21.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

80. mál, aukatekjur landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Það er rétt hjá h. framsm. (Ó. Br.), að það er ekkert aðalatriði í mínum augum, hvar þetta gjald kemur niður, eða hvort miðað er við 25 eða 10 aura, heldur er það hitt, að ekki standi í lögunum þetta ákvæði um þessa tegund útlendra skipa, því að þótt landssjóður misti af þessum tekjum, þá eru þau skip ekki svo mörg, að það muni miklu.

Þá er það annað atriði, að ekki er vanþörf á að breyta um orðalag eldri laganna, þar sem talað er um »skip frá konungsríkinu«, og er »skip frá öðrum löndum í veldi Danakonungs« heldur til bóta. En betur má, ef duga skal. Eg vil að hvergi sjáist í okkar lögum, að gerður sé greinarmunur á því, sem einu nafni eiga að heita og eru útlönd. Ef þetta ákvæði er felt aftan af, þá koma þessi skip inn undir lögin 2. febr. 1894 um aukatekjur, dagpeninga og ferðakostnað sýslumanna 1. gr., eins og hver önnur útlend skip, og »útlend« þýðir þá ekkert annað en »frá öðrum löndum en Íslandi«. Eg býst ekki við að nokkur vilji standa upp og andmæla því, að útlönd séu kölluð hvar sem er í veröldinni utan Íslands. Og þar sem féð, sem hér er um að ræða, dregur landssjóð sama sem ekki neitt, og þar sem hins vegar er farið fram á, að forðast leiðinleg og skökk orðatiltæki, þá vænti eg að háttv. deild samþykki þessa brtill. mína og sezt niður.