18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

130. mál, tollalög

Pétur Jónsson:

Það er að eins dálítil athugasemd út af breyt.till. nefndarinnar um að fella burt undanþágu á tolli af tóbaksblöðum, sem notuð eru til sauðfjárböðunar. Stjórnarfrumv., sem vill halda þessari undanþágu hefir orðað greinina nokkuð óheppilega. Það hefði verið nauðsynlegt, að ákvæðið næði til tóbaksblaða, sem notuð verða til lækninga yfirleitt á kvikfénaði. Tóbaksblöðin eru ekki að eins notuð til kláðalækninga, heldur einnig til lækninga á hinni svo nefndu skitupest, sem oft kemur í féð. Það hefir reynst gott meðal við þeim sjúkdómi — eg held einna öruggast af þeim meðulum, sem reynd hafa verið við þessum sjúkdómi, sem getur orðið svo áhrifamikill og skæður, þar sem hann legst á, að það er fullkomlega gaumur að því gefandi. Sjúkdómur þessi hefir áreiðanlega gert eins mikið tjón hér á landi, þar sem hann hefir komið upp og bráðapest, enda þótt hann sé ekki eins almennur. Eg vildi því óska þess, að nefndin tæki þetta til athugunar og breytti greininni svo, að tóbaksblöð skyldu undanþegin tollskyldu, þegar þau væru ætluð til lækninga á kvikfénaði og þannig skyldi farið með söluna á þeim, að ekki væri hægt að misbrúka ákvæði laganna. Menn halda ef til vill, að ekki sé ástæða til þess að undanskilja þessa vöru tollskyldunni, því að ekki muni þurfa svo mikils við, að það verði mönnum verulega dýrt, en þetta er misskilningur, því að þegar pestin kemur upp, duga ekki neinir smáskamtar. Reynslan hefir sýnt, að það þarf ein 4 blöð á hverja kind, og það verður að gefa meðalið inn áður en kindin sýkist til muna og enda öllu fénu til varnar. Það er því sjáanlegt, að þetta hefir mikinn kostnað í för með sér fyrir þá menn, sem fjármargir eru. Þessi skitupest hefir verið rannsökuð af dýralækni og hann hefir talið tóbak bezta meðalið við henni, því að það drepi smáorma í skepnunni, sem sýkinni valda. Eg vil því vona, að nefndin taki þessa athugasemd mína til íhugunar.