15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

81. mál, erfðafjárskattur

Framsögum. (Ólafur Briem):

Nefndin, sem í þetta mál var skipuð, hefir komið fram með tvær aðalbreytingar við frumv. stjórnarinnar. önnur breytingin lýtur að stighækkuninni, þannig að erfðafjárskatturinn sem hundraðsgjald vaxi jafnt og þétt, eftir því sem arfurinn hækkar. Þó er hámarkið sett hér 5 af hundraði, þegar arfurinn hverfur til þess hjóna, er lifir hitt eða niðja hins látna. En þar af leiðir, að stighækkunin hættir, þegar arfurinn nær 40 þús. kr., með því að lágmark erfðafjárskattsins í þessum flokki er 1 af hundraði.

Þegar arfurinn fellur til foreldra hins látna eða niðja þeirra, sem alment er kallað 1. síðulína, þá ætlast nefndin til að hundraðsgjaldið sé 5 af fyrstu þúsund kr. og af næstu þúsund kr. 5½ sem hækki svo jafnt þangað til erfðagjaldið er orðið 25 af hundraði, sem hér er hámark. Lágmarkið er hér sett 5 af hundraði í stað þess að í frumv. stjórnarinnar var lágmarkið 6 af hundraði. Það er eins með þessa breytingu og fyrri breytinguna, að hún nemur staðar, þegar arfurinn er orðinn 40 þús. kr.

Þegar arfurinn gengur til annarar síðulínu, sem sé afa eða ömmu hins látna eða niðja þeirra eða fjarskyldari erfingja eða óskyldra, er lágmark erfðafjárskattsins sett 10 af hundraði og hámarkið 50 af hundraði.

Þetta hámark er líka bundið við 40 þús. kr. Það er ef til vill hægt að segja, að það sé sett nokkuð af handahófi, en þessi varð nú niðurstaðan. Lágmarkið á 3. erfð á staflið C er fært úr 12% niður í 10%.

Enn hefir nefndin stungið upp á einni breytingu á stj.frv. Í því er fyrirmælt, að þegar annað hjóna deyr og hitt situr í óskiftu búi, þá verði það þegar að borga erfðafjárskatt. Þetta áleit nefndin nokkuð hart, því að því fer svo fjarri, að hagur búsins batni að neinu leyti við dauða annars hjónanna, heldur þvert á móti. Því vill nefndin fella þetta ákvæði burt, en til þess að ná tilganginum með ákvæðinu, sem átti að varna því, að tapaðist erfðafjárskattur, hefir nefndin komið fram með nýja grein, 5. gr., sem ákveður, að ef annað hjónanna deyr, skuli gera búið upp, og ákveða hvað mikill erfðafjárskattur hefði orðið, ef búinu hefði verið skift og skal hlutaðeigandi gefa erfðafjárskýrslu, sem svo verður geymd þangað til skifti fara fram. Um gjafir er sama að segja; með 5. gr., sem er 6. breyt.till. nefndarinnar er reynt að sneiða hjá ósanngirni og þó að nokkru leyti að tryggja það, að landssjóður tapi ekki skatti af slíkum gjöfum, þótt dráttur verði á greiðslunni.

Aðrar verulegar efnisbreytingar hafa eigi komið frá nefndinni. Hitt er aðallega orðabreytingar og ekki ástæða til að fjölyrða um þær.