09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Kristinn Daníelsson:

Eg vil minnast fám orðum á brtill. á þskj. 959. Hún var fyrst borin fram í Nd. af hv. þm. Barðstrendinga, en var feld burt í Ed. Nú hefi eg gerst meðflutningsmaður að henni. Mér er það vel kunnugt, að Vestfirðingum hefir verið það áhugamál í mjög langan tíma, mér er óhætt að segja 20 ár, að fá bygða vita á Öndverðarnesi og Bjargtöngum, og er það ofur skiljanlegt, þar sem sjómenska er allmikil fyrir öllu Vesturlandi. Það var í móti þessu máli mælt áðan, að óráðið væri, hvar vitinn ætti að standa. Eg get ekki ætlað að það geti orðið neinum annmörkum bundið að ráða fram úr því; það hefir verið gert ráð fyrir að verkfræðingur landsins veldi staðinn. Ef hér hefði legið fyrir till. um að byggja vita á Öndverðarnesi, þá mundi eg hafa verið henni fylgjandi, en úr því svo er ekki, þá vil eg leggja með þessari tillögu. Og eg vona að alþingi láti ekki undir höfuð leggjast að veita fé til vitans; þess gerist sannarlega þörf, því að sjóleiðin fram hjá vitastæðinu er mjög hættuleg. Auðvitað met eg mikils, hvað útlendir skipstjórar segja, en þó verð eg að leggja meir upp úr umsögn innlendra sjómanna um þetta efni; útlendir skipstjórar eru hér á ferð á sumrin og hafa því minna af hættunum að segja, en fiskiskúturnar geta ekki eins valið sér tímann. Það var sagt áðan, að búið væri að margfella þessa br.till, en það er ekki satt; hún var samþykt með allmiklum atkvæðamun í Nd. Eg skal ekki fara fleiri orðum um br.till., en mæli sem bezt með henni; það er mjög mikilsvarðandi fyrir íslenzka sjómenn að þetta ljós komist upp. — Úr því eg stóð upp, vil eg minnast lítið eitt á br.till. á þskj. 958, um endurgreiðslu á símalagningakostnaði til Vestur-Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu. Það hefir verið gerð grein fyrir þessari br.till. í báðum deildum og þar sem hún var samþykt í Nd. með allmiklum atkvæðamun, en feld í Ed. með litlum mun, þá leyfi eg mér að vona að niðurstaðan í hv. sameinuðu alþingi verði sú, að hún verði samþykt.