29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Háttv. þm. Vestm. (J. M.) og hæstv. ráðherra (Kr. J.) hafa bent á, að tillaga háttv. þm. Dal. (B. J.) á þskj. 237 sé mjög hættu­leg, því hún sé staðfesting á stöðulögunum. Eg á bágt með að skilja, að það skuli vera landvarnarmenn, sem vilja fá staðfestingu á stöðulögunum. Eg er hræddur um, að það megi nota það sem vopn á þá menn, að þeir vilja staðfesta ákvæði þeirra laga um það, hver væru sérmál Íslands. Eg ætla ekki að þessu sinni að minnast á mörg atriði. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að það væri ekki rétt, að fé það, sem utanþjóðkirkjumenn eiga að borga til kenslumála, sé sektafé. Eg skil ekki, hvernig ókirkjublindum mönnum getur dulist það, að það er sektafé og ekkert annað. Svo er ranglætið svo ankannalegt í framkvæmdinni. Kaþólskir menn og adventistar hér þurfa enga sekt að gjalda, ekkert aukagjald til barnafræðslu, af því að þeir eru þó svo margir, að þeir geta haft presta. Hvers vegna á þá, fremur að leggja aukaskatt á þá trúarflokka, sem eru svo fámennir, að þeir geta ekki myndað söfnuð? T. d. únítara. Vér únítarar erum sektaðir fyrir það að vera ekki svo fjölmennir að geta haft prest, og sú sekt á að renna til barnafræðslu. En til hennar borgum vér auk þess jafnt og allir aðrir lands­menn. Ef þetta er ekki brot á trúfrelsi, þá veit eg ekki hvað það er.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) mintist á þekkingarskilyrði fyrir kjósendur. Kunni hann ekki við, að það stæði í stjórnarskránni, en vildi hafa það í sérstökum lögum, svo sem barnaskólalögum. En hann verður að gæta þess, að ekki verða með almennum lögum sett skilyrði fyrir kosningarrétti, nema það sé gert í stjórnarskránni, eða heimilað í henni.

Sumir setja fyrir sig, að það muni verða vandhæfi á, að menn geti lært það sem áskilið yrði sem þekkingarskil­yrði fyrir kosningarrétti. Eg tel sjálfsagt, að það yrði lítið lærdómskver, sem fræddi menn um, hvernig stjórn lands­ins er fyrir komið, segjum eitthvað í líking við kverið eftir Jón A. Hjaltalín: »Hvernig er oss stjórnað?« — kver á stærð við barnalærdómsbókina í kristindómi. Til að hafa atkvæðisrétt í safnaðarmálum hafa menn þurft að nema þetta lærdómskver, sem er inntak trúfræði og siðfræði. Það eru þó fult svo djúpsett og torskilin viðfangsefni, eins og ámóta langt ágrip um skipulag landstjórnar (alþing, sýslunefndir, hrepps­nefndir o. s. frv.). Sá sem getur numið kristileg fræði, hann á sannarlega enn auðveldlegar að geta lært þegnleg fræði. Sá sem ekki getur numið það, hann hefir varla meðal-kýrvit, og hefir ekki stórum meiri skilyrði fyrir að eiga kosningarrétt heldur en kýr eða kálfur.

Sumir segja, að það eigi að gera kost á að nema þetta í hverjum barnaskóla. En fyrst eru ekki alstaðar barnaskólar, og svo er hverjum í sjálfsvald sett, hvort hann vill nota þessa fræðslu eða ekki. Vinur minn, háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) ber kvíðboga fyrir 12 ára setu þing­manna í efri deild. Þykir honum það alt of langur tími. Nú geta kjósendur séð svo um, að þeir menn, sem þeir kjósa, séu ekki á þeim aldri, að þeir verði örvasa gamalmenni á kjörtímabil­inu og verði þeir forfallaðir sakir sjúkdóms, þá eru varaþingmenn. Að stytta kjörtímann, er að kippa fótunum undan festu þeirri, sem efri deild á að veita. Þeir sem og vilja að þingrof nái einnig til efri deildar, virðast ekki hafa gert neina grein fyrir, hvers leitað er með því skipulagi hennar, sem hér er farið fram á. Frumv. heldur þar fast ljósri stefnu, sem allri verður kollvarpað með slíkri breyting. Ýmsir hafa og talað um árleg þing, þar á meðal hæstvirtur ráðherra (Kr. J.), en þegar litið er á, að fjárhagurinn er eins þröngur og hann er, þá finst mér það nægilegt að hafa ákvæði um, að það megi breyta því með lögum. Enda ætti að vera minni háski á, þótt ekki sé árleg þing, er ráðherrar verða þrír.

Þá er að minnast á málskot til almennings. Eg talaði um það í gær og mintist á það helzta um reynslu annara landa í því efni, en í gærkveldi barst mér í hendur grein eftir norskan mann, Erik Givskov. Hann getur þess þar, að í fylkinu Victoria í Ástralíu sé málskot til almennings í lögum, og að þar hafi fyrir skömmu verið lagðar fyrir kjósend­ur 3 spurningar. Hin fyrsta var: Vilja kjósendur trúarbragðakenslu í skólum eða ekki? 18000 kjósendur svöruðu með já, 17000 með nei. Önnur spurningin var þessu máli óviðkomandi. Hin þriðja var: Vilja kjósendur halda banninu gegn trúarbragðakenslu í skólum? 23000 sögðu já, 15000 nei. Svona fer almenn­ingur að greiða atkvæði. Ef svona fer um jafn einfalda spurningu sem þessa, hversu mun þá fara um stóra, flókna lagabálka?

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) talaði móti því, að ráðherra einn hefði frumkvæði í fjármálum. Áleit hann, að »agitationirnar« og hrossakaupin mundu einungis færast af göngunum og inn í flokksherbergin. Eg get skilið það, að ábyrgð sú, er með því mundi færast yfir á ráðherrann, mundi ekki þægileg fyrir þá, sem ætla sér að verða ráðherrar.

Ýmsir þingmenn, en þó einkum háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), hafa haldið því fram, að með þessu mundi of mikið vald koma í hendur ráðherra. Það er ekki úr lausu lofti gripið, að hann mundi með því fá meiri ráð; en eg vona að þjóðin þroskist fljótt svo, að hún gefi ráðherravaldið þeim í hendur, sem skoða sig ráðherra þjóðarinnar, en ekki ráðherra eins flokks, eins og nú hefir ver­ið síðustu 2 ár hér. Held eg því að þetta ákvæði verði til þess að kenna ráðherrum að vera landsráðherrar og vekja ábyrgðartilfinning þeirra.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) talaði mikið um kvenfólkið. Talaði hann um þá tillögu sína, að veita því kosningarrétt smátt og smátt, og taldi það furðu, hve lítið fylgi það hefði. Mér virðist, þvert á móti, að tillaga hans muni hafa meira fylgi en eg hefði vænt, og eg fyrir mitt leyti vona, að hún verði ofan á við atkvæðagreiðsluna. En þegar hann talar um að reka konur nauðugar út í stjórnmálaþrasið, þá get eg ekki orðið honum sammála. Eg sé ekki, að nokk­ur kvenmaður þurfi að skifta sér af því frekar en hún vill. Það gildir jafnt um konur sem karla. Nú fer það eflaust svo, að ávalt verða fleiri konur, sem ekki verða húsmæður, annað hvort af því, að þær eiga ekki kost á hjúskap eða girnast hann ekki. Lifa þær svo ógiftar og óstuddar og kæra sig ekki um þessa forsorgara. Þeim er veitt atkvæði í sveitamálum og safnaðarmál­um. Það virðist og rétt, að þær fái full réttindi — þótt hagkvæmast sé, ef til vill, að það verði smámsaman. Það er þess vert að veita því eftirtekt, hver áhrif það hefir, að konur taki þátt í stjórnmálum. Að því er eg veit bezt, þá er Wyoming það eina land í heimi, þar sem konur sitja á þingi. En því er við brugðið, hve kurteislegur sé tónn­inn í því þingi. Það sama kemur hvarvetna fram, þar sem karlar og konur vinna saman, t. d. í skólum, sem bæði sækja karlar og konur. Taki maður að eins blað í hönd frá Wyoming, þá dylst manni það ekki, að kvennfólkið eða hluttaka þess í löggjöfinni setur betri blæ á alla hluti.

Það hefir verið talað um það, að gera dómara landsins ekki kjörgenga. Það hefir verið sagt, að svo væri á Bret­landi, en það er ekki nema hálfur sannleiki. Þar er enginn embættismaður kjörgengur. Hvers vegna á að gera undantekningu með dómarana eina hér. Þeir eru óafsetjanlegir og óháðastir landsstjórninni allra embættismanna.