18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

130. mál, tollalög

Skúli Thoroddsen:

Eg vil að eins benda á það, að eg get ekki fylgt nefndinni að máli í tillögum hennar um hækkun á kaffi- og sykurtolli. Þegar þessi hækkun var samþykt fyrir nokkrum árum, var því lofað, að hún skyldi ekki vera nema til skamms tíma — en það loforð hefir ekki verið haldið. Eg get ekki litið öðruvísi á, en hækkun á kaffi- og sykurtolli miði að því að auka gjaldþyngsli á þeim hluta þjóðarinnar, sem sízt skyldi og sízt má við því. Það eru þurrabúðarmenn og sjómenn. Þessi flokkur manna á engan kost á mjólk til viðurværis og verður því kaffi að koma í staðinn fyrir hana. Þurrabúðarmaðurinn verður að nota sykur í staðinn fyrir viðbit, þar sem íslenzkt smjör er mjög dýr vara, og hann verður að sætta sig við misjafnlega gott margarine. Sykurinn er því mjög nauðsynlegur, einkum vegna barnanna. Þegar nú litið er á viðurværi þessara manna: graut, púðursykur, brauð með litlu viðbiti og kaffi, þá er harla óviðfeldið að vera að hækka toll á þeim vörum, sem þeir geta ekki án verið, miklu síður en aðrir. Eg verð því að greiða atkvæði móti þessari till. nefndarinnar, enda sé eg ekki, að eigi sé vel hægt að hafa einhver önnur ráð til að fylla í þessi skörð.