05.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg skal fyrst leyfa mér að gera grein fyrir breyting­um nefndarinnar í fáum orðum. Það eru einkum orðabreytingar, sem lúta að því að lagfæra málið.

1. breytingartillagan er við 2. gr. »hann er heilagur« falli burt. Þá vill nefndin leggja það til, að í 5. gr. í stað »næsta ár« komi: »innan árs frá þing­rofi«. Ef þetta fengi að standa, eins og það stendur nú, þá gæti farið svo, að það liðu næstum því tvö ár frá því þing væri rofið og þangað til það kæmi saman aftur. Þá leggur nefndin til að falli burt úr 6. gr. »enda sé . . . þingtími er úti«; þetta eru leifar úr gömlu stjórnarskránni, en eins og nú stendur, þá er þetta ótækt. Ef það fengi að standa, þá gæti stjórnin stjórnað með bráðabirgðafjárlögum ár eftir ár, með því að rjúfa þingið, áður en fjárlögin væru samþykt. Breytingartillagan við 9. gr. er ekki annað en leiðrétting prentvillu. Sama er að segja um brtill. við 13. gr. og fyrri brtill. við 15. gr. að þær eru ekki annað en leiðrétting á prentvillum. Síðari breytingartillagan við 15. gr. stafar af því, að samþykt var hér í deildinni við 2. umr. sú breyting, að fjárlaganefndir skyldu einnig hafa frumkvæði í fjármálum. Breyt.till. við 22. gr. er ekki annað en lagfæring á máli.

Þá skal eg víkja mér að breytingartillögum annara háttv. þingmanna. Það eru þá fyrst breyt.till. á þskj. 483 frá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.). Um fyrstu till. er það að segja, að hún stendur og fellur með annari breytingartillögunni. Efni annarar till. er það, að kosningarréttur til efri deildar er bundinn við 30 ára aldur. Meiri hluti nefndarinnar var á móti þessu, en 4 voru með því. Nefndin hefir því eðlilega óbundnar hendur í þessu. Við sem samþykkjum aðra breytingartillöguna, teljum fyrstu tillöguna sjálfsagða. 3. breyt.till. er nefndin öll mótfallin. Við álítum ekki rétt að takmarka kjörfrelsið og ekki heldur að hækka aldurstakmarkið, úr því sem er í frumvarpinu. Eg býst jafnvel við, að flutningsmaður muni taka þessa tillögu aftur til þess að spilla ekki fyrir hinum tillögunum.

Tillöguna á þgskj. 475 getur nefndin ekki aðhylst. Sumir nefndarmenn hefðu að vísu kosið, að ráðherra hefði verið einn fyrst um sinn, en svo hefði mátt fjölga þeim með sérstökum lögum. En hitt hefir orðið ofan á, og eg býst við, að nefndin muni greiða atkvæði með sínum tillögum. Þetta var orðað líkt þessu, í frumvarpi því, sem eg og háttv. samþingismaður minn (J. J.) fluttum og það er ekki stór principmunur á þessu. En það er ekki heppilegt orðalag á tillög­unni nú, svo við höfum hugsað að láta hana eiga sig og sjá hvað efri deild gerir.

Þá er breyt.till. á þgskj. 488 frá 1. þm. N.-Múl. (J. J.) að aftan við 20. gr. bætist, að það megi breyta allri greininni með lögum. Því er enginn á móti.

Þá kem eg að breytingartillögunum á þgskj. 495. Fyrsta till. er ekki annað en umröðun á orðum, og er greinin með því færð til laglegra máls og er nefndin henni því ekki mótfallin.

2. breyt.till. við 5. gr. er ekki annað heldur en 2. breyt.till. frá nefndinni við sömu grein um sama atriði. Nefndin álítur rétt að halda sinni tillögu.

Annars skal eg lýsa yfir því, að nefndin er mótfallin öllum tillögunum á þessu þingskjali nema 12. tillögunni, sem er til bóta. Sérstaklega er nefndin mótfallin varatillögunni við 9. gr., sem er mjög óheppileg. Eg geng að því vísu, að nefndin haldi fast við það, sem hún hefir áður samþykt.