29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Benedikt Sveinsson:

Eg ætla fyrst að fara fáum orðum um breyt.till. þm. Dal. (B. J.) og 1. þm. Rvk. (J. Þ.).

Eins og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) tók fram, þá hafa komið áskoranir frá mörg­um þingmálafundum um það að nema burt úr stjórnarskránni tilvitnanir í stöðulögin, meðal annars frá þingmálafundum Reykvíkinga og af flestum eða öllum fund­um, sem haldnir voru í mínu kjördæmi.

Nefndin hefir ekki orðið sammála um, hvernig bezt verði stýrt hjá þessu skeri. Eg sé ekki, að betur verði komist fram hjá því á annan veg, en gert er í þess­ari breytingartillögu.

Og það finst mér mesta fjarstæða, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) bar fram, að með þessu sé verið að samþykkja stöðulögin. Það getur ekki með nokkru móti verið samþykt á stöðulögunum, þótt tekin sé upp í stjórnarskrána samskon­ar atriði, sem í stöðulögunum standa um upptalning þeirra málefna, sem stjórn­arskráin nær yfir. Íslenzkt löggjafar­vald hefir ekki bundið hendur sínar með því að telja upp þessi málefni, því að það er ávalt á þess valdi, að breyta þeim ákvæðum síðar og færa sundur kvíarnar, eftir því sem þinginu býður við að horfa.

Þá fer frumv. fram á mjög mikla rýmkun kosningarréttarins og gerir ráð fyrir, að kosið sé til hvorrar deildar fyr­ir sig. Það er einkum ákvæðið um hlutfallskosninguna til efri deildar og hið langa kjörtímabil, sem eg á bágt með að fella mig við. Efri deild mundi verða mjög þunglamaleg og hætt við, að samvinna deildanna yrði oft og tíðum mjög stirð með slíku fyrirkomulagi. Eg fyrir mitt leyti mundi fella mig betur við, að kosningarétturinn væri eitthvað takmarkaðri en skipun deildanna væri hin sama sem nú er, að öðru leyti en því, er kemur til hinna konungkjörnu, þann­ig að allir þingmenn efri deildar væru kosnir af sameinuðu þingi. Hvað rýmkun kosningarréttarins viðvíkur, þá hef eg um það mál svipaðar skoðanir sem 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og 2. þm. Árn. (S. S ) og mun greiða atkv. með tillögu hins síðarnefnda. Það er mjög athugavert, að við þá skipun þingsins, sem nefndin vill vera láta, raskast kjördæmaskifting landsins mjög mikið við það að héraðakjörnir þingmenn fækka og því munu margir landsmenn kunna afarilla. Fer það einnig í öfuga átt við óskir Reykvíkinga um fjölgun þinamanna fyrir sitt kjördæmi, en við þeim óskum mætti verða nú, með þeim hætti að láta þetta kjördæmi og önnur hin fólksflestu kjósa þingmenn í stað hinna konungkjörnu, en kjördæmaskipunin héldist óbreytt að öðru leyti.

Þá hefir 1. þm. Skag. (Ó. Br.) komið fram með tillögu um »referendum«. Á því nýmæli eru ýmsir annmarkar. Það mundi gefa harðsnúnum minni hluta efni til þess að æsa upp kjósendur og mundi hafa í för með sér mikið þras og þjark. Það mundi líka lama gerðir þingsins, þegar þingmenn vissu, að þjóðin gæti eftir á skorið niður lögin. Þeir mundu heldur ekki vanda eins mikið starf sitt, þegar þeir ættu það á hættu, að það yrði ónýtt og að engu gert strax á eftir.

Þá er það eitt af nýmælum frumv. þessa, að ekki megi aðrir en ráðherrar bera fram breytingartillögur við fjár­lagafrumvörp, er miði til aukinna útgjalda. 1. þm. Eyf. (H. H.) áleit ákvæð­ið hættulegt fyrir ráðherra, Eg held þvert á móti, að það yrði örugt vopn í hendi hans gagnvart þingmönnum og að honum væri með því fengið alt of mik­ið vald í hendur. Um þetta hafa eng­ar óskir komið frá neinum kjósendum í landinu og mundi mælast illa fyrir, ef fram gengi. — Þótt þessi venja sé á Englandi, er mjög ólíku saman að jafna hér og þar. Þar er stjórnin skipuð fjölda manna, helztu forvígismönnum ráðandi flokks, og má nærri geta, að þeir séu færari að búa frumvarp viðunanlega úr garði, heldur en að eins einn maður. — Ennfremur getur þessi aðferð verið nauðsynleg, þar sem þingin eru mjög fjölmenn, því að ella gæti breytingatillagnafjöldinn orðið nær ómeðfærilegur.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) ber fram tillögu um, að dómarar megi ekki eiga sæti á alþingi. Mér virðist að það sé ekki heppilegt, að dómarar sitji á þingi. Með því komast þeir í deilur við menn. Það væri og heppilegra, að þeir sætu ekki í bæjarstjórn, því að með því taka þeir afstöðu til ýmissa mála, sem síðar geta komið undir þeirra dóm.

Í jafn fámennu þjóðfélagi er það nauðsynlegt, að dómararnir haldi sér sem allra mest frá flokkadeilum og æsingum, sem því eru samfara, því að þótt ekki sé haldið fram, að slíkt hafi áhrif á dómarastörf þeirra, þannig að þeir halli réttu máli vísvitandi, þá verð­ur hinu ekki neitað, að þeir eru eins og aðrir menn, sem líta ósjálfrátt nokk­uð öðruvísi á málstað vina sinna en óvina. Teldi eg það mikla og nauðsyn­lega réttarbót, að girt væri fyrir að dómarar væri í sífeldum útistöðum á þingi og í bæjarstjórnum, eins og altof oft hefir átt sér stað.