05.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Sigurðsson:

Um breyt­ingartillögu mína á þgskj. 475, að ráð­herra sé einn, en að þeim megi fjölga með sérstökum lögum, skal eg ekki fjöl­yrða. Eg gerði eiginlega grein fyrir henni við 2. umr. frumvarpsins hér í deildinni. Eg tók það fram þá, og tek það fram enn, að þjóðin hefir ekki ósk­að eftir, að ráðherrunum yrði fjölgað. Og yfir höfuð er þjóðarviljinn sá, að farið sé varlega í það að bæta við nýjum hálaunuðum embættum. En þingviljinn er og hefir jafnan verið annar í þessu efni. Þingið hefir hvað eftir annað búið til ný og ný embætti, misjafnlega þörf eða nauðsynleg, og það án þess að þjóðin hafi óskað eftir þeim.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði við 2. umr. málsins, að þessir nýju ráðherrar ættu ekki að fá nema 4000–5000 kr. í laun. Það er aðeins sagt, en ekki sannað. Eg geri ráð fyrir, að þeim verði ekki ætlað minna en 6000 kr. hvorum, og trúað gæti eg því, að launin kæmust áður en langt um liði upp í 8000 kr. Það segir sig því sjálft, að hér er að ræða um hálaunuð embætti. Hvaða gagn gerðu nú þessir nýju ráðherrar? Ekki spara þeir starfskrafta þá, sem nú eru í stjórnarráðinu, að neinum verulegum mun. Landritaraembættið á máske að leggjast niður. En hvað á þá að gera við nú verandi landritara? Setja hann á há biðlaun? Því er haldið fram, að fjölgun ráðherranna eigi meðal annars að miða að því, að lægja hinar pólitísku ófriðaröldur í landinu. Það er mjög efasamt, að þeim tilgangi verði náð. Er þá meiningin að taka ráðherrana sinn af hverjum flokki? Nú eru að minsta kosti 3 pólitískir flokkar hér í landinu, heimastjórnarmenn, sjálfstæðis­menn og skilnaðarmenn. Ætlast menn til að það verði samkomulag milli þessara flokka um það, að hver þeirra til­nefni einn ráðherra. Eg hefi enga trú á því. Mér detta í hug í þessu sambandi vísur skáldsins Jóns Thoroddsens, er svo byrja:

„Í Krukkspá það stendur — en fyr mun þó falla

úr fjallinu skriða á bæinn í Ey.

Að eitt sinn mun koma sú öld, er menn kalla,

öld hinna kyrru, þeir berjast þá ei“.

Það lítur út fyrir, að það sé eitthvað sérstakt, sem liggur á bak við þessa tillögu um fjölgun ráðherranna. Hluturinn er sá, að hér er verið að gera til­raun til að fjölga ráðherrunum í þeim tilgangi, að friða þá hina mörgu, er girnast ráðherrahnossið. (Bjarni Jónsson: Þetta eru ómaklegar getsakir, og ætti forseti að áminna þingmanninn). Þetta eru engar getsakir. Málið horfir svona við frá mínu sjónarmiði. Og þeg­ar svo kemur að því að skifta beininu, þá mun rísa upp óánægja, flokkadrátt­ur og úlfúð út af því, að ekki gátu allir komist að og náð í það að verða ráðherrar.

Í tillögu minni er tekið fram um það, að starfsvið ráðherra og ráðherrastefnu skuli nánar ákveðið með lögum. Það sem vakti fyrir mér með þessu, var það, að það gæti verið ástæða til að ákveða nánar með lögum um starfsvið ráðherra. Gera t. d. ráðherra að skyldu að leita, álits og umsagnar skrifstofustjóranna og fagmanna, sem eru í þjón­ustu landsins, áður en hann tæki ákvarðanir um mikilsvarðandi mál. Eg vænti nú þess, að tillaga mín verði nú samþykt og eg er þess fullviss, að þjóð­in er henni fylgjandi. Það er heldur engin ástæða til nú þegar að fara að fjölga ráðherrum.

Hvað snertir breytingartillögur mín­ar á þingskjali 483, um takmörkun á kosningarrétti og kjörgengi til efri deildar, þá vil eg mæla sem bezt með þeim. Tillögurnar eru alveg í samræmi við hugsun og tilgang frumvarpsins um skipun efri deildar. Í breyt.till. mínum er farið fram á það, að kosningarréttur til efri deildar sé bundinn við 30 ára aldur, og kjörgengi til hennar sömuleiðis.

Eg er þakklátur framsögumanni fyrir undirtektir hans undir 1. og 2. breyt.till. mína á þessu þingskjali um að kosningarréttur manna til efri deildar sé miðaður við 30 ára aldur. Þar á móti fanst honum 3. breyt.till. óþörf. Jafnvel þótt eg geti ekki fallist á það, þá hefi eg þó ekki mikið á móti því að taka hana aftur, ef það skyldi bæta fyrir hinum tillögunum og styðja að því að þær yrðu samþyktar.

En um tillöguna á þgskj. 475, um tölu ráðherranna, er mér langsárast. Það er ótímabært að fara nú að fjölga ráðherrum, og jafnvel þó að eitthvað kunni að mæla með því, að það sé gert, þá kallar ekkert að í því efni. Fjölgun ráðherranna á því að bíða að þessu sinni, bíða betri tíma.