13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

81. mál, erfðafjárskattur

Pétur Jónsson:

Þegar milliþingaskattanefndin samdi álit sitt, þá var eg fylgjandi því, eins og eg gerði grein fyrir í nefndarálitinu, að ákvæði um stighækkun erfðafjárskattsins væri tekin upp. Það var mér því gleðiefni, er eg sá, að stjórnin hafði tekið ákvæði í þessa átt upp í frumv., og þó enn meira þegar eg sé, hvernig þingnefndin nú hefir vikist við því. Af því eg sé, að nefndin hefir fallist á hugsun mína í aðalefninu, þá geri eg ekki ráð fyrir að koma með breytingartillögu. Raunar er mín hugsun sú, að hafa stighækkunina ekki takmarkaða, eins og nefndin nú gerir, heldur áframhaldandi, þangað til að það af arfinum, sem umfram er víst takmark, hverfi alt í skattinn, því mjög stórar erfðir hafa ekki reynst farsællegar. Erfðir eru enn ekki stórar hér á landi í samanburði við það, sem þær eru í öðrum löndum. En þetta getur breytst, og er því rétt að setja undir þann leka á meðan það snertir engan, enda er stighækkun sú, er eg fylgi fram, ekki bráð, né heldur há á venjulegum erfðum hér. Mín hugsun er, eins og áður er sagt, að haga erfðafjárskattinum þannig, að það sem er fram yfir visst takmark, hverfi í landssjóð, og það gladdi mig að heyra, að framsögum. er á sama máli. Eg skal játa, að vandkvæði geta verið á að koma fram þessari hugsun minni, og eg get vel felt mig við þetta millistig hjá nefndinni.