09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jósef Björnsson:

Eg vildi leyfa mér að gera örlitla athugasemd út af því, sem háttv. þm. Seyðisfj. sagði. Hann tók það fram, sem aðra aðalástæðu fyrir br.till.. sinni, að við ættum að spara. En satt að segja, þá ganga þær tillögur, sem hér liggja fyrir, ekki í sparnaðaráttina; mér finst það einkennilegur sparnaður, sem háttv. þingm. hér er flytjandi að, og því einkennilegra finst mér það, sem brtill. sú, sem hér er um að ræða fer fram á, að út sé strykuð fjárveiting til stofnunar, sem er landssjóðseign og sem ætluð er til að fullnægja kensluákvæðum, sem voru lögákveðin fyrir 6 árum með reglugjörðinni fyrir Hólaskóla. Þessi reglugjörð kveður svo á, að leikfimi skuli kenna í skólanum, en þetta hefir ekki verið hægt að gera, því hús hefir vantað. En nú, þegar á að kippa þessu í lag, þá kemur háttv. þm. Seyðisfj. fram og segir, að slíkt megi ekki líðast, því það sé nauðsynlegt að spara. En satt að segja finst mér það ósparnaður, að hindra nytsamlega kenslu í skóla, sem er landsstofnun. Í sambandi við þetta skal eg benda á það, sem eg áður hefi tekið fram í háttv. Ed., að í síðasta mánuði var haldið fjölment bændanámsskeið á Hólum. Komu þar saman fleiri tugir bænda, og bændaefni úr nágrenninu og af Norðurlandi. Þar var samþykt, að skora á stjórnina að draga þetta ekki lengur, en gera sitt ítrasta til að leikfimiskensla komist þar á sem fyrst og leikfimishús því reist. Háttv. þm. Seyðisfj. sagði, að nota mætti gamla húsið til að kenna leikfimi í og var það hin aðalástæða sú, er hann hafði brtill. sinni til meðmæla.

En þetta er ekki hægt.

(Sigurður Sigurðsson: Það er hægt).

Nei, það er rangt, hvað sem þessi og hver annar þingm. segir; því er eg kunnugri en þingmaðurinn. Húsið er alt upptekið. Í því búa allir nemendur og tveir kennaranna; þar er matstofa og öll matreiðsla og ef eitthvert herbergi væri afgangs, sem ekki er nema þrengt sé til muna að nemendum og kennurum, þá er full þörf fyrir alt slíkt handa skólabóndanum, enda hefir hann stöðugt haft nokkur ítök í húsið eftir því, sem föng frekast hafa leyft, því hann hefir mjög lítil og léleg húsakynni til afnota, sem hann alls ekki kemst af með. Auk þess eru engin tök á að kenna leikfimi í þessu gamla húsi, sökum þess hvernig herbergjaskipun er varið. Eg vona nú að mönnum sé orðið það ljóst, að ekki sé hægt að nota gamla húsið, og því verði að byggja nýtt hús, ef ekki á að halda áfram að traðka lögákvæðum, sem gilda og gilt hafa í fleiri ár, um stofnun, sem er eign landsins.