10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

130. mál, tollalög

Framsögum. (Ólafur Briem):

Þetta frumv. inniheldur ekki miklar breytingar frá gildandi lögum, og sérstaklega ekki hvað tollupphæðina á hverri einstakri vörutegund snertir. Það hefir því ekki í för með sér neinn verulegan tekjuauka fyrir landssjóð. En nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að breyta því svo, að það gæfi af sér nokkrar auknar tekjur fyrir landssjóðinn. Ástæðan fyrir því er meðal annars sú, að þingið hefir ekki hreyft við tillögum milliþinganefndarinnar í skattamálum um ýmsan tekjuauka, svo sem lögleiðing fasteignaskatts og eignaskatts af skuldlausri eign og hækkun á tekjuskatti, sem átti að gefa af sér alt að 100 þús. kr. tekjuauka. Ekki hefir heldur verið lagt fyrir þingið frumvarp til laga um stimpilgjald, sem milliþinganefndin áætlaði 30 þús. kr. Ennfremur hefir háttv. deild skilið öðruvísi við frv. um aukatekjur, en gert var ráð fyrir í stjórnarfrumvarpinu, þar sem feld hefir verið niður 70. gr., er hafði inni að halda bráðabirgðafyrirmæli um það, að þar til lög um stimpilgjald koma í gildi, skuli innheimta gjöld þau fyrir þinglestur og vottorð, er nefnd eru í 3. kap. frumv. að viðbættum 50 af hundraði. Tekjuaukinn af því frv. verður því minni en stjórnin hefir gert ráð fyrir. Þetta þótti nefndinni ótækt og hefir því komið fram með tvær aðalbreytingartillögur við tolllagafrumvarpið. Fyrri breyt.till. er sú, að fjölga þeim vörutegundum, sem tollur er lagður á. Nefndin leggur því til, að tollur verði lagður á óáfenga drykki. Það hefir oft verið hugsað um að leggja toll á þá, en hefir ekki verið framkvæmt ennþá. Þá er aðflutningsbannslögin öðlast gildi, mun innflutningur á þessum drykkjum aukast, og því mun þetta verða talsverður tekjuauki fyrir landssjóð. Þessir drykkir eru eingöngu til sælgætis og geta því eins borið toll og aðrar munaðarvörur. Hin breytingartillaga nefndarinnar er sú, að hækka kaffi- og sykurtollinn. Getur verið, að þetta þyki nokkuð djarft, þar sem þessu hefir verið mótmælt á þingmálafundum. Þetta er ekki gert beinlínis til þess að fylla skarð bannlaganna, til þess þyrfti sykurtollurinn að hækka upp í 10 au. fyrir hvert pund og kaffitollurinn upp í 20 au. fyrir hvert pund. En nefndin fer aðeins fram á, að sykurtollurinn verði hækkaður um 1 eyri fyrir hvert pd. uppí 7½ eyri af pundi eða 15 aura fyrir kílógram, og kaffitollurinn um 2 aura fyrir hvert pd. upp í 15 a. pd. eða 30 a. fyrir kílógram. Vona eg að háttv. deild skiljist að hér er hóflega í sakirnar farið, og að þessi tollhækkun geti ekki verið minni, úr því að hún er nokkur á annað borð. Eg treysti því að jafnvel þeir háttv. þm., sem eru á móti mikilli tollhækkun á umræddum vörutegundum, verði þó ekki mótfallnir þessari litlu hækkun.