að láta uppi vilja sinn og álit um. Sem dæmi slíkra nýmæla vil eg nefna tillöguna um alþýðu- eða þjóðaratkvæði. Það getur verið, að það sé gott og komi til að reynast vel. En eg vil þó benda á, að það er alveg nýtt og óreynt og óþekt hjá oss. Hér á að stökkva alveg út í myrkrið. Þjóðaratkvæði á sér einungis stað í Sviss svo mér sé kunnugt, en styðst þar við ævagamla venju og sögulegan uppruna. — Hinsvegar er Ísland og Sviss mjög ólík að öðru en því, að í báðum þessum löndum er gnægð af fjöllum og jöklum. Að öðru leyti er Sviss miklu auðugra og frjósamara land en Ísland og margfalt fjölbygðara, enda mjög þéttbýlt og stað­hættir eru mjög ólíkir hér og þar. Það er þess vegna mjög óvíst, að það, sem gefst vel þar, gefist vel hér. Og þó vitum vér hér úti ekkert um, hvort þetta svokallaða þjóðaratkvæði (referendum) hefir gefist vel í Sviss.

Þá vildi eg minnast á, kosningarréttinn, og skal eg geta þess, að mér virðist heldur langt farið með útfærslu hans, þar sem farið er fram á, að hann verði færður svo út, að kjósendum verður fjölgað um meira en helming, kjósendafjöldinn meira en tvöfaldaður alt í einu. Þetta verður naumast nefnt breyting, heldur er það öllu fremur bylting, Revolution. Eg álít vafasamt, að þetta sé hyggilegt, eða öllu heldur, eg tel þetta harla ógætilegt, og álít betra að fjölga kjósendum smátt og smátt. Eg vildi leiða athygli háttv. deildar að þessu. Og þótt eg geti tæplega fallist á tillögu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) í þessu atriði, skal eg hins vegar játa, að það liggur rétt hugsun bak við hana.

Það var mikið talað hér í gær um það, að eigi væri rett að láta sveitarlimi og gjaldþrota menn missa kosningarrétt sinn. En hér er í raun og veru um engan réttarmissi að ræða, heldur að eins um það, að kosningarrétturinn skuli vera bundinn vissum skilyrðum. Sem betur fer, er fjöldinn ekki sveitarlimir eða gjaldþrota menn. Ef þessir menn, sem nú hafa eigi kosningarrétt, ættu að fá hann, væri það þá ekki að rýra og draga úr kosningarrétti hinna, sem nú hafa hann? Þó að þetta ákvæði verði ekki samþykt, þá er enginn réttur tekinn af sveitarlimum og gjaldþrota mönnum, því að þeir hafa nú ekki kosningarrétt. En verði það samþykt, verður mjög rýrður réttur núverandi kjósenda. Eg hefi ætíð verið því mótfallinn að menn, sem ekki eru sjálfstæð­ir, fengju kosningarrétt til alþingis eða í sveitarmálum.

Eg skal þá loks leyfa mér að benda á þau ákvæði í stjórnarskrárfrumv., sem eg álít, að fram eigi að ganga, og legg mesta áherzlu á. Fyrsta atriðið er fjölgun ráðherra. Eg tel það rétt og að mörgu leyti heppilegt, að þeir séu þrír. Styrkur stjórnarinnar mundi aukast við það og það mun verða síður hætt við einræði og gönuhlaupum einstaks manns. Eg skal ekki fjölyrða neitt um þetta, því reynslan hefir sýnt það nægilega, að þessi fjölgun er rétt og nauðsynleg. Hún mundi tryggja betur en er réttláta stjórnarframkvæmd, og svo má minna á það, að venjulega sjá betur augu en auga.

Annað atriðið er, að þing verði hald­ið á hverju ári. Eg held, að þetta mundi vera svo mikil bót, að það mundi vega upp á móti þeim kostnaði, er það hefir í för með sér. Þegar þingm. fara burtu af þingi, leggja þeir venjulega stjórnmálin á hylluna og kjósendur leggjast þá í dá, nema að eitthvað æsingarmál sé á ferðinni. Þetta mundi breytast ef þing yrði háð á ári hverju; þjóðin mundi þá haldast miklu betur vakandi og síður láta leiðast af ofstopafullum æsingum.

Þriðja atriðið er afnám konungkjörnu þingmannanna. Það er almenn ósk og sýnist vera fullkomlega réttmæt, er ekkert verði á móti haft.

Fjórða atriðið er gætileg og hófleg útfærsla á kosningarréttinum. Þessi atriði, er hér eru talin, ættu að komast inn í stjórnarskrárfrumvarpið; þeirra mun vera alment óskað; fleiri atriðum í stjórnarskránni ætti ekki að breyta að sinni. Hygg eg það muni vera affarasælast. Ef á að fara að breyta fleiri atriðum, má búast við, að skoðanirnar verði svo skiftar, að málið verði ekki útrætt á þessu þingi og að frumvarpið fari alt í mola. Auk þess væri það hættulegt að setja nokkur þau ákvæði í stjórnarskrárfrumv., sem ekki væri líkindi til, að næsta þing mundi samþykkja eða sem ráðherra eigi gæti bor­ið upp fyrir konungi til staðfestingar.

Þá hefi eg tekið fram atriði þau, er eg hefi talið máli skifta og helzt vildi minnast á, og vona eg, að háttv. deild taki bendingum mínum vel, og að hún jafnframt láti sér ant um alt málið í heild sinni.

Eg get ekki stilt mig um að minnast á eitt atriði enn. Það er tillagan um, að dómarar skuli ekki hafa kjörgengi. Þessi tillaga hefir sína sögu. Hún er komin upp á skrifstofu sjálfstæðismanna hér, skírð í Hafnarfirði og eitthvað dubbað upp á hana á Lágafelli hér í nágrenninu. Hún ætti víst heldur að hljóða svo: »Kristján Jónsson er ekki kjörgengur«. Ástæðan fyrir því, að dómarar skuli ekki hafa kjörgengi, getur ekki verið sú, að þeir séu miður hæfir vitsmuna vegna til þess en aðrir menn. Dómarar hafa setið á þingi síðan 1845 og sýnir það bezt, að þjóðin hefir borið og ber traust til þeirra. Eg get ekki fundið neina ástæðu fyrir til­lögunni aðra en þá, að tillögumenn vildu meina mér að sitja á þingi, því að upprunalega var hún stíluð gegn yfirdómurum einum, en um all-langt skeið hef­ir enginn úr yfirdóminum setið á þingi nema eg. Tillagan fæddist einnig eftir að margt hafði verið deilt um bankamálið, og það fór að horfa svo við, að eg mundi sigra í því máli. Það getur þó víst enginn bannað dómurum að hafa pólitískar skoðanir, lesa pólitísk blöð eða að vera í pólitískum flokkum. Eg sé því ekki neina ástæðu til að banna þeim að sitja á þingi, þegar ekki er hægt að banna þeim að taka þátt í hinu pólitíska lífi yfirleitt. Þetta er ekkert annað en hégómi, því að dómarar geta alveg eins tekið þátt í pólitík og verið ramm-pólitískir, þótt þeir sitji eigi á þingi. Dómarasjálfstæði þeirra er engin frekari hætta búin við að sitja á þingi. Ef ætti að fara að skera úr um það, hvaða embættismenn það eru, sem sízt ættu að sitja á þingi, þá hygg eg að engum geti blandast hugur um, að það eru prestarnir. Sakir hins háleita hlutverks, er á þeim hvílir, þar sem þeir eiga að kenna almenningi að elska frið, sátt og samlyndi og fylgja Krists guðdómlegu kenningu í hvívetna, þá hygg eg ekki, að það sé holt fyrir þá og embætti þeirra, að þeir sitji hér á þingi innan um alt rifrildið, flokkadrættina, hrossakaupin misjöfnu og prettina, og taki sjálfir þátt í öllu þessu, sem vissulega eigi er til þess að lyfta hugum þeirra og hjörtum upp til þeirra heimkynna, er þeir tala mest um á prédikunarstólnum.

Þá má og nefna starfsmenn Búnaðarfél. Íslands, er eigi ættu fremur að sitja á þingi en dómarar. Eg segi þetta af því, að eg sé hér till. í þessa átt, um að útiloka dómara frá þingsetu, frá háttv. vini mínum, 2. þm. Árn. (S. S.). Hann ætti að stinga hendinni í sinn eiginn barm og spyrja sjálfan sig, hvort það mundi eigi eins sennilegt, að ráðunautar þess félags hefðu gott af því, að vera utan þings, eins og dómarar, eða hvort þingið eigi gæti alveg eins vel mist ráðunautana sér að skaðlausu, eins og dómarana. (Sig. Sigurðason: Hér er ólíku saman að jafna).

Hvað sem þessu líður, vil eg að háttv. deild skiljist það, að það sem eg hefi sagt nú, það hefi eg sagt af einlægri umhyggju fyrir því, að þetta mál fái framgang á þessu þingi. Hér er um að ræða mjög nauðsynar breytingar á stjórnarskráratriðum, sem eg hefi áður talið, og sem eigi má tefla í hættu með öðrum brtill., sem eru óræddar, eða þá deilumál, og því tvísýnt um framgang þeirra, enda sumar hverjar mjög athugaverðar. Því vil eg óska þess, eins og eg þegar hefi áður sagt, að þetta þing skilji eigi svo, að ekki verði samþyktar þær umbætur á stjórnarskránni, sem helzt af öllu er þörf á.