18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

130. mál, tollalög

Framsögum. (Ólafur Briem):

Nefndin hefir gert nokkrar brtill. við þetta frv., eins og það lá fyrir frá stjórninni. Brtill. fara í þá átt, sumpart að hækka toll á þeim vörum, sem þegar eru tollskyldar, sumpart að taka upp nýja tollstofna og nefndin leyfir sér að stinga upp á tolli á óáfengum drykkjum. Milliþinganefndin í skattamálum hafði einnig lagt það til, að tollur væri lagður á þessa vöru, en stjórnin hafði ekki tekið það til greina í frumv. sínu, sumpart vegna þess að slíkur tollur yrði að skoðast sem verndartollur fyrir innlenda framleiðslu, sumpart af því, að það mundi hindra aðflutning vörunnar og því ekki verða neinn verulegur tekjuauki fyrir landssjóðinn. Að því er snertir þá ástæðu, að hér verði um verndartoll að ræða, þá er hún ekki mikilsverð, því að hér á landi mun enginn óáfengur drykkur vera tilbúinn, nema sódavatn, og nefndin hefir ekki þar stungið uppá nema 2 aura tolli af hverjum lítra. Þetta er svo lág upphæð, að hún getur alls ekki orðið til þess að skapa verndartoll, en hér getur þó verið um nokkrar tekjur fyrir landssjóð að ræða. Að öðru leyti hefir nefndin skift hinum óáfengu drykkjum í tvo flokka. Af vörum þeim, sem undir fyrri flokkinn heyra skal gjalda 10 aura toll af hverjum lítra. Undir þennan flokk heyra límonaði og aðrir samskonar óáfengir drykkir, sem ætlaðir eru óblandaðir til drykkju. Undir hinn flokkinn, sem á að tollast með 50 aurum af lítra, heyra óáfeng ávaxtavín og önnur óáfeng drykkjarföng, sem ekki eru talin í öðrum liðum.

Að því er snertir hækkun á tolli af þeim vörum, sem þegar eru tollaðar, þá hefir nefndin stungið upp á tollhækkun á kaffi, sykri og kakaó. Kaffitollinn, sem nú er 13 aurar af pundi, eða 26 aurar af tvípundi, vill nefndin færa upp í 30 aura af tvípundi. Sykurtollinn vill hún færa úr 6½ eyri upp í 7½ eyri af pundi eða 15 aura af tvípundi; af brendu kaffi, sem nú er tollað með 36 aurum af tvípundi, vill nefndin að tollurinn verði 40 af tvípundi. Þessi hækkun á kaffi- og sykurtollinum er einungis gerð í því skyni að afla landssjóði tekna. Raunar er á ferðinni hér í deildinni annað frumv., um farmgjald af aðfluttum vörum, sem eykur talsvert tekjurnar, ef það verður að lögum, en það er enn þá skamt á veg komið og óvíst hvernig því reiðir af, enda er það í sérstökum tilgangi komið fram, nfl. til þess að jafna upp víntollinn, sem fellur burtu að mestu, ef bannlögin koma til framkvæmda. Tekjuaukinn af þessu frumv., sem nú er til umr. mun nema alls 60 —70 þús. kr., sem sé 20 þús. kr. af kaffitollinum, 40 þús. kr. af sykurtollinum og alt að 10 þús. kr. af hinum nýju tollum. Þessi áætlun mun vera nokkurnveginn ábyggileg, því að kaffi- og sykurtollur hefir altaf verið áreiðanlegur og stöðugur tekjustofn. Sykurs neyta allir, og fjöldinn allur kaffis. Tollurinn kemur að því leyti jafnt niður, að hann skiftist milli allra manna og stétta í landinu. Þess verður að gæta eftir megni, þegar svona tollar eru lagðir á, að þeir verði ekki mjög tilfinnanlegir, og það hygg eg ekki að verði, þótt till. nefndarinnar fái framgang. Hækkunin er ekki svo veruleg, að fólkið verði mikið vart við hana. Verðmunurinn vegna þessarar hækkunar verður svo lítill, að hans verður ekki vart, einkum vegna þess, að kaffi og sykurverðið breytist frá ári til árs, eftir hinu almenna markaðsverði, og þær breytingar hafa mikið meiri áhrif á útsöluverðið en þessi litla tollhækkun. Það er heldur ekki hægt að segja, að tollur þessi sé mjög hár, ef hann er borinn saman við toll á sömu vörum í öðrum löndum fyrir utan Danmörku. Sykurtollurinn er nú sem stendur:

Í Þýzkalandi … 8½ eyrir af pd.

- Noregi ........ 10 au.

- Frakklandi…..12

- Svíþjóð . . … l5½ —

- Austurríki. …. l5½ eyrir af pd.

- Hollandi . . … 19 au. af pundi.

Kaffitollurinn er svo sem hér segir:

Í Svíþjóð 6 au. af pd.

- Noregi 15 —-

- Rússlandi ... 25 —-

- Austurríki ... 35

- Frakklandi . . 50

- Ítalíu 50

Það sést því ljóslega á þessu yfirliti, að tollurinn er ekki ýkjahár hjá okkur í samanburði við samskonar toll hjá öðrum þjóðum. Raunar er þetta ekki neinn mælikvarði fyrir okkur, en getur þó verið gott að hafa það til hliðsjónar.

Þá hefir nefndin komið fram með brt. á þgskj. 653, um að undanþága sú frá tolli, er snertir tóbak til fjárböðunar og sem stjórnarfrv. hefir haldið, falli burt. Ástæða nefndarinnar fyrir þessari brt. er fyrst og fremst sú, að óhentugt er að hafa slíkar undanþágur í tolllögum og naumast gerlegt, nema brýn ástæða sé fyrir hendi. En nefndin verður að líta svo á, að slík ástæða sé hér ekki nú, þótt hún hafi verið fyrir nokkrum árum, þegar eingöngu tóbak var notað sem baðlyf. Nú álítur dýralæknirinn hér í Reykjavík, að tóbak sé óhentugra í meðferðinni en ýms önnur baðlyf, enda mikið dýrara en sum önnur, sem eins heppileg munu vera. Það er engin ástæða til þess að rengja orð dýralæknisins í þessu efni, og því ekki rétt að vera að vernda þetta sérstaka baðlyf.

Enn hefir nefndin leyft sér að koma fram með aðra brtill. á þgskj. 653. í núgildandi lögum er þeirri reglu haldið, að ei skuli reikna toll í brotum, heldur verði brot, sem nemur einum hálfum eða meiru hækkuð upp í heilan og brot, sem ekki nemur hálfum falli burt. Stj.frumv. hefir ekki haldið þessari reglu, en vill að brotin séu talin nákvæmlega, hversu smá sem eru. Nefndin álítur, að óþarfi sé að vera að reikna toll út í smábrotum og vill því halda þeirri reglu, sem fylgt er í núgildandi lögum. Þó hlýtur að leiða af því, að tolleiningin á sumum vörum er tvöfölduð, að reikna verður með brotinu og hefir nefndin því lagt til, að því er þær vörur snertir, að brotið ¾ og þar yfir teljist sem heil tolleining, ¼ alt að ¾ sem hálf, en minna broti sé slept.

Þá er brtill. nefndarinnar á þgskj. 646 viðvíkjandi skipsforða. Í gildandi lögum er svo ákveðið, að eigi skuli greiða toll af vörum, sem ætlaðar eru skipverjum eða farþegum til neyzlu, en jafnframt, að forðinn skuli eigi vera stærri en ætla megi, að nægilegt sé og það lagt undir ákvörðun lögreglustjóra, án þess þó að honum sé gert að skyldu að rannsaka skipsforðann. Af þessu ákvæði hefir það leitt, að brytar hafa oft flutt með sér meira af tollskyldum vörum en þörf var á og selt þær hér við land. Það hefir sannast nokkrum sinnum, en auðvitað eru þau tilfellin fæst, þar sem það kemst upp. Nefndin hefir því lagt það til, að lögreglustjóra sé gert að skyldu að rannsaka skipsforðann í fyrstu höfn, er skipið tekur hér við land og á að sýna skipsskjöl sín eftir gildandi lögum. Reynist svo, að skipsforðinn eða aðrar birgðir sé meiri en þörf er á, þá skal tollur greiddur af því sem umfram er, eftir úrskurði lögreglustjóra.

Fleiri brtill. liggja ekki fyrir og því eigi ástæða til að fara fleirum orðum um frumv. fyr en eg heyri einhverjum mótbárum hreyft.